24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3057 í B-deild Alþingistíðinda. (3183)

377. mál, greiðslufrestur á tollum

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans við þessari fsp. minni. Varðandi nál. þeirrar nefndar, sem vann að þessum málum á sínum tíma og hæstv. ráðh. vitnaði til, skal þess getið, að hæstv. ráðh. sagði í umr., sem ég vitnaði til í fyrri ræðu minni, að hann mundi senda þetta álit til allra þm. á næstu dögum. Ég man ekki til þess, að þetta hafi verið sent til þm., en svo kann að vera, og hafi það ekki verið gert væri vissulega ástæða til að spyrja hvort ekki sé hægt að bæta úr því þótt ár hafi fallið úr á milli.

Þá ræddi hæstv. ráðh. um tekjuóvissuna, sem skapaðist af því að taka upp tollkrít, og minntist á vextina, 500–800 millj. gkr., sem áætlað hefði verið 1977. Þetta er vissulega rétt. En það kemur jafnframt fram að menn búast við því, að þetta vinnist upp og leiði til sparnaðar og aukinnar hagkvæmni, og þetta vekur óneitanlega upp þá spurningu, sem ég held að hæstv. fjmrh. hljóti að nafa velt fyrir sér, hvenær eðlilegt sé að tekjur ríkissjóðs fáist af vörum, því að það hlýtur að vera krafa þeirra, sem stunda vöruinnflutning og versla með vörur, að tekjurnar komi ekki til ríkisins fyrr en um endanleg kaup hafi verið að ræða, þ. e. síðasti liðurinn í keðjunni, neytandinn, hefur keypt vöruna. Þannig er þetta í flestum löndum og langeðlilegasta skattheimtuaðferðin.

Hér skal ég ekki fara inn á þær brautir að ræða um það, hvort eðlilegt sé að ríkisvaldið taki á sig auknar byrðar vegna tollgæslunnar og hver eigi að borga kostnaðinn af tollstjóraembættinu, hvort fara eigi með slíkt eins og með lögreglustjóraembætti eða ekki. Það er atriði sem þarf að kanna, en kemur þessu máli ekki við. En ég minnist á þetta því að það er talað um tekjuóvissuna.

Því er líka haldið fram og kom fram í máli hæstv, ráðh., að óvissa væri um það, hverjir stunduðu innflutning að aðalstarfi. Þess má geta, að Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar vinna að skýrslu fyrir Hagstofuna. Auk þeirrar vinnslu, sem birt er í Verslunarskýrslum, er nafnnúmer innflytjandans gatað og þar er undir allur innflutningur viðkomandi, skipt í einstakar afgreiðslur. Þær upplýsingar eru varðveittar á svokölluðum örskyggnum eða „míkrofilmum“ og er ríkisendurskoðun og skattyfirvöldum afhent sitt hvort eintak af filmunni. Ef heimild fæst er ekkert því til fyrirstöðu að fleiri eintök séu gerð af filmunni. Með notkun hennar væri auðvelt fyrir tollyfirvöld að ganga úr skugga um hvort umsækjandi um greiðslufrest uppfyllti þau skilyrði um umfang innflutnings sem kunna að verða sett.

Það hefur komið dálítið á óvart, hve úttekt Seðlabankans og rn. hefur gengið illa og seint, og nú kemst hæstv. ráðh. að þeirri óljósu niðurstöðu, að það séu áform hæstv. ríkisstj. að taka upp greiðslufrest á tollum í áföngum. Þess vegna neyðist ég til að spyrja: Í hvers konar áföngum? Hve langir verða þessir áfangar? Verða þeir á þessu ári eða næsta ári eða hvers konar áfanga er hæstv. ráðh. að hugsa um?

Í öðru lagi er ástæða til að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann geti ekki fellt sig við þau frumvörp, sem liggja þegar fyrir og hafa verið tvíflutt á Alþingi, og hvort það sé ekki heldur seint að setja nú fyrst á stofn nefnd, þó að auðvitað sé betra seint en aldrei, til þess að skila áliti ekki fyrr en 1. júlí, því að það er ljóst að ef nefndin skilar ekki fyrr er ekki hægt að taka málið upp fyrr en næsta haust. Segjum nú svo að það takist að þessu sinni að koma saman frv., mun þá hæstv. ráðh. leggja það frv. fyrir Alþingi næsta haust? Það væri vissulega ástæða til að fá skýrari svör við þessum spurningum, ef hæstv. ráðh. treystir sér til, því að það er kominn tími til að margra áliti að verslun hér í landinu verði með svipuðu sniði og gerist meðal flestra siðmenntaðra þjóða heims. En eins og allir vita tíðkast það að gefa greiðslufrest á tollum í flestum okkar nágranna- og viðskiptalöndum.