25.03.1981
Efri deild: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3080 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

37. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hinn 9. sept. 1980 voru gefin út brbl. um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þessi brbl. voru sett í framhaldi af samningum sem gerðir voru við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og m. a. fólu í sér ýmsar félagslegar réttindabætur sem samið var um í tengslum við gerð þessara kjarasamninga.

Í þessum lögum er sérstaklega fjallað um atvinnuleysisbætur til handa opinberum starfsmönnum, en þeirra réttinda höfðu þeir ekki notið fram að þessu. Bætt er inn í lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna svofelldu ákvæði:

„Þeir félagar BHM í þjónustu ríkisins, sem ekki njóta ákvæða 14. gr. laga nr. 38/1954, skulu njóta atvinnuleysisbóta sambærilegra við annað launafólk, í samræmi við gildandi lög og framkvæmd þeirra á hverjum tíma, sbr. einkum IV. og V. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Bótaréttur skal m. a. háður því skilyrði, að atvinnulaus starfsmaður hafi sannanlega ekki neitað annarri vinnu, sem boðist hefur, sbr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og túlkun hennar á liðnum árum.“

Eins og hér kemur fram í lagatextanum eða frv.-textanum er hér fyrst og fremst fjallað um atvinnuleysisbætur í þágu félagsmanna í Bandalagi háskólamanna, en samsvarandi lagabreytingar voru jafnhliða gerðar með brbl. í þágu félagsmanna BSRB.

Herra forseti. Ég held að ekki sé þörf á að fjölyrða frekar um frv. þetta, sem þegar hefur hlotið afgreiðslu Nd., en ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.