25.03.1981
Neðri deild: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3081 í B-deild Alþingistíðinda. (3219)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Það er nú að líða þriðji mánuðurinn frá því að þessi brbl. voru sett, og fram hefur komið að í raun er lítið eftir af efni þessara laga annað en 7% skerðing verðbóta á laun 1. mars s. l. En þó er það svo, að þar sem aðeins einn mánuður er til 1. maí eða rúmlega það og lögin eru í raun miðuð við þann dag, öllum vandamálunum er stefnt saman að þeim degi, þá er ástæða til þess að fjalla nokkuð um ekki síst 1. gr. brbl., þ. e. verðstöðvunina sem sagt er í frv. að skuli standa frá 1. jan. til 1. maí. Raunar er verðstöðvun ekki annað en ítrekun á lagaákvæðum sem fyrir voru í lögum, og eina nýmælið í þessari grein er að verðstöðvun skuli ljúka 1. maí. Það er þess vegna ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. og/eða hæstv. viðskrh. um það, hvað við skuli taka í þessum efnum 1. maí n. k.

Herra forseti. Ég sé nú að hvorugur ráðh. er viðstaddur þessar umr. og óska þess að annar hvor eða báðir verði hér til staðar. (Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til þess að athuga hvort hæstv. ráðh. eru staddir í húsinu, en vil fyrir mitt leyti fallast á að hv. þm. geri hlé á ræðu sinni meðan málið er athugað og þeim gefst kostur á að ná fundi.) Ég þakka forseta.

(Forseti: Þá verður fundi fram haldið. Ég hef spurnir af því, að hæstv. forsrh. er væntanlegur á hverri stundu, og ég vænti þess, að hv. 1. þm. Reykv. geri svo vel og haldi fram ræðu sinni.) Herra forseti. Ég var þar kominn í ræðu minni sem ég vakti athygli á því, að í raun væri nú aðeins mánuður þar til verðstöðvun samkv. 1. gr. þess frv., sem við ræðum hér, ætti að ljúka, og ég beindi þeirri fsp. til hæstv. forsrh. og/eða hæstv. viðskrh., hvað mundi taka við eftir 1. maí 1981, hvort ríkisstj. hygðist framlengja verðstöðvunartímabilið eða hvaða fyrirkomulag hún hygðist hafa í verðlagsmálum eftir 1. maí n. k. Það liggur fyrir brtt. frá fulltrúum Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. þar sem lagt er til að upp verði tekið það fyrirkomulag verðlagsmála sem ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. hafði komið sér saman um og fengið samþykkt hér á Alþingi vorið 1978.

Ég leyfi mér að vona að það sé þetta fyrirkomulag sem eigi að taka við eftir 1. maí n. k. En svo skammt er til stefnu að það ætti ekki að vera ofætlun að óska þess af hæstv. ráðh., að þeir svari því að hverju þeir stefni um fyrirkomulag verðlagsmála eftir 1. maí n. k.

Þá vil ég enn á ný leggja áherslu á þá skoðun okkar sjálfstæðismanna, að verðstöðvun, eins og gert er ráð fyrir í 1. gr. þessa frv., nær ekki tilgangi sínum, einkum og sér í lagi þegar svo á að heita að verðstöðvun hafi verið í gildi heilan áratug. Þessi áratugur ber vitni mestu verðhækkunum sem við Íslendingar höfum kynnst í sögu okkar, a. m. k. svo lengi sem við kærum okkur að rekja söguna á þessu sviði. Það hefur og sýnt sig á þessum nær þremur mánuðum sem liðnir eru frá gildistöku brbl., að verðhækkanir hafa orðið miklar, og almenningur í landinu, neytendur hafa ekki orðið varir við að verðbólgan hafi stöðvast. Þvert á móti heldur hún áfram af fullum krafti. Því er það önnur spurning mín til hæstv. forsrh. eða/og hæstv. viðskrh., hvað sé ráðgert varðandi hækkun framfærsluvísitölu frá 1. febr. til 1. maí n. k. Það hefur verið haft eftir hæstv. forsrh., að áætlun frá Hagstofu Íslands liggi fyrir um þetta efni og sé hún á þá lund, að framfærsluvísitalan eigi að hækka um 8.45% og af því leiði að verðbætur á laun hækki um sama hlutfall.

