19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2985 í B-deild Alþingistíðinda. (3129)

262. mál, lagmetisiðnaður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns, sem ég ætla ekki að hafa langt að þessu sinni, taka það fram, að ég fagna því, að þetta frv. er komið fram, og mér er mikil ánægja að því að taka undir flest af því sem hæstv. ráðh. sagði þegar hann mælti fyrir þessu frv. Ég hef átt þess kost að kynnast undirbúningi þessa máls þar sem ég gegndi störfum formanns stjórnar þessarar stofnunar um skeið, eins og mönnum mun eflaust kunnugt, og flest meginatriði í þessu frv. voru mótuð þá. Ég vil sérstaklega fagna því, að hæstv. ráðh. hefur lagt þetta frv. þannig fram að gert er ráð fyrir að framleiðendur sjálfir taki algerlega við stjórn þessarar stofnunar og beri ábyrgð á henni, en sérstök stjórn verði síðan yfir Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins, sem eðlilegt er að sé skipuð að hluta af ríkisvaldinu, þar sem þar er ráðstafað skattpeningum, sem innheimtir eru í þann sjóð bæði samkv. gildandi lögum og þessu frv. þegar það er orðið að lögum, sem vonandi verður á þessu þingi.

Það er aðeins eitt atriði á þessu stigi málsins sem ég vildi gera hér að umræðuefni. Í 2. gr. þessa frv. segir svo í b-lið, að stofnunin annist sölu á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum til landa þar sem ríkisstofnun, ríkið sjálft eða aðili fyrir þess hönd er aðalkaupandinn. Sölustofnun lagmetis hefur einkarétt til sölu og útflutnings á lagmeti til þeirra landa sem ákvæði þetta nær til. Þetta er efnislega það sem er í gildandi lögum, að Sölustofnun lagmetis hefur einkarétt til að selja lagmeti til þessara landa. Það tel ég vera eðlilegt og sjálfsagt hagsmunamál íslenskra framleiðenda og Íslendinga, að þannig sé að málum staðið á þessum mörkuðum, þar sem einn kaupandi getur ráðið verði, ríki eða ríkisstofnun getur ráðið verðinu, að margir íslenskir aðilar séu ekki að bjóða sömu vöruna og þá kannske á misjöfnu verði til þessara landa. Á það vil ég samt leggja áherslu, að á undanförnum árum hefur Sölustofnun lagmetis gagnstætt þessu, að því er varðar frjálsu markaðina, tekið upp þá stefnu að rýmka möguleika til þess að aðrir aðilar flytji út lagmeti til þeirra landa. En fyrir þær verksmiðjur, sem eru aðilar að Sölustofnuninni sem slíkri, hefur umboðslaunum í þeim tilvikum verið skipt.

En þar sem einn aðili, ríkið eða ríkisstofnun, er aðalkaupandinn og getur ráðið verðinu, þar tel ég mjög varhugavert að opna þá heimild sem í þessari grein felst. En í framhaldi af þessu stendur: „Þó er viðskrh. heimilt í einstökum tilvikum að veita aðila utan stofnunarinnar undanþágu frá einkaréttarákvæði þessu, enda sýni aðilinn fram á að hann geti fengið hagkvæmara verð en stofnunin. Leita skal umsagnar stjórnar Sölustofnunar lagmetis áður en slík undanþága er veitt.“

Hæstv. ráðh. gat þess, hvernig verið er að vinna að þessum málum í Noregi. Nú er ég ekki að mæla með því, að farið verði eins að og verið er að gera þar, því að þar er ætlast til að það verði bindandi að allir lagmetisframleiðendur verði í einni stofnun og komi fram sem einn aðili á öllum mörkuðum, bæði þeim mörkuðum þar sem einn kaupandi er og þar sem margir kaupendur eru. Þetta held ég að sé leið sem við Íslendingar mundum ekki vilja fara. En ég bendi alveg sérstaklega á að okkur er nauðsyn að hafa um þetta mjög ákveðnar reglur, að því er varðar markaði þar sem einn kaupandi getur ráðið verðinu. Þetta undanþáguákvæði getur valdið því, að um verði að ræða truflun á sölustarfseminni á þessum mörkuðum, það er alveg ljóst. Ég þekki af reynslu að það hefur verið reynt að gera þetta. Þó að Sölustofnunin hafi ótvíræðan einkarétt samkv. lögum hefur þetta verið reynt undanfarin ár, og það liggja fyrir alveg óyggjandi gögn um að það hefur orðið til þess að trufla og lækka verð eða komið í veg fyrir að Sölustofnunin hafi náð því verði sem hún annars hefði getað náð að okkar mati. Þess vegna tel ég að þetta mál þurfi að skoða mjög vel.

Ég er mjög mikill frjálshyggjumaður þegar ég tel að Íslendingar hafi hagsmuni af því að frjálshyggja ríki. En ég er líka jafnmikill fylgjandi þess að við högum málum okkar þannig, að þegar við höfum hag af séum við ekki að slá af því að hafa samtakamáttinn í bakhöndinni. (StJ: Vill ræðumaður ekki að einstaklingurinn fái að græða?) Jú, en ekki á því að bjóða útflutningsvöru á lægra verði, vegna þess að þá tapar einhver á því og það vil ég koma í veg fyrir.

Ég bið hv. iðnn. að skoða þetta mál rækilega, hvort ekki sé rétt að hafa þetta óbreytt eins og það er í lögunum þannig að ekki verði um það að ræða að truflanir verði á framboði á lagmeti á þessum mörkuðum með þeim afleiðingum e. t. v. að íslenskir framleiðendur og þar með þjóðin fái lægra verð fyrir þessa vöru.

Ég held herra forseti, að ekki sé ástæða til að fara frekari orðum um þetta. Ég vil endurtaka það, að ég fagna því, að þetta mál er komið fram, og styð það í öllum meginatriðum, en tel að þetta mikilvæga atriði þurfi að skoða vel.