19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2983 í B-deild Alþingistíðinda. (3128)

262. mál, lagmetisiðnaður

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir hönd hæstv. iðnrh., sem er fjarverandi, fyrir frv. til l. um Sölustofnun lagmetis og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins. Frv. þetta er að meginstofni samið af nefnd framleiðenda sem aðild eiga að Sölustofnun lagmetis. Tillögur nefndarinnar voru kynntar á fulltrúaráðsfundi Sölustofnunar lagmetis sem fól stjórn stofnunarinnar að óska eftir því við iðnrh. að frv. yrði flutt á Alþingi.

Frv. nefndarinnar hefur tekið nokkrum breytingum eftir athugun iðnrn. á því, og við meðferð málsins í ríkisstj. kom fram að einstakir ráðherrar höfðu fyrirvara um endanlega afstöðu til vissra atriða í frv. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að tekjur Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins falli niður hinn 1. apríl n. k., og er því mikilvægt að frv. þetta nái fram að ganga hið fyrsta.

Frv. skiptist í þrjá meginhluta. I. kaflinn fjallar um Sölustofnun lagmetis, II. um gjöld af lagmeti og hinn síðasti um Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir stórfelldum breytingum á skipulagi Sölustofnunar lagmetis í framtíðinni, en jafnhliða því sem tekið er á þeim atriðum, sem bundin eru tímamörkum í gildandi lögum, gerir frv. ráð fyrir ýmsum viðbótarákvæðum sem tilfinnanlega skortir í gildandi lög, m. a. varðandi ábyrgð aðila stofnunarinnar og fleiri tengd atriði.

Helstu efnisbreytingar í frv. frá gildandi lögum eru þessar:

1. Fulltrúaráð kjósi alla stjórnarmenn í stað þess að ráðh. skipi tvo af fimm stjórnarmönnum.

2. Sölustofnun lagmetis er veittur einkaréttur til sölu og útflutnings á lagmeti til lands þar sem ríkið er aðalkaupandinn, þó þannig að viðskrn. er heimilt að veita aðila utan stofnunarinnar undanþágu þegar sérstakar ástæður mæla með því.

3. Komið verði á fót stofnsjóði sem aðila stofnunarinnar greiða í í hlutfalli við sölu hennar á vörum þeirra.

Stofnsjóður stendur sem hlutur aðila í stofnuninni og takmarkast ábyrgð þeirra í skuldbindingum stofnunarinnar við þá upphæð.

4. Atkvæðisréttur aðila á fulltrúaráðsfundum fari eftir verðmæti útflutnings á liðnu reikningsári. Enginn getur þó farið með meira en 15% atkvæðamagns.

5. Þróunarsjóði lagmetis verði skipuð sérstök stjórn og hlutverk sjóðsins takmarkað við veitingu lána eða styrkja til framleiðenda lagmetis til útflutnings og til Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins.

Varðandi fyrsta atriðið, um samsetningu og kjör stjórnar Sölustofnunar lagmetis, má segja að sú tilhögun, sem frv. gerir ráð fyrir, sé eðlilegt framhald af þeirri þróun sem orðið hefur og stefnt hefur að því, að framleiðendur sjálfir taki alhliða við stjórn og ábyrgð stofnunarinnar. Er stofnunin naut ríkisframlags samkv. lögum fyrstu fimm starfsár hennar skipuðu ríkisskipaðir fulltrúar meiri hluta stjórnar eða þrjá af fimm. Er hinn opinberi styrkur féll niður að þessum fimm árum liðnum tóku framleiðendur við meiri hluta stjórnar og skipaði ráðherra tvo stjórnarmenn, en kjörtímabili þeirra lýkur 1. apríl n. k. Með frv. er gert ráð fyrir að frá og með næsta aðalfundi fulltrúaráðs framleiðenda kjósi það alla stjórnarmenn stofnunarinnar.

Önnur meginbreyting er sú, að skýrt er kveðið á um að Sölustofnunin hafi einkarétt á sölu og útflutningi á lagmeti til landa þar sem ríkisstofnun, ríkið sjálft eða aðili fyrir þess hönd er aðalkaupandinn. Ákvæði þar að lútandi er í núgildandi lögum, en framkvæmdin hefur orðið önnur og misjöfn, og þótti því nauðsynlegt að taka hér af öll tvímæli. Samkv. frv. er viðskrh. þó veitt heimild til undanþágu frá þessu ákvæði, að fenginni umsögn Sölustofnunar lagmetis. En gera verður ráð fyrir að undanþáguheimild þessi verði aðeins notuð ef sýnt er að unnt sé að ná hagkvæmari samningum.