Nú er það sömuleiðis haft eftir hæstv. forsrh., að ríkisstj. gangi út frá þessari hækkun meðan annað komi ekki í ljós. En ég hef fyrir satt að í þessari spá sé t. d. ekki gert ráð fyrir hækkun á vinnslu- og dreifingarkostnaði mjólkurvara né á álagningu landbúnaðarvara í smásölu, sem ekki var innifalið í síðustu verðhækkun þeirra. Spurning mín er þá þessi: Er álitið að vinnslustöðvar landbúnaðarins eða smásala landbúnaðarafurða standi svo vel að vígi að unnt sé að halda uppteknum hætti áfram og koma í veg fyrir að þessi aukni kostnaður fari út í verðlagið? En ef svo færi, þá er ljóst að það mundi verða til þess að framfærsluvísitalan hækkaði meira 1. maí.

Þá hef ég það og fyrir satt, að ekki sé gert ráð fyrir neinni hækkun á opinberum þjónustugjöldum né á verði tóbaks og áfengis í þessari vísitöluspá. Þess vegna er það fyrirspurn mín til hæstv. forsrh. og/eða hæstv. viðskrh., hvort það sé ætlun ríkisstj. að leyfa engar hækkanir opinberra þjónustugjalda fyrir 1. maí n. k. og hvort það sé þá þeirra mat, að staða þessara þjónustufyrirtækja sé slík að þau geti vel staðið undir hækkandi tilkostnaði með óbreyttum tekjum.

Ég hlýt að skjóta því hér inn í mál mitt, að á fundi, sem þm. Reykvíkinga héldu með borgarfulltrúum í Reykjavík fyrir nokkrum vikum, var það helsta áhugamál borgarfulltrúa í Reykjavík — og ekki síst, heldur jafnvel fyrst og fremst borgarfulltrúa núv. meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur, að fá viðurkenningu opinberra aðila á hækkun á gjöldum opinberra þjónustufyrirtækja Reykjavíkurborgar, eins og Hitaveitu, Rafmagnsveitu og Strætisvagna Reykjavíkur. Vakin var athygli á því, að það ættu að veru hæg heimatökin fyrir meiri hluta borgarstjórnar í Reykjavík að hafa þau áhrif á ríkisstjórn Íslands að hún liti með sanngirni á slíkar beiðnir og afgreiddi þær í samræmi við þörf þessara stofnana. En hækkunarþarfir, sem um var talað af hálfu borgarfulltrúa í Reykjavík, voru frá 20 og upp undir 50% hvað þessi þjónustugjöld snertir.

Þess vegna ítreka ég þessa fsp. mína: Hvað ætlast ríkisstj. fyrir um afgreiðslu þessara þjónustugjalda? Sömuleiðis spyr ég hvort ríkisstj. telji ekki enn vera við lýði þá skuldbindingu af hálfu ríkisstj. að afgreiða ekki hækkun þjónustugjalda opinberra fyrirtækja nema á 10 síðustu dögum fyrir útreikningsdag vísitölu, þ. e. í þessu tilviki á milli 20. og 30. apríl n. k. Þessi skuldbinding var brotin af hálfu núv. ríkisstj. við setningu þessara brbl. með ákvörðun hennar um 10% hækkun opinberra þjónustugjalda rétt fyrir áramótin síðustu, þ. e. mánuði fyrr en útreikningsdagur vísitölunnar er, 1. febr., þannig að launþegar þurftu að bera þennan aukna kostnað óbættan mánuði lengur en ella. Heyrðist þá ekki hósti né stuna frá stuðningsmönnum ríkisstj. meðal forsvarsmanna Alþýðusambands Íslands sem þó höfðu lagt á það áherslu að fá þessu framgengt í samningum við ríkisstj. er sat 1974–1978.

