24.03.1981
Sameinað þing: 64. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3060 í B-deild Alþingistíðinda. (3188)

377. mál, greiðslufrestur á tollum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að öll rök gegn tollkrítarmálinu eða fyrirgreiðslu við innflutning á vörum erlendis frá eru þau sömu nú og voru í áratug gegn tilkomu tollvörugeymslunnar. En við tilkomu tollvörugeymslunnar varð ríkissjóður ekki af neinum tekjum, það varð enginn tekjumissir, heldur þveröfugt. Þá vil ég benda á að ef tollkrít kæmist á mundi það létta mikið á viðskiptabönkunum í fjárfestingu í innflutningi á vörum. Það mundi líka létta á og spara þjóðfélaginu tugi milljóna ef ekki meira í fjárfestingu við dýrustu mannvirkjagerð þjóðarinnar. Það eru hafnarsvæði þar sem vörugeymsluhús eru dýrt byggð og þurfa að vera traust vegna veðráttu o. fl. Það þyrfti ekki að byggja þau í sama mæli og nú er gert, heldur yrðu þær tómu vörugeymslur, sem fyrirtækin eiga nú, nýttar að fullu. Hvernig sem á málið er lítið, frá hvaða hlið sem er, þá er rangt að tefja framgang þessa máls.