24.03.1981
Sameinað þing: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3064 í B-deild Alþingistíðinda. (3198)

247. mál, skóiðnaður

Flm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 482 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Norðurl. e., Stefáni Jónssyni, Lárusi Jónssyni, Árna Gunnarssyni og Stefáni Valgeirssyni, að flytja till. til þál. um athugun á rekstrargrundvelli skógerðar og skóiðnaðar í landinu. Þáltill. þessi hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta nú þegar fara fram könnun á með hvaða hætti hægt er að efla og styrkja rekstrargrundvöll skóiðnaðar og stuðla að áframhaldandi rekstri skógerðar í landinu. Sé þörf sérstakrar lagasetningar í þessu sambandi skal ríkisstj. láta undirbúa slíka löggjöf og leggja fyrir Alþingi hið fyrsta.“

Ástæðan fyrir flutningi þessarar þáltill. er fyrst og fremst sú, að nú blasir við að skógerð eða skóiðnaður verði lagður niður hér á landi og slíkri starfsemi að fullu hætt. Þó að hér hafi um áraraðir starfað skógerðir og skóverksmiðjur sem veitt hafa fjölda fólks atvinnu er nú svo komið á þessum tímum, þegar mikið er talað um iðnað og iðnaður er talinn vera sú grein atvinnulífsins sem þurfi að taka við því fólki sem bætist við á vinnumarkaðinn á næstu árum, og þó að á tyllidögum séu haldnar lofsamlegar ræður um mikilvægi iðnaðar, þá er nú svo komið að aðeins ein skóverksmiðja, skóverksmiðjan Iðunn á Akureyri, er starfrækt.

Skóverksmiðja þessi hóf starfsemi sína á árinu 1936. Þegar starfsemin stóð þar með sem mestum blóma unnu hjá fyrirtækinu um 120 manns, en vegna mikilla rekstrarerfiðleika á undanförnum árum og samdráttar í framleiðslu og sölu hefur starfsfólki fækkað svo að nú vinna þar aðeins um 50 manns. Á s. l. hausti, með bréfi dags. 10. okt. 1980, tilkynnir iðnaðardeild Sambands ísl. samvinnufélaga félmrn. að stjórn Sambandsins hafi ákveðið að hætta starfsemi skóverksmiðjunnar og muni öllum starfsmönnum hennar verða sagt upp á næstunni. Málefni verksmiðjunnar voru þó aftur til umræðu á fundi í stjórn Sambandsins 17. nóv. 1980 og var þá bókað eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir um langt skeið til þess að tryggja skóverksmiðjunni rekstrargrundvöll er hún enn rekin með verulegum halla og ekki fyrirsjáanlegt að takast megi að bæta afkomu hennar svo að viðunandi sé. Í framhaldi af bókun á síðasta stjórnarfundi heimilar stjórnin framkvæmdastjóra iðnaðardeildar að halda áfram undirbúningi að lokun verksmiðjunnar frá miðju ári 1981 og tilkynna það bréflega viðkomandi aðilum. Málið verði þó tekið til endanlegrar meðferðar og ákvörðunar á stjórnarfundi Sambandsins í febr. 1981. Fram að þeim tíma verði enn kannað hvort hægt sé að finna verksmiðjunni rekstrargrundvöll.“

Í þessari bókun felst í raun að ákveðið var að reyna að halda rekstrinum áfram nokkru lengur og sjá hvort rekstrarafkoman lagaðist ekki og hvort ekki reyndist unnt að halda þessum rekstri gangandi í framtíðinni. En nú er því miður ljóst samkv. bráðabirgðauppgjöri fyrir árið 1980 að rekstrarerfiðleikar eru enn miklir, og í bókun á fundi stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga hinn 5. mars s. l. segir svo, með leyfi forseta:

„Í framhaldi af bókun sambandsstjórnar frá 17. nóv. 1980 skýrði framkvæmdastjóri iðnaðardeildar frá því, að um áframhaldandi taprekstur sé að ræða hjá skóverksmiðjunni. Samkvæmt bráðabirgðauppgjöri var tap 52 millj. kr. á árinu 1980. Stjórnvöld hafa ekki að neinu leyti komið til móts við Sambandið varðandi rekstrargrundvöll verksmiðjunnar. Rekstraráætlun fyrir 1981 gerir ráð fyrir 603 þús. kr. tapi á árinu. Af þessum ástæðum verður stjórn Sambandsins að halda við fyrri ákvörðun samkv. nefndri bókun, nema til komi aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að tryggja rekstrargrundvöllinn. Framkvæmdastjóra iðnaðardeildar er falið að kynna skriflega þessa stöðu mála viðkomandi aðilum. Málið verður tekið fyrir aftur á fundi stjórnarinnar 27. mars n. k.“

Af þessu má sjá að ákveðið var að doka við enn um sinn og sjá hvort stjórnvöld og bæjaryfirvöld á Akureyri mundu reynast reiðubúin til að sýna verksmiðjunni einhvern stuðning í verki ella mundi Sambandið neyðast til þess að loka verksmiðjunni.

Eins og áður er að vikið vinna nú í þessari iðngrein um 50 manns. Er mikið af því fullorðið fólk, sem hefur unnið á sama vinnustað um árabil og á því án efa erfitt með að fá vinnu við sitt hæfi, ef starfsemi þessari verður nú hætt sökum rekstrarörðugleika. Teljum við flm. þessarar þáltill. því að hér sé um að ræða verulegt vandamál, bæði í atvinnulegu og eins í félagslegu tilliti, sem stjórnvöld verði að taka til athugunar, og leita beri allra hugsanlegra leiða til að koma í veg fyrir að iðngrein þessi verði lögð niður. Eins og kunnugt er hafa viðbrögð manna við fréttum af örðugleikum verksmiðjunnar verið eindregið á þann veg, að mjög væri miður farið ef þessi eina skóverksmiðja landsins yrði að hætta störfum, enda hefur framleiðsla hennar líkað ágætlega. Má í því sambandi vitna til samþykktar, sem aðalfundur Skókaupmannafélags Íslands, haldinn 26. febr. 1981 að Marargötu 2 í Reykjavík, gerði og lét frá sér fara, en fundurinn ályktaði eftirfarandi samhljóða:

„Fundurinn samþykkir að mælast til þess við félagsmenn Skókaupmannafélagsins, að þeir geri sitt til þess að stuðla að áframhaldandi rekstri skóverksmiðjunnar Iðunnar á Akureyri með skóinnkaupum frá henni.

Skókaupmannafélag Íslands,

Ebba Hvannberg, formaður.“

Má af þessu sjá að það eru ekki aðeins eigendur verksmiðjunnar sem hafa áhuga á að reka hana og starfrækja áfram, heldur er það einnig álit félagsmanna í Skókaupmannafélagi Íslands að það væri mjög miður ef þessi verksmiðja hætti starfsemi sinni.

Í dagblaðinu Tímanum 4. mars s. l. er viðtal við Ebbu Hvannberg, sem er formaður Félags skókaupmanna, og segir hún þar m. a., með leyfi forseta:

„Okkur þykir sjálfsagt að gera okkar til þess að styðja við bakið á íslenskum iðnaði, einkum þar sem þetta er iðnaður sem á við erfiðleika að stríða, þrátt fyrir að hann framleiði vöru er fyllilega stenst samanburð við innflutta vöru. Eins og aðrir framleiðendur er Iðunn svolítið afmörkuð á sínu sviði, en t. d, í karlmanna- og unglingaskófatnaði, svo og sérstaklega í kuldaskófatnaði er framleiðsla verksmiðjunnar mjög góð. Yfirleitt er gott hráefni í vörunni og hún fyllilega samkeppnishæf. Því þótti okkur ástæða til þess að beina þessari hvatningu til félagsmanna okkar, að þeir beindu innkaupum til Iðunnar eftir kostum.“

Ályktun aðalfundar Skókaupmannafélagsins er prentuð í grg. með þáltill. á sérstöku fskj.