Þegar á þetta er litið má sjá hvað það er óraunhæft að tala um að framfærsluvísitalan hækki ekki nema um 8.45%. En við skulum vona það besta, og út af fyrir sig væri gott ef framfærslukostnaður hefði ekki hækkað meira á þessu tímabili, 1. febr. til l. maí, en þessu nemur. En þegar hafðir eru í huga þeir þættir sem ég hef hér bent á og ekki er gert ráð fyrir í þessari spá, þá er hæpið að ganga út frá því.

Þá er að því komið að gera sér grein fyrir hvernig málin standa í raun og veru að mánuði liðnum. Samhliða verðstöðvun var ákveðin af hálfu ríkisstj. föst gengisskráning, sem þó hefur verið vikið frá og gefið eftir. Þó liggur það fyrir, að afkoma frystingarinnar er þannig að á vantar a. m. k. 5% að tekjur standi undir gjöldum, a. m. k. skortir það hlutfall á að Verðjöfnunarsjóður sé fær um að standa undir greiðslu viðmiðunarverðs. Þegar að því kemur að kauphækkun verður, hvort sem hún verður 8.5% 1. júní, 10% eða þaðan af meira, og fiskvinnslan verður að greiða þá hækkun, og þegar að því kemur að nýtt fiskverð er ákveðið og væntanlega hækkað um sama hlutfall, þá má ganga út frá því sem vísu að framleiðslukostnaður í landinu hafi hækkað um nálægt 10% frá og með 1. júní. Þegar þessi hækkun framleiðslukostnaðar helstu útflutningsatvinnuveganna er höfð í huga, til viðbótar þeim hallarekstri sem fyrir er, er ljóst mál að vandinn er engu minni en hann var um síðustu áramót eða í byrjun þessa árs, og e. t. v. meiri. Þessu til viðbótar hefur ríkisstj. ákveðið að festa vexti í verðtryggingarstigi í vaxandi mæli, og þegar verðbólgan er fyrirsjáanlega 50–60% á ári er slík stefna til þess fallin auðvitað að auka vaxta- og fjármagnskostnað framleiðsluatvinnuveganna. Það fer því ekki á milli mála, að þm. eigi kröfu til þess að fá að vita hvaða ráðagerðir ríkisstj. hefur varðandi lausn þess vanda sem við blasir, hvernig á að mæta núverandi taprekstri útflutningsatvinnuveganna, hvernig á að mæta þeim skuldum og skuldbindingum, sem hvíla á útflutningsatvinnufyrirtækjum og margar hverjar eru í vanskilum, og hvernig á að mæta vaxandi tilkostnaði eftir 1. júní n. k.

Nú hafa heyrst frá einstaka ráðherrum mismunandi skoðanir í þessum efnum. Hæstv. sjútvrh. hefur látið þá skoðun í ljós, að takmarka ætti verðbætur á laun við 8`% frá og með 1. júní n. k., án tillits til þess, hver hækkun framfærsluvísitölu verður, og þar með án tillits til þess, hve verðbætur á laun ættu að hækka samkv. þeim brbl. sem nú eru til umræðu, en þar er skýrt og greinilega talað um að hækkun verðbóta eigi að vera í fullu samræmi við hækkun framfærsluvísitölu, þó án tillits til hækkunar áfengis og tóbaks.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður þingflokks Alþb., og ég held að ég fari einnig rétt með, hæstv. félmrh., formaður Alþb., hafa hins vegar látið í ljós að ekki komi til greina að skerða verðbætur á laun umfram það sem þegar hefur verið gert með þessum brbl. Og fulltrúar-Alþb. hafa skákað í því skjólinu, að verðlagsmál og vaxtamál og sjávarútvegsmál væru öll í höndum ráðh. framsóknarmanna og það væri á valdi framsóknarmanna þar af leiðandi hve verðhækkanir yrðu miklar og hvaða skuldbindingar og kostnaðarhækkanir kæmu á atvinnuvegina vegna hækkaðra verðbóta á laun. Þannig hafa þeir og lagt ábyrgðina á afkomu sjávarútvegsins á herðar framsóknarmanna og sömuleiðis hvað framkvæmd hávaxtastefnu núv. ríkisstj. snertir. Það má e. t. v. segja að enginn sé annars bróðir í leik, en slík framkoma ráðherra gagnvart starfsbræðrum sínum eins og framkoma Alþb. manna gagnvart ráðherrum framsóknarmanna í þessu tilviki er þó íhugunarefni fyrir landsmenn.

