24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3053 í B-deild Alþingistíðinda. (3179)

208. mál, afkoma ríkissjóðs 1980

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur spurt þeirrar spurningar, hvenær vænta megi skýrslu fjmrh. um afkomu ríkissjóðs 1980, samkv. bráðabirgðatölum ríkisbókhalds. Í þessu sambandi er rétt að rifja það upp, að um miðjan janúarmánuð s. l. gaf fjmrn. út fréttatilkynningu um afkomu ríkissjóðs á árinu 1980, og voru það fyrstu upplýsingar um afkomuhorfur á liðnu ári sem fyrir lágu. Hins vegar er ljóst að fyrst eftir áramót er margt óuppgert. Söluskattur frá liðnu ári er þá ekki allur inn kominn, söluskattur frá desembermánuði 1979 er þá inni í tölunum, en söluskattur frá desembermánuði 1980 er ekki inn kominn fyrr en undir lok janúarmánaðar, og auk þess eru fjöldamargar færslur og reikningar óuppgerðir.

Ég hef beðið ríkisbókhald og fjárlaga- og hagsýslustofnun að undirbúa bráðabirgðaskýrslu til Alþingis um afkomu ríkissjóðs á árinu 1980, eftir þeim gögnum sem liggja fyrir, og ég vænti þess að hægt verði að dreifa slíkri skýrslu í byrjun næsta mánaðar. Hins vegar er ljóst að ekki munu endanlegar tölur liggja fyrir um afkomu ársins 1980 fyrr en A-hluti ríkisreiknings er frágenginn. En ég geri mér vonir um að unnt verði að útbýta A-hluta ríkisreiknings hér á Alþingi áður en það lýkur störfum í vor.