19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2988 í B-deild Alþingistíðinda. (3133)

249. mál, ólíuleitarmál og hagnýtar hafsbotnsrannsóknir

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni að flytja á þskj. 486 frv. til l. um skipan olíuleitarmála og hagnýtra hafsbotnsrannsókna á íslensku yfirráðasvæði. Megintilgangur þessa frv. er að fella olíuleit og hagnýtar hafsbotnsrannsóknir að ákveðnu skipulagi, efla rannsóknir á þessu sviði og undirbúa hugsanlega olíuvinnslu á íslensku yfirráðasvæði. Frv. gerir ráð fyrir því, að Alþingi hafi aukin áhrif á gang þessara mikilvægu mála og kosin verði sjö manna þingkjörin nefnd sem annist þau víðtæku verkefni á sviði hagnýtra hafsbotnsrannsókna og olíuleitarmála sem í frv. eru tilgreind. Hér er um hliðstætt form að ræða og á kosningu orkuráðs og kosningu stjóriðjunefndar samkv. tillögum sem við sjálfstæðismenn höfum flutt á þessu þingi.

Við Íslendingar höfum nú í raun eignast mikil yfirráðasvæði á hafsbotni utan og innan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Því miður eru grundvallarrannsóknir og hagnýtar rannsóknir mjög skammt komnar á hafsbotni þessa svæðis. Þetta hefur þegar valdið erfiðleikum í viðræðum um yfirráðarétt okkar á hafsbotninum utan 200 mílna lögsögunnar. Í viðræðum við Norðmenn um hafsbotninn milli Íslands og Jan Mayen, þar sem til voru kvaddir sérfræðingar frá nokkrum löndum, voru Íslendingar þeir einu sem gátu ekki lagt fram rannsóknaniðurstöður á þessu umdeilda svæði máli sínu til stuðnings þótt þeir gerðu kröfur til yfirráða þar. Sama máli gegnir raunar um fleiri hafsvæði, eins og hagsmuni okkar á svæðinu milli Íslands og Bretlandseyja, svonefndu Hatton-Rockall-svæði.

Ljóst er að tími er kominn til að efla og auka rannsóknir á jarðlögum hafsbotnsins innan og utan íslenskar efnahagslögsögu. Á árinu 1978 veitti þáv. iðnrh. bandaríska fyrirtækinu Western Geophysical Co. of America leyfi til mælinga setlaga norðan Íslands. Leyfið var bundið ýmsum skilyrðum um eftirlit og afhendingu rannsóknargagna. Um þessar rannsóknir ásamt fleirum gaf iðnrh. Alþingi skýrslu hinn 10. jan. 1980 og fylgir hún í fskj. með þessu frv.

Þá hefur jarðfræðingurinn Karl Gunnarsson tekið saman skýrslu á vegum Orkustofnunar um vitneskju og stöðu þekkingar á hafsbotninum umhverfis Ísland og fylgir hluti hennar einnig til upplýsinga.

Þessar skýrslur sýna, svo að ekki verður um villst, að brýn nauðsyn er á að efla þessar rannsóknir og taka í alvöru á þeim möguleika, að olía og önnur hagnýt efni kunni að finnast á íslensku landgrunni og yfirráðasvæði okkar. Engum blöðum er um það að fletta, að niðurstöður rannsókna, þar sem setlög hafa fundist á svæði úti fyrir Eyjafirði og Skjálfanda, hafa varpað nýju ljósi á þekkingu sérfræðinga á jarðfræði hafsbotnsins umhverfis Ísland. Engin leið er á grundvelli þeirra einvörðungu að fullyrða um tilvist olíu á þessum slóðum, en líkurnar hafa stóraukist fyrir því, að um slíkt gæti hugsanlega verið að ræða.

Brýna nauðsyn ber til að halda þessum rannsóknum áfram. Líkast til þarf að setja út nýjar mælilínur á þessu svæði og gera frekari setlagakönnun þar á sérstaklega útbúnum skipum áður en hafist yrði handa um boranir. Þess má geta, að 1000 km mælilína, sem talin er lágmarksverkefni ef skip er fengið til slíkra mælinga, er talin kosta 400–500 millj. gkr.

