24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3058 í B-deild Alþingistíðinda. (3185)

377. mál, greiðslufrestur á tollum

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Fyrr í þessum fsp. tíma var vakin athygli á því, að lagaákvæði, sem tóku gildi í aprílmánuði 1979, voru ekki enn komin til framkvæmda varðandi samráð við aðila vinnumarkaðarins, og það er fyrst nú tveimur árum síðar að reynt er að finna form fyrir slíku samráði, eins og hæstv. forsrh. komst að orði. Nú verðum við vitni þess, alþm., þegar við hlýðum á svör hæstv. fjmrh., að slík vinnubrögð eru ákaflega einkennandi fyrir starfshætti núv. ríkisstj., þau bera vitni seinagangi og úrræðaleysi. Það er að vísu ekki um svo alvarlegt brot að ræða sem í fyrra tilvikinu, þ. e. lagabrot, það sem við nú fjöllum um, vegna þess að hér er aðeins — og þó ekki aðeins, hér er um það að ræða að hæstv. fjmrh. efni ekki þau heit sem hann gefur. Um þetta leyti í fyrra kvaðst hann mundu leggja þetta mál fyrir Alþingi s. l. haust. Nú upplýsir hins vegar hæstv. fjmrh. að hann sé að hugsa um að skipa nefnd, sem eigi að skila áliti 1. júlí n. k., og væntanlega verði málið flutt í frv. — formi hér á þingi á komandi hausti. Hann er sem sagt ári á eftir eigin áætlun og eigin fyrirheiti. Ég vil nú beina því til hæstv. fjmrh., að hann taki af skarið og svari fsp. hv. 10. þm. Reykv., hvort hann geti ekki fallist á þau frv., sem liggja nú þegar fyrir þinginu, og efnt það fyrirheit, sem hann gaf þingheimi fyrir einu ári, og gengið svo frá að þessi frv. séu samþykkt og komi til framkvæmda. Þannig hefði hann heimild til þess að gera það sem hann vill gera eða segist a. m. k. vilja gera.