Ég leyfi mér enn að vitna í umræður í fjölmiðlum um málefni verksmiðjunnar og skóiðnarins.

Í Þjóðviljanum þriðjudaginn 17. mars segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Verður Iðunni á Akureyri lokað? Skógerð hætt hér á landi? Málefni skóverksmiðju Sambandsins á Akureyri eru nú mjög í brennidepli þar nyrðra, en ef ekki verður gripið til viðeigandi ráðstafana er ekkert fram undan annað en uppsögn 50 starfsmanna og lokun verksmiðjunnar og þar með endalok íslenskrar skóframleiðslu, en verksmiðjan á Akureyri er sú eina sinnar tegundar á landinu.“

Þá er í þessari frétt í Þjóðviljanum vitnað í viðtal við Kristínu Hjálmarsdóttur varaformann og starfsmann Iðju á Akureyri og eftir henni haft eftirfarandi:

„Við teljum þetta vera mjög alvarlegt mál. Starfsfólkið í skóverksmiðjunni er flest nokkuð fullorðið fólk og hefur unnið lengi við þennan iðnað og er því sérþjálfaður starfskraftur. Það er mjög ósennilegt að þetta fólk gangi inn í önnur störf á vinnumarkaðinum. Þess biði sennilega ekkert annað en atvinnuleysið.“

Á sérstöku fskj. með grg. er yfirlit yfir aldur starfsfólks skógerðarinnar. Það yfirlit er dags. 6. júlí 1978. Þó hér sé ekki um að ræða alveg nýja samantekt má gera ráð fyrir að starfsskipting sé þó nokkuð lík því sem þarna kemur fram enn í dag. Má af þessu sjá að verulegur hluti af starfsfólkinu er orðið fullorðið fólk og eru 65% af öllu starfsliðinu eldri en 55 ára og 26% eða rúmlega 1/4 hluti starfsfólksins er yfir 65 ára aldri. Aðeins þrír starfsmenn verksmiðjunnar ern á aldrinum 20–30 ára. Allt rennir þetta því stoðum undir það álit okkar flm., að hér sé um verulegt félagslegt vandamál að ræða, auk þess sem lokun verksmiðjunnar mundi hafa veruleg áhrif á atvinnulíf á Akureyri. En eins og menn muna og komið hefur fram í fréttum hefur atvinnuástand í Norðurlandskjördæmi eystra verið mjög erfitt í vetur, ekki síst á Akureyri. Á það þó sérstaklega við í þjónustuiðnaði og byggingariðnaði, en einnig eiga verksmiðjur Sambandsins á Akureyri við verulega rekstrarerfiðleika að stríða. Má þar lítið út af bera svo að ekki þurfi að draga saman í starfseminni og í framhaldi af því að segja upp fólki. Málefni skóverksmiðjunnar eru þó að því leyti sérstæð, að hér er um það að ræða að loka algerlega einu verksmiðjunni, sem rekin er á þessu sviði, og hætta þeirri starfsemi fyrir fullt og allt. Því töldum við ástæðu til að flytja þessa þáltill. um að rekstrargrundvöllur skógerðarinnar verði kannaður til hlítar og stjórnvöld reyni að leita allra tiltækra leiða til að koma í veg fyrir stöðvun þessa rekstrar.

