24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (3180)

208. mál, afkoma ríkissjóðs 1980

Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og uppbygging fjárlaganna er, þá er annars vegar um að ræða rekstargrunn, þ. e. greiðslu útgjalda ríkissjóðs á viðkomandi ári og þær tekjur sem inn koma á því sama ári. Þar er ekki um að ræða uppgjör samkv. ríkisreikningi. Þær tölur, sem hingað til hafa verið gefnar út í þeim skýrslum sem lagðar hafa verið fram á Alþingi, hafa verið tölur samkv. þeim greiðslum, sem fram hafa farið hjá ríkissjóði á næstliðnu ári, og þeim tekjum, sem inn komu. En bókhaldi ríkissjóðs er lokið um áramót. Þegar ríkisreikningurinn er síðan gerður er fyrst um að ræða að færðar eru óinnkomnar tekjur viðkomandi árs og gjöld ógreidd. Þá er fundinn greiðslujöfnuður þegar ríkisreikningur hefur verið gerður upp. Í þeim skýrslum, sem hér hafa verið lagðar fram, og í því, sem fram kemur í Hagtölum mánaðarins, er byggt á þeim greiðslum sem farið hafa fram á árinu, og þeim tekjum, sem inn voru komnar þegar árinu lauk.

Ég þakka svo ráðh. svör hans.