Í Noregi er nú í undirbúningi stofnun nýrra sölusamtaka lagmetisiðnaðar. Þeim undirbúningi er ekki endanlega lokið, en ljóst virðist að þar er stefnt að því að um bindandi aðild framleiðenda verði að ræða og sölusamtökin komi fram sem ein heild á erlendum mörkuðum. Samtökin munu hafa einkarétt á sölu lagmetis gagnvart ríkjum þar sem er einn aðalkaupandi að lagmeti, og enn fremur einkarétt á öðrum mörkuðum fyrir tvær helstu lagmetisvörur Norðmanna um þessar mundir, þ. e. sardínu og skelfisk.

Þriðja meginbreytingin er sú, að aðilar að stofnuninni leggi henni fé í hlutfalli við verðmæti þeirrar vöru sem hún selur fyrir þá. Fé þetta stendur sem lán til stofnunarinnar og má verja því í þarfir hennar. Stofnsjóðurinn ákvarðar uppgjör við aðila, sem ganga úr henni, svo og uppgjör á milli aðila stofnunarinnar ef til slita hennar kemur. Sem fyrr segir takmarkast ábyrgð aðila stofnunarinnar á skuldbindingum hennar við framlög þeirra, líkt og um hlutafélag væri að ræða.

Þess má geta hér, að í 5. gr. frv. er orðuð sú almenna regla að framleiðendur beri fulla ábyrgð gegn Sölustofnuninni á vöru sinni og hún eigi því endurkröfurétt á hendur framleiðanda vegna galla á vörum og annarra vanefnda hans.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að atkvæðisréttur aðila að stofnuninni á fulltrúaráðsfundum sé í hlutfalli við framlög þeirra. Til þess að tryggja hagsmuni hinna smærri aðila er hámark atkvæðamagns einstakra aðila bundið við 15%.

Í fimmta lagi eru sett sérstök ákvæði um stöðu Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins og ákvæði um tekjur til hans eru framlengd, en sem fyrr segir falla þær niður 1. apríl n. k. Gert er ráð fyrir að gjöld af grásleppuhrognum lækki í 1% og falli niður 1. apríl 1982, enda stendur til að grásleppuhrognaframleiðendur stofni eigin sjóðakerfi eins og kunnugt er.

Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika, sem steðjað hafa að íslenskum lagmetisiðnaði á undanförnum árum, hefur hlutdeild hans í útflutningi iðnaðarvara aukist jafnt og þétt og nam um 4.9 milljörðum gkr. árið 1980. Bæði árin 1979 og 1980 áttu ellefu lagmetisverksmiðjur hlut að útflutningi Sölustofnunar lagmetis, þó mismikinn, þar sem fjórar verksmiðjur framleiddu meginuppistöðu alls útflutnings á vegum stofnunarinnar eða 93.2%, þar af tvær þeirra um 70%. Það er vissulega mikið áhyggjuefni, hversu dreifing framleiðslunnar er lítil og nýting margra aðildarverksmiðja er takmörkuð. Veldur þar m. a. hráefnisskortur þar sem hráefni hefur vantað einmitt þegar markaðir eru reiðubúnir til að taka við vörunni. Er þar einkum átt við þorsklifur, en því fór fjarri á s. l. ári að unnt væri að anna eftirspurn eftir henni.

Alls voru 15 tegundir lagmetis framleiddar á árinu og verður að telja það allmikla vörubreidd.

Athyglisvert er að á fyrstu árum stofnunarinnar var nær öll sala Sölustofnunar lagmetis til Austur-Evrópulanda, einkum Sovétríkjanna, eða allt að 80%. En þetta hlutfall hefur minnkað hin síðari ár eftir því sem tekist hefur að afla nýrra markaða. Á síðasta ári nam sala til Austur-Evrópu rúmum 40% af heildarútflutningi lagmetis.

Hér má enn minna á að lagmeti er yfirleitt vandmeðfarin tegundarvara þar sem miklar og vaxandi kröfur eru gerðar til umbúða, tölvumerkinga fyrir stórverslanir og alls kyns merkinga og texta á fjölmörgum tungumálum, auk þyngdarmerkinga sem eru breytilegar eftir löndum. Eins eru þess dæmi að merkingar á fleiri en einu tungumáli eru lögbundnar í einu og sama landinu, t. d. í Kanada og í Finnlandi, þannig að að mörgu verður að hyggja á sviði markaðsmála að framleiðslu lokinni áður en unnt er að koma vörunni til kaupenda. Af þessum og fleiri ástæðum verður að telja framleiðslu og útflutning á lagmeti með vandasamari útflutningsgreinum sem stundaðar eru á Íslandi.

Í lagmetisiðnaði starfa alls um 600–700 manns á öllu landinu og eru lagmetisverksmiðjur þýðingarmikill þáttur í atvinnulífi margra þéttbýlissvæða. Af þessu má ljóst vera að nauðsynlegt er að hlúa að lagmetisiðnaði með lagasetningu þessari og á annan hátt þannig að hann geti, ef rétt er á málum haldið, orðið enn mikilvægari þáttur í þjóðarbúskapnum. Er það von mín að góð samstaða náist um frv. þetta til þess að eðlilegur vöxtur iðngreinarinnar verði sem best tryggður.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinn þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.