19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2982 í B-deild Alþingistíðinda. (3126)

5. mál, barnalög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð, til skýringar á undirskrift minni og meðmælum mínum í allshn. með samþykkt þessa frv.

Frv. kom með lítils háttar, en þó nokkrum breytingum frá Nd. Ég var ekki einn um það af nm. Ed. að æja nokkuð. Sú áleitna tilfinning greip mig við lestur frv., að hér hefðum við rétt einu sinni fengið þýdd dönsk lög, erlend lög, þar sem efnt væri til lagaákvæða sem e. t. v. væri ekki bein þörf hér á landi ellegar aðhæfa þyrfti fremur þjóðháttum okkar, venjum og félagslegum aðstæðum.

Í heild má segja að maður finni fyrir svölum skugga Stóradóms, lítils háttar a. m. k., í ýmsum lagagreinum, ekki bara í 50. gr. sem hæstv. ráðh. Svavar Gestsson vakti athygli á áðan, heldur víðar. Að mínu viti hefði verið betra að fresta því að samþykkja frv. á þessum vetri, á þessu þingi, og að því hefði ég reynt að stuðla ef ég hefði séð nokkra rökstudda ástæðu til þess að ætla að við fengjum málið miklu betur búið fyrir annað þing. Það var nokkur ábyrgðarhlutur að stöðva frv. í allshn. Ed. núna vegna þess að þrátt fyrir þá meinbugi, sem ég hef nú vakið máls á á þessum lagabálki, geymir hann óneitanlega fjölmörg atriði sem eru til þess fallin að tryggja rétt barna í mjög þýðingarmiklum tilvikum.

Ég geri mér vonir um að stutt kunni að verða í það, að flutt verði öðru sinni frv. til barnalaga sem þá verði fært meira til samræmis við skynsamlegar breytingar á íslenskri réttarfarslöggjöf að ýmsu leyti. En ég vildi ekki taka á mig ábyrgð á því — og hið sama hygg ég að gilt muni hafa um flesta aðra fulltrúa í allshn. Ed. — að bregða nú fæti fyrir samþykkt frv. með þeim breytingum þó sem á því voru gerðar í Ed. og allar hníga í þá átt, þær sem til raunverulegra breytinga teljast, að gera frv. skynsamlegra en það áður var.