24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3050 í B-deild Alþingistíðinda. (3175)

381. mál, tenging dísilrafstöðva í eigu Rafmagnsveitna ríkisins

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Á þskj. 439 hef ég leyft mér að beina fsp. til hæstv. iðnrh. í tveim liðum, staflið a og staflið b. Fyrri liður fsp. hljóðar þannig:

„Hvað tefur tengingu 500 kw dísilrafstöðvar, sem Rafmagnsveitur ríkisins eiga á Hvammstanga, við Orkuveitu Hvammstanga eins og ætlunin var þegar vélin var flutt þangað frá Reykjaskóla í Hrútafirði?“

Tilefni þessarar fsp. er að á s. l. sumri var flutt dísilrafstöð frá Reykjaskóla í Hrútafirði til Hvammstanga, ca. 500 kw. að afli. Rafstöð þessi hafði um margra ára skeið þjónað sem varaaflstöð og var til notkunar þegar rafmagnsskortur var á þessum slóðum. E. t. v. vegna breyttra aðstæðna var rafstöð þessi flutt til Hvammstanga á s. l. sumri. Skildist mönnum þar nyrðra að þar ætti að nota hana sem varaorkugjafa, en hún væri ekki flutt þangað einungis til geymslu, enda búið að ganga frá ýmsum lögnum að og frá vélinni, en rafallinn er enn ótengdur við rafmagnskerfi þorpsins þó rúmt hálft ár sé síðan stöðin var flutt á staðinn.

Á Hvammstanga búa tæplega 600 manns. Þar er margvíslegur atvinnurekstur, svo sem mjólkurvinnsla, fiskvinnsla, saumastofa, verkstæði með tré og járn, svo að eitthvað sé talið. Auk þess er þarna sjúkrahús. Á þessum vetri hafa orðið þar tíðar rafmagnstruflanir sem lamað hafa allan atvinnurekstur, auk margs konar annarra óþæginda. Er skemmst að minnast rafmagnstruflana sem urðu vegna útsláttar á byggðalínu sökum óveðurs 16. og 17. febr., en þá var rafmagnslaust á Hvammstanga á annan sólarhring samfellt.

Þessi spurning er borin fram til að fá vitneskju um hvort um einhver stór vandamál sé að ræða við tengingu þessarar vélar og þá hvort heimamenn geti á einhvern hátt greitt þar fyrir. En það er mjög erfitt að una við slíkar búsifjar sem rafmagnsskortur er, ef þær eru að ástæðulausu eða ástæðulitlu.

Síðari liður fsp., b-liður, hljóðar þannig: „Hvað tefur tengingu 75 kw. dísilrafstöðvar í eigu Rafmagnsveitna ríkisins, sem sett var niður á Reykjaskóla snemma á þessum vetri og ætluð var til öryggis fyrir Reykjaskóla?“

Á Reykjaskóla er 150–160 manna heimili, þ. e. héraðsskóli og grunnskóli. Þar er heitu og köldu vatni dælt með rafmagni og að sjálfsögðu eru hvers konar tæki til matseldar og geymslu matvæla rafdrifin. Í þessu sambandi bið ég menn að ímynda sér möguleikana á því að elda mat fyrir 150 manna heimill við frumstæðar aðstæður, þegar öll áhöld eru miðuð við notkun rafmagns. En í umræddu veðri var Reykjaskóli rafmagnslaus í hálfan annan sólarhring samfellt, og segja kunnugir mér að hefðu dísilrafstöðvar á Hvammstanga og Reykjaskóla verið virkar hefði rafmagnsleysi á þessum stöðum ekki þurft að vara nema stutta stund.

Það er von mín, að hæstv. iðnrh. geti gefið skýringu á, hvað veldur þeim töfum á tengingu fyrrgreindra véla sem fsp. fjallar um, og finni jafnframt ráð til úrbóta. Ég get jafnframt fullvissað hæstv. ráðh. um að heimamenn eru allir af vilja gerðir til að aðstoða við að úrbætur fáist á því vandræðaástandi sem þarna hefur ríkt í þessum málum, og þætti mér vænt um ef hæstv. ráðh. gæti upplýst mig og aðra um hvað veldur svona dularfullum töfum.