Ég verð að segja það eins og er; að. ég held að það sé ekki á valdi neinna stjórnvalda, hvorki ríkisstj. né Alþingis, að ákveða með lögum að verðlag skuli vera óbreytt eða stöðugt. Ég held að það hljóti að vera svo, að kostnaðarþættir við framleiðslu og framboð og eftirspurn ráði verðlaginu þegar til lengdar lætur. Það er þó verkefni stjórnvalda að skapa fyrst og fremst skilyrði til þess að unnt sé að halda stöðugu verðlagi. Þau skilyrði hafa ekki verið sköpuð af hendi núv. stjórnvalda, síður en svo. Þar hefur verið kynnt undir verðbólguþróunina, og nægir í því sambandi að nefna stefnu ríkisstj. t. d. hvað snertir verðlagningu opinberrar þjónustu, þar sem seinkun á afgreiðslu raunhæfra og rökstuddra hækkunarbeiðna þessara fyrirtækja hefur orðið til þess, að þegar svo er látið undan er hækkunarþörfin orðin mun meiri en hefði orðið ef sanngjörn afgreiðsla hefði fengist þegar í upphafi. Og þessum fyrirtækjum er vísað á að taka erlend lán sem auk þess að auka skuldabyrði framtíðarinnar eru til þess fallin að auka spennuna innanlands og kynda undir verðbólgunni.

Það er athyglisvert, að þessi brbl. sem og efnahagsáætlun ríkisstj., ef hvort tveggja er skoðað saman, er til þess fallið annað tveggja að falla um sjálft sig og verða að engu eða að verða til þess að hjól atvinnulífsins stöðvast og atvinnuleysi heldur innreið sína. Það er athyglisvert, að þetta eru þeir kostir sem ríkisstj. hefur í raun og veru myndað sér sjálf eftir eins árs valdaferil í þeirri bestu árgæsku sem við Íslendingar höfum lengi notið. Ytri aðstæður á s. l. ári eru með því allra besta sem við þekkjum, fiskafli með besta móti, eins og sést á því, að þorskaflinn varð 426 þús. tonn, en það eru ekki nema 5–6 ár síðan þorskaflinn var 250 þús. tonn. Það munar um minna en slíka aukningu þorskafla til að vinna úr og fá tekjur af, og ætti út af fyrir sig að hafa orðið til þess að ríkisstj. hefði tæki í höndunum til þess að vinna gegn verðbólgunni. En því vopni hefur hún ekki beitt og misst úr höndum sér.

Það er íhugunarefni, alvarlegt íhugunarefni, að svo er haldið á málum í tíð vinstri stjórna frá hausti 1978 til þessa dags, að aukning þjóðarframleiðslu er sama og engin árið 1979 og árið 1980, þrátt fyrir þann aukna fiskafla sem ég gat um. Og nú á yfirstandandi ári spáir Þjóðhagsstofnun að þjóðarframleiðslan standi í stað. Það er hin dauða, staðnaða hönd Alþb. fyrst og fremst og vinstri flokkanna almennt sem þessu veldur. Það sígur sífellt á ógæfuhliðina þrátt fyrir góðar ytri aðstæður. Það er hvergi gróska í íslensku atvinnulífi í raun og veru sem marktæk er til frambúðar. Fólk streymir úr landi og sumpart er haldið uppi óarðbærum atvinnurekstri í einstökum greinum.

