24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

377. mál, greiðslufrestur á tollum

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj, 413 að leggja fram fsp. til hæstv. fjmrh. um greiðslufrest á tollum, svohljóðandi:

„Hvenær stefnir ríkisstj. að því að veita greiðslufrest á tollum? Hve mikinn? Hve langan?“

Fyrst væri kannske ástæða til að ræða aðeins orðalag spurninganna, því að vera má að það sé ekki alveg skýrt, hvað sé átt við með spurningunni „hve mikinn“. Það, sem vakti fyrir mér, var að fá svör við því, til hverra þetta fyrirkomulag ætti að ná og hve mikið til hvers og eins. Það er frekari útlistun á því. Ég vonast svo til að þetta hafi ekki vafist fyrir þeim sem svara á.

Þannig er mál með vexti, að s. l. vor lögðum við fimm þm. í hv. Nd. fram frumvörp um tollkrít og breytingar á lögum sem óhjákvæmilegt er að gera ef greiðslufrestur verður tekinn upp á tollum. Í umr., sem urðu á síðustu dögum þingsins, kom fram að víðtækur stuðningur var við þetta mál og í þingtíðindum, í dálk 3226 frá 29. maí 1980, tekur hæstv. fjmrh. undir þessar till. og segir síðan, með leyfi forseta:

„En ég sem sagt ítreka það sem ég hef þegar sagt, að ég tel sjálfsagt að þetta mál verði gaumgæfilega athugað á næstu vikum og nú í sumar undirbúið fyrir komandi þing að hausti.“

Hæstv. forsrh. tók einnig til máls í þessum umr. og var ákveðið fylgjandi þeirri hugmynd, sem kom fram í frumvörpunum, vitnaði m. a. til stjórnarsáttmálans og sagðist geta lesið út úr honum stuðning við málið. En þar segir í kaflanum um verðlagsmál að hæstv. ríkisstj. ætli sér að vinna að lækkun vöruverðs, m. a. með því að greiða fyrir því að unnt sé að lækka vöruverð með innkaupum í stórum stíl. Þetta sagði hæstv. forsrh., að væri stuðningur við fram komin frumvörp, og sagði síðan orðrétt, með leyfi forseta:

„Að lokinni nákvæmri athugun á því, hvernig best verði að þessu máli staðið til þess að forðast neikvæðar hliðarverkanir, ætti málið að liggja ljóst fyrir þegar þing kemur saman að nýju í haust.“

Hér er stuðningur við þessi mál af hálfu hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. þannig að það ætti að nægja til að sjá málinu farborða í gegnum þingið. En haustið kom og ekkert gerðist. Þeir hv. þm., sem stóðu að flutningi þingmálanna sem ég gat um áður, endurfluttu þess vegna frumvörpin, sem eru þrjú talsins, og þau liggja í hv. fjh.og viðskn. Nd. og bíða þar afgreiðslu. Ég býst við að hv. nefnd sé enn fremur að bíða eftir því, hvernig ríkisstj. ætli sér að taka á málinu í ljósi þessara yfirlýsinga.

Þá er þess að geta, að í efnahagsáætlun ríkisstj., í síðari þættinum sem mér skilst að sé minni háttar loforð og fyrri yfirlýsingar endurteknar, segir í 5. lið m. a. að ríkisstj. ætli sér að stefna að því í áföngum að veita greiðslufrest á tollum. Ég hef að vísu heyrt að það, sem standi í efnahagsáætluninni, sérstaklega síðari kaflanum, sé ekki þess eðlis að það liggi beinlínis á öllu því sem þar stendur. Um það veit ég ekki. Það getur hæstv. ráðh. frekar skýrt en ég. En þetta er þó vísbending um það, að málið sé á hreyfingu. Og reyndar veit ég að málið hefur hreyfst því að það hafa farið fram viðræður á milli tollstjórans í Reykjavík, Björns Hermannssonar, og Verslunarráðs Íslands um þessi mál og tollanefnd Verslunarráðsins hefur lagt fram ítarlegar hugmyndir sem eru byggðar á niðurstöðum viðskiptaþings frá árinu 1979, og nýlega sendi tollanefndin ráðuneytinu og tollstjóranum í Reykjavík hugmyndir sínar í átta liðum um framkvæmd á tollkrít eða greiðslufresti á tollum. Þar er að finna atriði sem þarf að taka tillit til, og þar eru áberandi flest þau atriði sem koma fram í þeim frumvörpum sem nú þegar liggja í hv. fjh.- og viðskn. Í fyrsta lagi segir að tollyfirvöld gefi út skírteini sem viðkomandi framvísi þegar hann óskar eftir að fá vöru afhenta í samræmi við veittan greiðslufrest. Í öðru lagi að viðkomandi innflytjanda sé í sjálfsvald sett hvort hann nýti greiðslufrestinn fyrir allan innflutning sinn eða aðeins að hluta. Í þriðja lagi verði hægt að senda vöruna beint heim frá flutningstæki til innflytjanda. Í fjórða lagi er rætt um að gjaldfrestur verði 45 dagar, í fimmta lagi að gjaldfresturinn sé vaxtalaus, í sjötta lagi að bankastimplun falli niður, í sjöunda lagi að vottorð tjónaskoðunarmanns tryggingafélags um vöntun eða galla á vörum verði tekið gilt af tollyfirvöldum í þessu sambandi og í áttunda lagi að viðurlög við vanskilum á greiðslu aðflutningsgjalda séu dráttarvextir og við ítrekuð alvarleg brot svipting heimildar á greiðslufresti.

Herra forseti. Það var af þessu tilefni og af því að ég veit að þetta mál er nú komið á hreyfingu sem mér fannst eðlilegt að leggja þessa fsp. fyrir hæstv. ráðh., vegna þess að ekkert hefur ákveðið heyrst frá hæstv. ráðh. frá því að hann gaf yfirlýsingu hér á hv. Alþingi í fyrravor um að það mætti vænta frv. s. l. haust.