Á fyrrnefndu Eyjafjarðar- og Skjálfandasvæði, þar sem setlög hafa fundist, er Flatey á Skjálfanda, eins og kunnugt er. Þegar nægilegum yfirborðsmælingum er lokið er mjög auðvelt að fá nauðsynlega vitneskju um jarðlög á þessu svæði og ganga úr skugga um tilvist olíu með tilraunaborun í Flatey. Slík borun hefur mikla kosti fram yfir borun á palli í hafsbotninn. Borun á landi er margfalt ódýrari og mengunarhætta er hverfandi miðað við borun á sjó og nær engin. Að þessum rannsóknum þarf því að vinna bráðan bug næstu 2–3 árin og nota þau hagstæðu skilyrði að bora til þess að rannsaka þessi jarðlög í Flatey eða á öðrum stöðum þar sem henta þykir að bora, fyrst og fremst á landi, þar sem borun á sjó er bæði dýr og hefur líka í för með sér nokkra mengunarhættu.

Þess má geta, að við Íslendingar verðum mjög háðir olíuinnflutningi á næstu árum þrátt fyrir auðlindir vatnsog hitaorku í landinu. Orkuspárnefnd hefur spáð því, að olíunotkun minnki nokkuð fram til aldamóta vegna hagnýtingar innlendra orkugjafa og sparnaðarráðstafana. Samt sem áður er innflutningsþörfin talin vera um 560 þús. tonn á aldamótum á ári í samanburði við 570 þús. tonn á árinu 1980. Þetta er miðað við ítrasta sparnað og að allir kostir á hagnýtingu vatns- og varmaorku hafi verið nýttir.

Reynslan sýnir hvað það kostar að vera eins háður innflutningi olíuvara og verið hefur. Það hlýtur því að vera algert nauðsynjamál að ganga úr skugga um hugsanlega olíuvinnslu umhverfis Ísland, einkum ef svo vildi til að unnt væri að vinna olíu með fast land undir fótum, eins og í Flatey á Skjálfanda, þar sem mengunarhætta í sjó er nánast engin.

Þótt ég hafi, herra forseti, lagt hér nokkuð ríka áherslu á olíuleit fjallar þetta frv. einnig um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir að öðru leyti. Einsýnt virðist að allar hagnýtar hafsbotnsrannsóknir séu á vegum sama aðila í stjórnkerfinu. Verkefni á þessu sviði eru gífurleg, eins og bent var á hér að framan, og væri það eitt út af fyrir sig nægilegur rökstuðningur fyrir því skipulagi og eflingu þessara rannsókna sem frv. gerir ráð fyrir.

Í frv. eru aths. við einstakar greinar og skal ég fara örfáum orðum um þær að lokum.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir að þessi mál heyri undir iðn.- og orkuráðherra. Um þetta eru tekin af tvímæli, en nokkur styrr stóð um afskipti ráðuneyta af setlagarannsóknum sem hófust 1978. Rannsóknaráð heyrir t. d. undir menntmrh. Hér eru tekin af tvímæli um að þetta skuli heyra undir orkuráðherra.

Í 2. gr. er ákvæði um það að kjósa þingnefnd til að fara með þessi mál. Er í rauninni ekkert um þá grein að segja annað en það, að þar er farin nákvæmlega sama leið og þegar um kosningu á orkuráði er að ræða.

Í 3. gr. er kveðið svo á, að gera skuli áætlun til nokkurra ára um að ljúka sem fyrst grundvallar- og hagnýtum hafsbotnsrannsóknum.

Í 4. gr. er talið upp nokkuð ítarlega hvert skuli vera hlutverk olíuleitarnefndar, sem svo er nefnd. Það er auðvitað matsatriði hversu ítarleg upptalning á að vera í frv. og lögum sem þessum, en hér hafa verið settir fram níu töluliðir og þetta verkefni skilgreint nokkuð nákvæmlega.

Í 5. gr. er kveðið á að Orkustofnun sé falið að hafa á hendi framkvæmdastjórn fyrir nefndina. Þess verður að gæta, að þessi deild sé nægilega aðgreind frá núverandi starfsemi Orkustofnunar, vegna margvíslegra leyndarákvæða sem þarf að fjalla um þegar rannsóknasamningar eru gerðir við utanaðkomandi aðila. Að öðru leyti er um svo sérhæft verkefni að ræða að sjálfstæði deildarinnar er nauðsynlegt.

Í 6. gr. er gert ráð fyrir að nefndin taki til hendi um ítarlegri laga- og reglugerðarsetningu um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir, olíuleitarmál og olíuvinnslu. Þetta frv. er að sjálfsögðu frumsmíð og er eðlilegt að nefndin sinni þessum störfum og setji fram ítarlegri hugmyndir og reglur um þessi efni, m. a. undirbúi reglugerð sem kveði á um mengunarmál og önnur slík atriði.

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Það ætti að vera öllum hv. dm. ljóst, hvaða máli er hér hreyft. Ég vil gera að tillögu minni að málinu verði vísað að lokinn þessari umr. til hv. iðnn.