Ríkisfjármálin eru sögð í sæmilegu lagi, en hv. þm. Matthías Á. Mathiesen greindi frá því hér í umr. í gær að þar er ekki útlit og horfur jafngóðar og stjórnarsinnar hafa hingað til látið í veðri vaka. Það er heldur enginn vandi að halda sæmilegum jöfnuði í ríkisfjármálum ef það er annars vegar gert með stóraukinni skattheimtu, en á yfirstandandi ári eru 60–70 milljarða kr. meiri skattar á lagðir en gert var fyrir þremur árum. Auk þess er vanda ríkisfjármálanna velt yfir á lánsfjár- og fjárfestingaráætlun, þannig að til viðbótar aukinni skattheimtu eru auknar erlendar lántökur látnar leysa fjárþörf ríkisins og opinberra framkvæmda. Með þessum hætti er einnig verið að auka á þensluna innanlands og verðbólgubálið kynt.

Það, sem nú er nauðsynlegt að gera, er auðvitað að treysta undirstöður atvinnuuppbyggingarinnar, að marka stórhuga orku- og iðnaðarstefnu, en hvort tveggja hefur verið látið undir höfuð leggjast í tíð núv. ríkisstj. og fyrri ríkisstjórna er vinstri menn hafa borið ábyrgð á. Það er nauðsynlegt að draga stórlega úr skattheimtu og ríkisumsvifum, endurskoða ríkisútgjöldin frá grunni til þess að auka frelsi einstaklinga og atvinnufyrirtækja svo að verðmætasköpunin geti hafist og aukning þjóðarframleiðslu verði tryggð. Það er nauðsynlegt að gerbreyta um stefnu í verðlagsmálum og koma á frjálsri verðmyndun með því að örva samkeppni. Í þeim efnum má nefna mikilvægi þess máls er á góma bar í gær, þ. e. að veita gjaldfrest á greiðslu aðflutningsgjalda til þess að auka vöruframboðið í landinu svo að samkeppni aukist og verðlag fari lækkandi. Það er nauðsynlegt í stað hávaxtastefnu að byggja á jafnvægisvöxtum, þ. e. að framboð og eftirspurn ráði fjármagnskostnaði í samræmi við arðbærni fjárfestinga í landinu.

Þessi brbl. og efnahagsáætlun ríkisstj. eru sögð flutt og að þeim staðið í þeim tilgangi að treysta atvinnulífið í landinu. Ég hef skýrt það hér í máli mínu, að ríkisstj. á í raun og veru ekki nema tveggja kosta völ: að hverfa frá verðstöðvun, föstu gengi og hávaxtastefnu og gerbreyta stefnu sinni með þeim hætti, eða hjól atvinnulífsins stöðvast og atvinnuleysi heldur innreið sína. Þannig eru hvorki brbl. né efnahagsáætlunin til þess fallin að treysta atvinnulífið eða atvinnuöryggið í landinu, heldur þvert á móti.

Okkur er einnig sagt að þessi brbl. svokölluð og efnahagsáætlun ríkisstj. séu til þess fallin að draga úr verðbólgu í landinu. En áætlanir Þjóðhagsstofnunar segja okkur að verðbólgan verði enn 50–60% á yfirstandandi ári eða sama verðbólgustig og var á síðasta ári. Það er enginn árangur þannig í baráttunni gegn verðbólgunni. Það er eingöngu hægt að nefna árangur þegar miðað er við í hvað hefði stefnt í verðbólguvexti vegna óstjórnar og stjórnleysis ríkisstj. á s. l. ári, en þá hefði stefnt í 70% verðbólgu. En miðað við það, sem þróun verðlags í tíð vinstri stjórna hefur sýnt, og þegar hafður er í huga samanburður á verðbólguspám og raunveruleikanum, þá má allt eins búast við að þar sem nú er spáð 50% verðbólgu verði um mun hærra verðbólgustig að ræða.

