24.03.1981
Sameinað þing: 65. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3071 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

246. mál, samræming á mati og skráningu fasteigna

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég vil taka undir með flm. þessa frv. að það er nauðsynlegt að vera vel á verði ef einhvers staðar er hægt að einfalda það þjónustukerfi, sem við búum við, og gera það ódýrara. Í sambandi við þessa till. vil ég fyrst og fremst taka undir það sem fram kemur rétt síðast í grg., en þar segir, með leyfi forseta: „Það mætti e. t. v. hugsa sér að ná svipuðum árangri til sparnaðar með því að fela Fasteignamati ríkisins að annast brunabótamat húseigna og er rétt að athuga einnig þann möguleika.“

Þegar Alþingi var að ganga frá lögum um skráningu og mat fasteigna höfðu menn mjög í huga þennan möguleika við fasteignamat. Í 8. gr. þeirra laga segir svo, með leyfiforseta:

„Við Fasteignamat ríkisins skal starfa ráðgefandi nefnd þeirra aðila sem nýta eða geta nýtt skrána við starfsemi sína.“

Og þar eru talin upp m. a. tryggingafélög og ýmsir fleiri aðilar. Ég verð að segja að ég held að eðlilegra og hagkvæmara hljóti að vera að svona starfsemi fari fram á einum stað heldur en skipta þessu milli allra aðila sem annast brunatryggingar húsa.

En það er annað í þessu sambandi sem ég vildi einnig vekja athygli á, og það eru lögin um brunatryggingar húsa. Sumir þeirra, sem um þau mál fjalla, telja að með hagræðingu á tryggingamálum sé hægt að ná fram verulegum ávinningi og sparnaði, þá jafnframt fyrir þá sem njóta þessara trygginga. Við mig hefur verið varpað fram þeirri hugmynd, að komið verði á einhverju grunnmati, eins og reyndar er gert ráð fyrir í lögum um skráningu og mat fasteigna og einnig er rætt um í grg. þessarar till., og þetta mat sé síðan hægt að nota til að leggja á fasteignaskatta og það sé notað til að ákveða bætur fyrir brunatjón. Þá sé ekki endilega miðað við einhverja fyrir framákveðna upphæð, heldur séu iðgjöldin miðuð við þetta mat og síðan eigi sá, sem eignina tryggir, rétt á því að fá tjónið bætt. Þeim, sem standa í því að gera upp tjón, finnst ákaflega slæmt þegar þeir standa frammi fyrir því, að brunabótamatið hefur verið lægra en tjónið, og verða svo að fara að klípa af tjónabótum. Þetta er mjög tilfinnanlegt, fyrst og fremst vitanlega fyrir tjónþola, en einnig erfitt fyrir þá sem í uppgjöri þurfa að standa fyrir hönd tryggingafélagsins. Með því að rígbinda ekki endilega við einhverja ákveðna bótaupphæð, heldur að fundið verði út eitthvert mat, sem iðgjaldið miðast við, telja þeir að hægt væri að komast a. m. k. að miklu leyti fram hjá slíkum erfiðleikum.

En svo er þriðji aðilinn eða þriðji hópurinn sem oft lætur fara fram mat á mörgum eignum, og það eru lánastofnanir. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að reyna að koma því inn í þetta heildarmat, að ekki þurfi að meta eign sérstaklega í hvert skipti sem lántaka fer fram, heldur sé fyrirliggjandi og gildandi mat sem hægt sé að styðjast við. Það getur vel verið að þessi nefnd, sem gert var ráð fyrir í lögum um skráningu og mat fasteigna, sé ekki nægileg enda þótt þar eigi að koma inn aðilar sem geti notað þetta, hún sé ekki nægileg til þess að þessir aðilar liti á þetta sem sína stofnun sem hægt sé að treysta. Ég held að það hlyti þá að vera rétt að skoða þá hugmynd, hvort þetta gæti orðið eins konar sameignarfélag ef talið er að slíkt rekstrarform muni draga eitthvað úr kostnaði og gera þetta trúverðugra. Ég vil sem sagt taka undir það, að reynt sé að ná því markmiði, sem ætlað var með lögum um skráningu og mat fasteigna, að gera þetta einfaldara, eins og tæpt er á í till. En ég dreg í efa að því marki yrði náð með því að fara að dreifa þessu á milli allra tryggingafélaga þar sem þá væri ekki lengur um einn aðila að ræða sem annaðist þetta og þá væri meiri mismunur eða minna samræmi í matinu.