19.03.1981
Efri deild: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2995 í B-deild Alþingistíðinda. (3138)

249. mál, ólíuleitarmál og hagnýtar hafsbotnsrannsóknir

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mig langar að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hér hefur gefið okkur, og ákvörðun hans um að fela nefnd Íslendinga í New York, sendinefndinni á hafréttarráðstefnu, að taka upp viðræður við Breta og Íra þar og þá Færeyinga að sjálfsögðu líka. Það mun þá að sjálfsögðu eitthvað þoka málinu áleiðis, þó að auðvitað sé allt rétt sem hann sagði um það, að engin niðurstaða verður á þessum fyrstu fundum. En hálfnað er verk þá hafið er, og ég á von á því, að ef hyggilega er á málum haldið geti jafnvel komið út úr slíkum samningaumleitunum heildarsamkomulag þessara fjögurra þjóða, sem væri auðvitað gífurlega mikilvægt og ánægjulegt ef svo margar þjóðir leystu sín vandamál og sína árekstra með heildarsamkomulagi um þetta mikla hafsbotnssvæði, sem getur verið, eins og ég sagði, og meira segja eru taldar miklar líkur til að sé mjög auðugt af gasi og olíu. Þetta er allt mjög ánægjulegt.

Ég vil einnig þakka undirtektir annarra hv. ræðumanna. Auðvitað er okkur flm. það ekkert hjartans mál að frv. sé samþykkt,nákvæmlega í þessu formi. Það er auðvitað málefnið sjálft sem fyrir okkur vakir, en ekki hvaða háttur sé á hafður. Aðalatriðið er að slíkar boranir verði framkvæmdar og þessar athuganir haldi áfram og verði með vaxandi hraða og vaxandi þunga því að þarna er mikið verk óunnið. Auðvitað hefði verið æskilegast að við hefðum nú þegar getað ákveðið ytri mörk landgrunns okkar til suðurs og raunar út af Reykjanesskaganum líka, en þetta er í mótun á hafréttarráðstefnu og eins í þeim samningum sem fram fara, og úr því að þessi fundur er nú byrjaður í New York er eðlilegt að sjá hverju þar vindur fram áður en við grípum til einhliða ákvarðana um ytri mörk landgrunnsins sem gætu verið kannske 350 mílur suður í hafi.

Um hafréttarráðstefnuna að öðru leyti vita menn að það er mikil tvísýna um gang mála þar, en allar líkur eru þó á því, þó að Bandaríkjamenn hafi í upphafi ráðstefnunnar sett fram allharkaleg ummæli, að reynt muni verða til hins ítrasta að ljúka ráðstefnunni á þessum fundi. Það er markmiðið, og þá þurfa íslensk stjórnvöld auðvitað þegar í stað að gera upp hug sinn og neyta allra þeirra ítrustu réttinda sem Íslendingar kunna að eiga eftir hinum nýja sáttmála, jafnvel þótt hann hafi þá ekki verið formlega staðfestur, ef menn vita um efni hans, hvert það verður við staðfestinguna. Ef þessum fundi lýkur með þeim hætti, má auðvitað engan dag missa að vinna að framgangi þessara mála og tryggja réttindi okkar, bæði á Rockall-svæðinu og Reykjaneshrygg, og með sama hætti auðvitað að halda til haga þeim rétti sem við áunnum okkur með Jan Mayen-samkomulaginu. Það var ánægjulegt að hæstv. ráðh. skyldi upplýsa að sáttanefndin væri að störfum, og vonandi verður þeim lokið fyrr en síðar og þá með ánægjulegum hætti.

Ég vil gjarnan nota þetta tækifæri til að lýsa enn yfir þeirri skoðun minni, að ég teldi langsamlega æskilegast að hert yrði á þeirri hugsun, sem fram kemur í sáttmálanum við Norðmenn, að um sameiginlega hagnýtingu á svæðinu yrði að ræða bæði að því er fiskveiðar varðar og eins hafsbotninn. Eðlilegast væri að því er hafsbotninn varðar að mínu mati og hefur alltaf verið, að Norðmenn og Íslendingar ættu hann í sameiningu, óskiptan í sameiningu eða einhvern hluta hans, a. m. k. svæðið frá Jan Mayen til Íslands væri sameign þessara tveggja ríkja og hagnýtt af þeim í sameiningu. Ég vona að samninganefndarmaður okkar, Hans G. Andersen, reyni að halda á málum einmitt á þann veg og íslensk stjórnvöld svo að öðru leyti.