Okkur er sagt að þessi efnahagsáætlun og brbl. eigi að tryggja kaupmátt launa. Það var í raun og veru höfuðafsökun eða skýring Alþb. opinberlega og út á við á þátttöku Alþb. í núv. stjórnarsamstarfi að vernda kaupmátt launa. Árangurinn eftir árið 1980 er sá, að kaupmáttur kauptaxta allra launþega í landinu er 5% minni en á árinu 1979. En á sama tíma eru þó þjóðartekjur 1% hærri en á árinu 1979. Hlutdeild launþega í þjóðartekjum hefur m. ö. o. skerst í tíð þessarar ríkisstj. Alþb., í tíð þessarar ríkisstj. sem Alþb. hefur veg og vanda af.

Herra forseti. Ég skal nú fara að stytta mál mitt, en hlýt þó að bregða upp mynd af því í hvað stefnir ef svo heldur fram sem horfir. Nú í dag er útbýtt fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981, þeirri fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem átti að fylgja fjárlagafrv., sem er venjulega fyrsta mál þingsins. Það hafa sem sagt liðið hátt í sex mánuði, heilt misseri frá því að fjárlagafrv. er lagt fram og þar til fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er lögð fram. Svo vel er staðið við þá lagaskyldu sem á stjórnvöldum hvílir samkv. svokölluðum Ólafslögum. Og samkv. þessari fjárfestingar- og lánsfjáráætlun er bersýnilegt að halda á áfram á þeim glötunarvegi, sem núv, ríkisstj. hefur markað sér, að leysa meira og minna öll vandamál með auknum erlendum lántökum. En samkv. þessari lánsfjáráætlun trúi ég að áætluð heildarlántaka erlendis sé 145 milljarðar gkr., það eru þær upplýsingar sem ég hafði, en hef ekki haft tíma til þess að staðreyna þær upplýsingar með yfirlestri þessa plaggs sem var að koma á borð okkar. Þar sem áætluð heildarlántaka erlendis mun vera á yfirstandandi ári 145 milljarðar gkr., en afborganir af erlendum lánum munu verða á þessu ári um 70 milljarðar gkr., munu erlend lán aukast um 75 milljarða gkr. Erlendar skuldir í árslok 1980 voru 597 milljarðar gkr., en það merkir að það hvíla 2.6 millj. gkr. í erlendum skuldum á hverju mannsbarni, jafnt barni í vöggu og öldungi sem hefur lokið starfsævi sinni, og væntanlega verður þessi upphæð nálægt 3 millj. gkr., eða um 12 millj. gkr. á fjögurra manna fjölskyldu, í árslok 1981. Mun það væntanlega vera nokkru hærra en meðaltekjur slíkrar fjölskyldu á yfirstandandi ári. Talið er að við munum á þessu ári verja rúmlega 16% af útflutningstekjum okkar til greiðslu vaxta og afborgana af erlendum lánum. Þetta er sú þróun sem ekki má halda áfram, en hlýtur óhjákvæmilega að halda áfram ef ólánsstefnu núv. ríkisstj. er fylgt fram, þeirri ólánsstefnu að víkja alltaf vandamálunum frá sér, velta þeim á undan sér eins og snjóbolta sem veltur niður fjallshlíðina og stækkar og stækkar þar til hann verður að snjóflóði. Það er von mín, að sú stefnubreyting takist í íslenskum efnahagsmálum, áður en snjóflóðið kaffærir meginhluta atvinnuvega í landinu, sem dugi til þess að byggja hér upp á ný á Íslandi gróskumikinn iðnað og vaxtarbrodda í atvinnuvegunum á grundvelli stórhuga orkustefnu.