19.03.1981
Neðri deild: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2998 í B-deild Alþingistíðinda. (3144)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um tímabundið olíugjald til fiskiskipa sem lagt var fram í Ed. og hefur verið samþ. þar og er hingað komið. Þetta gjald er að sjálfsögðu í tengslum við fiskverðsákvörðun um miðjan febrúar. Með þeirri ákvörðun var fiskverð hækkað frá áramótum um 18%, en 6% frá 1. mars, en jafnframt varð að samkomulagi í tengslum við þá ákvörðun að olíugjald yrði eins og það var í lok ársins, þ. e. 7.5%.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að fara mörgum orðum um þetta. Í grg. eða aths. með frv. er rakið hvernig olíugjald hefur breyst síðan það var upphaflega upp tekið, og þá venjulega verið tekið nokkurt mið af því, hvernig olíuverð hefur breyst. Ég hef einnig áður rætt það, að æskilegt væri að finna aðrar leiðir. Um það hefur mikið verið fjallað, bæði við hagsmunaaðila og fleiri. Það hefur ekki tekist og því er lögð áhersla á að gjaldið verði framlengt eins og það er nú.

Ég vil geta þess, að í sambandi við þessar ákvarðanir um fiskverð varð afkoma bátaflotans að ýmsu leyti óvenjulega góð, a. m. k. reikningslega. Samkv. áætlunum Þjóðhagsstofnunar er hreinn hagnaður sem hlutfall af tekjum jan.-maí 2.4% fyrir báta án loðnu, minni skuttogara 0.2%, stærri skuttogara mínus 7.8 og er það áhyggjuefni út af fyrir sig. Samtals er þetta í núllinu og eru þá fullar afskriftir reiknaðar sem sjaldan hefur verið unnt.

Hins vegar verður afkoman nokkru betri í mars til maí og heildarútkoman þá aðeins yfir núlli eða 0.4%.

Mér þykir hins vegar skylt að geta þess, að frá því að þetta samkomulag var gert hafa orðið meiri hækkanir á olíuvörum, því miður, en upplýsingar frá olíufélögunum gáfu til kynna í byrjun febrúar. Ég hef látið kanna hvernig þeirra upplýsinga var aflað, og er mér tjáð að þær hafi verið fengnar beint frá einu olíufélaganna. Það upplýsti framkvæmdastjóri Landssambands ísl. útgerðarmanna og sömuleiðis Þjóðhagsstofnun. Ég verð að segja eins og er, að mér er það ráðgáta að svo aðeins 2–3 vikum seinna sækja olíufélögin um miklu meiri hækkun en þau höfðu upplýst. Þetta veldur að sjálfsögðu stórum meiri útgjaldaauka hjá útgerðinni en ráð hafði verið fyrir gert. Í samkomulagi um fiskverð var gert ráð fyrir útgjaldaauka upp á 1.9 milljarða, en útgjaldaauki á ársgrundvelli verður um 5.8 milljarðar. Á milli ber því 3.9 milljarða gkr.

En eins og ég sagði í upphafi míns máls: með þessu samkomulagi var afkoma útgerðarinnar vel við unandi, og því vil ég leyfa mér að vona að sú hækkun, sem hefur orðið, verði ekki eins tilfinnanleg og oft hefur verið.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál lengi. Það er þaulrætt hér á hinu háa Alþingi.

Ég vil, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.