Rétt er að það komi hér fram, að iðnrn. hefur á undanförnum árum haft nokkur afskipti af rekstri skóverksmiðjunnar Iðunnar á Akureyri og leitað leiða til að bæta rekstrargrundvöll hennar. Gerð var úttekt á rekstri verksmiðjunnar, sem m. a. leiddi það í ljós, að rekstur með 70–100 manna starfsliði ætti ekki framtíð fyrir sér. Framleiðslutegundir væru of margar, þannig að framleiðnin yrði of lág og launakostnaður þar með of hár. Hins vegar kom einnig í ljós að ef skóframleiðslan legðist niður færi veruleg verkkunnátta forgörðum. Auk þess þyrfti rekstrarhagræðingu og að endurnýja vélar og tæki. Einnig hafði verið reynt að framleiða vörur til útflutnings, einkum til Rússlands, en það hafði gefist fremur illa. Framleiðsla sú, sem best hafi gengið, sé vetrarskófatnaðurinn og ekki sé fullreynt með sölu á vetrarskófatnaði á erlendum markaði, en þar virtist árangur vera vænlegastur.

Þá var sett upp sérstakt námskeið í starfsþjálfun og rekstrarráðgjöf og greiddi Iðnþróunarsjóður hluta af kostnaði vegna þess námskeiðs.

Þá beitti iðnrh. sér fyrir því, að Seðlabankinn lánaði verksmiðjunni nokkra upphæð í ársbyrjun 1979 og skyldi það lán vera til eins árs. Þeir aðilar, sem um málið fjölluðu af hálfu rn., voru mótfallnir því, að verksmiðjunni yrðu veittir beinir rekstrarstyrkir, heldur að útvegað yrði lán sem nota mætti í hagræðingarskyni og taka þá frekar þátt í fjármagnskostnaðinum. Vart verður talið að hér hafi verið um háa upphæð að ræða sem gæti haft veruleg áhrif á rekstrarafkomuna, þó vafalaust hafi það hjálpað eitthvað til. Þá var og lánstími mjög skammur, en nú hefur lánið verið framlengt til 15. jan. 1981 og var þá gerður samningur um að það yrði greitt upp á þessu ári með fjórum greiðslum með tveggja mánaða millibili.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir er nú ljóst að við enn meiri rekstrarerfiðleika er að glíma en menn gerðu ráð fyrir. Er því með þessari þáltill. farið fram á að ríkisstj. láti nú fara fram rækilega könnun á því, hvort nokkur rekstrargrundvöllur sé fyrir þessa starfsemi, og leitað sé allra leiða til að koma í veg fyrir að hún leggist niður.

Iðnrh. mun nú á síðustu dögum hafa haft einhver afskipti af málinu og hann eða menn á hans vegum átt viðræður við forsvarsmenn verksmiðjunnar og er það þakkarvert. Má kannske segja að þar með sé þáltill. þessi orðin að almennu þingkjaftæði, eins og einn hv. þm. orðaði það hér á dögunum og segist hafa þau ummæli eftir reyndum þm. sem taldi það eiga við um flestar þáltill. En nokkur tími er liðinn frá því að þessi þáltill. var lögð fram hér á þingi og hefur tíma Alþingis oft síðan verið varið í ýmiss konar umr., sem ég tel fremur eiga að flokka sem þingkjaftæði — svo að ég leyfi mér að nota það orð - en umfjöllun um þáltill. M. a. vegna þeirra umr. hefur framsaga fyrir og áframhaldandi meðferð þessarar till. dregist óþarflega lengi þar sem tími til aðgerða er naumur, og því vil ég þakka að ráðh. skuli þegar hafa lítið til með málinu.

