24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3051 í B-deild Alþingistíðinda. (3176)

381. mál, tenging dísilrafstöðva í eigu Rafmagnsveitna ríkisins

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það svæði, sem þessi fsp. frá hv. 5. þm. Norðurl. v. varðar, er á vegum Rafmagnsveitna ríkisins. Eftir að mér barst fsp. hans leitaði ég upplýsinga hjá framkvæmdastjóra Rafmagnsveitnanna, rafmagnsveitustjóra, hvaða skýringar væru á þeim drætti sem orðið hefði á tengingu þessara dísilrafstöðva. Í svari, sem mér barst frá honum, kom það fram, eins og fsp. ber með sér, að dráttur hafi á þessu orðið og það raunar tilfinnanlegur fyrir þá aðila sem hafa mátt búa við línubilanir á þessu svæði, eins og reyndar víðar á landinu á þessum tiltölulega harða vetri. Samkv. upplýsingum Rafmagnsveitnanna eru ástæðurnar þessar:

Starfsmenn þeirra á Norðurlandi vestra ætluðu að framkvæma þessi verk á s. l. hausti. Vegna mikilla anna við lagfæringar og tengingar á veitusvæðinu fyrir veturinn og hinna miklu truflana og bilana, sem orðið hafa síðan óveðurskaflinn í des. hófst, hefur verkinu ekki verið lokið þegar þetta var ritað, 9. mars s. l. Þá var unnið við lokaáfangann og var vonast til að vélarnar yrðu fulltengdar innan fárra daga. Samkv. nýjustu upplýsingum um þetta frá sama aðila er staðhæft að dísilrafstöð við Reykjaskóla hafi verið tengd 4. mars s. l. og á Hvammstanga 12. mars og séu þær notaðar eftir þörfum nú sem varaafl á þessu svæði. Þannig er væntanlega fengin lausn á þessu tiltekna vandamáli sem hv. fyrirspyrjandi vakti athygli á með sinni fsp.

Ég vil aðeins bæta því við, að veðráttan í vetur hefur reynt mjög á línukerfi í landinu, og fátt er svo með öllu illt að ekki megi sjá á því jákvæðar hliðar, því að línur okkar, sumar hverjar nýlegar eða nýlega lagðar, hafa fengið vissa eldskírn í þeim stórviðrum, sem gengið hafa yfir landið á þessum vetri, og væntanlega þá komið í ljós veilur í byggingu þeirra eða frágangi sem lagfærðar hafa verið eða lagfærðar verða. Þess er að vænta, að menn læri af þeirri reynslu, sem þannig hefur fengist, í sambandi við hönnun og frágang á frekari línulögnum í okkar oft stórviðrasama landi.

Það hefur jafnframt komið í ljós í tengslum við þessar bilanir, hver nauðsyn það er að hafa tiltækt varaafl, helst í hverju byggðarlagi, sérstaklega þar sem línur liggja yfir torfær svæði og þar sem veðrasamt er. Það er nauðsynlegt að taka varaaflsþáttinn inn í áætlunargerð og framkvæmdir í okkar raforkumálum. Það er eðlilega reynt að halda kostnaði niðri. Án þess að ég ætli að vera með nokkurn ásökunartón til þeirra sem fjárveitingum hafa stýrt í þessum efnum, því að ég skil vanda þeirra sem horfa á háar tölur ef lagt er saman, held ég að við höfum verið óþarflega sparsamir, svo að ekki sé meira sagt, á stundum í sambandi við að tryggja nægilegt varaafl, og sá möguleiki að hafa færanlegar varaaflsstöðvar til að grípa til hefur að mínu mati ekki verið nýttur nógsamlega til þessa. Það þarf að taka til athugunar í sambandi við öryggi landsmanna að þessu leyti.