24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3046 í B-deild Alþingistíðinda. (3170)

199. mál, samráð stjórnvalda við samtök launafólks og atvinnurekenda

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það kemur mér afskaplega mikið á óvart ef samband hefur verið haft við forseta þessarar deildar um það, að þessi fsp. yrði sérstaklega tekin fyrir s. l. þriðjudag, sem er þvert ofan í það samtal sem við áttum saman þann morgun. Ég skal ekki rengja hæstv. forsrh. um að það hafi átt sér stað, en það hefur þá orðið einhver misskilningur. Ég skal svo ekki tala um það nánar. En ég ítreka það sem ég sagði hér fyrir viku, að það er gaman að hitta á þá óskastund þegar hæstv. forsrh. er reiðubúinn til að svara því að það er ekki oft. Hann hefur kannske verið það nokkrum sinnum á þessu ári, en hann hefur samt sem áður ekki svarað ítarlega þeirri fsp. sem hér var borin fram.

Í fyrsta lagi var ekki svarað ýmsum atriðum hér, eins og t. d. hvort fundargerðum af samráðsfundum yrði dreift til þm., hvort ríkisstj. teldi að samráð, sem haft hefði verið við launþegasamtökin á s. l. ári, hefði náð tilgangi sínum eða hvort uppi væru hugmyndir um að breyta lagaákvæðum um þetta samráð. Ég varð ekki heldur var við að það kæmi fram hjá hæstv. forsrh. hvort á þessum samráðsfundum hefði verið rætt t. d. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir, tekjustefnur og forsendur þeirra, hvort rætt hefði verið um meginþætti í efnahagsmálum og helstu efnahagsmarkmið ríkisstj. frá ári til árs og til lengri tíma og þar fram eftir götunum. Hins vegar var talað um að slíkt samráð sem þetta gæti almennt verið gott ef til þess yrði stofnað, enda þarf ekki annað en líta yfir helstu fyrirsagnir viðtala við forustumenn launþegahreyfingarinnar strax eftir áramótin til þess að sjá að þetta samráð hefur verið eitthvað undarlegt. Hér segir m. a. formaður BSRB orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í mínum huga er það mjög alvarlegur atburður, að nú skuli enn einu sinni hafa verið rift gerðum kjarasamningum milli launþegasamtakanna og atvinnurekenda, að því er okkur varðar í BSRB samningum við ríkisvaldið og bæjarstjórnir í landinu. Ég tel þetta grundvallaratriði og mjög hættulegt þjóðhagslega séð að viðhafa slík vinnubrögð. Kjarasamningar voru undirritaðir fyrir nokkrum mánuðum. Í þeim var ákvæði um verðbætur á laun. Þessir sömu kjarasamningar eru nú rofnir með brbl. og vísitalan skert. Ég tel að það sé mjög þýðingarmikið að hægt sé að treysta samningum, bæði hvað varðar opinbera aðila og milli einstaklinga.“

Annar verkalýðsleiðtogi talar um að kjarasamningunum hafi verið fleygt á áramótabrennuna og þar fram eftir götunum. Það þarf þess vegna ekki neitt um það að fjölyrða, að samráð sem því nafni getur nefnist var ekki haft við verkalýðsleiðtoga og samtök þeirra áður en brbl. voru gefin út, hvað þá að rætt hafi verið um efnahagsmál og helstu efnahagsmarkmið ríkisstj. Það var ekki gert.

Ég vil svo, herra forseti, þakka hæstv. forsrh. samt sem áður fyrir svarið við þessari fsp., því að eftir atvikum held ég að menn megi vel við una.