Ástæðurnar fyrir samdrætti í íslenskri skógerð eru vafalaust margvíslegar og er leitt getum að nokkrum þeirra í grg. með þáltill. Má þar m. a. nefna aðgerðir af hálfu Efnahagsbandalagsins og áhrif aðildar Íslands að EFTA og tollalækkanir í því sambandi, samkeppni frá láglaunalöndum svo og framleiðsluvandamál sem skapast af því hvað okkar innlendi markaður er lítill. Ýmsar nágrannaþjóðir okkar eiga í svipuðum erfiðleikum með sinn skóiðnað og hér er við að glíma, en þær hafa reynt að snúast til varnar og aðstoða sínar verksmiðjur með ýmsum ráðum til að halda rekstrinum áfram, bæði af félagslegum ástæðum svo og með ýmiss konar öryggissjónarmið í huga, ef aðstæður breyttust þannig í heiminum að erfitt yrði að fá skófatnað. Er þar trúlega einkum átt við styrjaldarástand, sem er því betur alltaf nokkuð fjarlægt í hugum okkar Íslendinga, en þó er aldrei að vita við hverju má búast. Og ekki er óeðlilegt að við Íslendingar hugsum eitthvað svipað nágrönnum okkar í þessu efni og reynum í lengstu lög að halda gangandi okkar einu skóverksmiðju, jafnvel þótt það kostaði einhver fjárútlát af hálfu opinberra aðila. Í því skyni hefur okkur helst dottið í hug að iðngrein þessari yrði veittur fjárfestingarstyrkur eða hagræðingarstyrkur eða þá verulegt lán, til lengri tíma en getið var um að iðnrh. hafi áður beitt sér fyrir, og yrði það notað til að auka hagræðingu og hagkvæmni í rekstri verksmiðjunnar. Þá mætti líka benda á aukna og hagkvæmari lánafyrirgreiðslu í formi rekstrar- eða afurðalána, svo sem iðnaðurinn hefur mjög ákveðið farið fram á, að hans afurða- og rekstrarlánakjör væru bætt til samræmis við t. d. sjávarútveginn. Þá er einnig bent hér á að hugsanlega megi lækka orkuverð, en þó hefur það nú verið upplýst, að orkunotkun skóverksmiðjunnar muni ekki vera mikil, þannig að óvíst er hvort þarna munar nokkrum verulegum upphæðum. Þá er einnig lagt til að notuð verði heimild í lögum, sem samþykkt voru fyrr á þessu þingi, til að leggja á innfluttar samkeppnisvörur aðlögunar- eða jöfnunargjald eða ígildi þess. Einnig mætti kanna hvort hægt er að ganga lengra en þegar hefur verið gert í að lækka eða fella niður aðflutningsgjöld eða tolla af hráefni, tækjum og vélum. Þó er hætt við að ekki verði öllu lengra gengið í þessum efnum en þegar hefur verið gert. Loks má athuga hvort hægt sé að lækka eða fella niður opinber gjöld af starfsemi þessari. Kemur þá ekki síður til kasta bæjaryfirvalda á Akureyri en til Alþingis og ríkisstj.

Um þessar mundir er mikið leitað eftir nýiðnaðartækifærum ýmsum og fjármagni varið af hálfu ríkisins til rannsókna og athugana á ýmsum möguleikum þar að lútandi svo og staðarvali slíkra væntanlegra fyrirtækja. Á fjárlögum er nú varið 2 millj. kr. eða 200 millj. gkr. til athugana á ýmiss konar orkufrekum iðnaði. Er í því sambandi m. a. rætt um kísilmálmframleiðslu, magnesíumframleiðslu, pappírsframleiðslu o. fl. Einnig er um að ræða athuganir á eldsneytisframleiðslu, saltvinnslu, sykurhreinsunarverksmiðju, steinullarverksmiðju og stálbræðslu, þ. e. vinnslu úr brotajárni, og hefur einmitt komið fram í fréttum nú á síðustu dögum að mikill áhugi er hjá mönnum á slíkri verksmiðju. Jafnframt hefur komið fram í fréttum af því máli að slík verksmiðja mundi kosta um 10 milljarða gkr. eða um 100 millj. kr. og það fé mundi skila sér á 15 árum ef áætlanir þar að lútandi standast. Þessi verksmiðja mun þó aðeins veita um 60 manns atvinnu. Er af því ljóst að a. m. k. sum þessara nýiðnaðartækifæra, sem miklu fjármagni er varið til að rannsaka og undirbúa, veita álíka mikla atvinnu og sá skóiðnaður sem nú er starfræktur í landinu. Að sjálfsögðu er það fyllilega tímabært og til þess gert að efla atvinnulíf okkar og auka fjölbreytni þess, svo og að nýta dýrmætar orkulindir, að kanna nýjar leiðir í atvinnumálum okkar Íslendinga og þá einkum á sviði iðnaðar. Er einnig vonandi að hér sé um arðbæra fjárfestingu að ræða, fjárfestingu sem skili auknum tekjum í þjóðarbúið og bæti lífskjör þegnanna.

