25.03.1981
Efri deild: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (3204)

5. mál, barnalög

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það kom fram hér við 2. umr. þessa máls aths. frá hæstv. félmrh. þar sem hann m. a. benti á og óskaði raunar eftir að allshn. tæki til endurskoðunar 50. gr. barnalaganna. Það, sem hæstv. ráðh. m. a. benti á, var ákvæði í 3. mgr. 50. gr. eins og hún er orðuð. Þar segir, með leyfi forseta:

„Dómari getur látið sækja aðila máls með valdi til að gefa skýrslu fyrir dómi“ o. s. frv. Svo og þótti mönnum sem hinar fyrri tvær mgr. mætti e. t. v. orða öðruvísi án þess að þar yrði um merkingarbreytingu að ræða.

Allshn. hefur fjallað um þetta mál og flytur brtt. um að 50. gr. orðist svo:

„Nú er maður yfirheyrður sem málsaðili eða vitni í barnsfaðernismáli, og er honum þá skylt að gefa skýrslu um samneyti sitt við barnsmóður á getnaðartíma barns.

Barnsmóður er skylt að skýra frá því í slíku máli, hverjir hafi átt samneyti við hana á getnaðartíma barns. Aðilum máls er skylt, eftir kröfu dómara, að mæta fyrir dómi og gefa skýrslu, konunni þó ekki ef hún er sóknaraðili máls, enda skal vísa máli frá dómi ef hún neitar að gefa skýrslu, sem henni er unnt að gefa fyrir dómi, eða neitar að leggja sig og barnið undir blóðrannsókn eða aðra sérfræðilega rannsókn sem dómari mælir fyrir um.“

Allshn. var á einu máli um að leggja til að þessu yrði breytt á þennan veg. Ég hygg að segja megi með nokkrum sanni að e. t. v. sé orðalag viðkunnanlegra á þessari grein eins og nefndin leggur til að henni verði breytt. Nefndin leggur sem sé til að þessi brtt. við 50. gr. verði samþykkt.