En þá hlýtur einnig að vakna sú spurning, hvort ekki sé eðlilegt og mikilvægt að gæta vel að þeim iðnaði, sem fyrir er, og leita allra leiða til að koma í veg fyrir að gamlar og grónar iðngreinar leggist niður, jafnhliða því sem hugað er að nýjum atvinnumöguleikum.

Herra forseti. Að lokum langar mig til að lesa hér upp tvær ályktanir sem mér hafa borist frá Akureyri varðandi þetta málefni. Sú fyrri er frá bæjarstjórn Akureyrar og hljóðar svo:

„Akureyri, 18. mars 1981.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur á fundi sínum 10. mars s. l. samþykkt eftirfarandi tillögu:

„Bæjarstjórn Akureyrar beinir þeirri áskorun til ríkisstj., að hún beiti sér fyrir nauðsynlegum stuðningi við skóiðnað í landinu.“

Þetta tilkynnist yður hér með.

Bæjarstjórinn Akureyri.“

Og hin bókunin er frá atvinnumálanefnd Akureyrar og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Akureyri, 18. mars 1981.

Atvinnumálanefnd Akureyrar hefur á fundi sínum í dag gert eftirfarandi bókun:

„Atvinnumálanefnd Akureyrar beinir þeirri ósk til Alþingis, að till. til þál., borin fram af Guðmundi Bjarnasyni og fleirum, um athugun á rekstrargrundvelli skógerðar og skóiðnaðar í landinu verði samþykkt hið fyrsta. Jafnframt beinir atvinnumálanefnd þeirri ósk til ríkisstj., að þeirri athugun, sem till. fjallar um, verði hraðað sem kostur er og stjórnvöld beiti áhrifum sínum til að koma í veg fyrir lokun skóverksmiðjunnar Iðunnar meðan á þessari athugun stendur.“

Þetta tilkynnist yður hér með.

F. h. atvinnumálanefndar Akureyrar.

Páll Hlöðversson.“

Ég vil að lokum aðeins ítreka og leggja áherslu á það sem hér kemur fram í bókun atvinnumálanefndar Akureyrar, að máli þessu verði hraðað svo sem kostur er í gegnum þingið og nefnd sú, sem fær þáltill. til meðferðar, reyni að hraða afgreiðslu hennar svo sem frekast er kostur. Ég minni í því sambandi á bókun þá, sem ég las upp fyrr í ræðu minni frá fundi stjórnar Sambands ísl. samvinnufélaga, þar sem gert er ráð fyrir að mál þetta verði tekið fyrir á næsta stjórnarfundi, sem halda á 27. mars n. k., en það er á föstudaginn kemur. Ef ekki er líklegt að Alþingi og ríkisstj. taki jákvætt á þessu máli má reikna með að stjórn Sambandsins álykti að standa við fyrri bókanir og loka verksmiðjunni á miðju þessu ári. Sé hins vegar einhver von til aðgerða af hálfu ríkisvaldsins er trúlega hægt að ná samkomulagi við eigendur verksmiðjunnar um að starfseminni verði haldið eitthvað áfram meðan þær athuganir fari fram, í þeirri von að þær leiði það af sér, að hægt sé að halda áfram starfsemi verksmiðjunnar, sem hlýtur að vera mikils virði í atvinnulegu, félagslegu og þjóðhagslegu tilliti.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að till. verði vísað til hv. atvmn.