04.11.1980
Neðri deild: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það virðist vera orðin venja hæstv. ríkisstj. síðustu daga að flytja gjarnan mál fyrir þinginu sem hún tilkynnir síðan að hún sé á móti. Þetta gerir hæstv. sjútvrh. með frv. því sem hér er um að ræða, og ekki var annað að heyra á hæstv. ráðh. og flokksbróður hans, formanni þingflokks Framsfl., í gær en að þá væru þeir báðir sammála um að ekki væri fært annað en að vera á móti frv. sem ríkisstj. flytur um Flugleiðamálið. Hæstv. ríkisstj. er því komin í þá furðulegu aðstöðu að vera bæði með og á móti eigin frv. á þingi.

Ég ætlaði ekki að flytja langt mál um þetta frv., enda höfum við Alþfl.-menn undirgengist að tefja ekki framgang þess hér í þingsölum, afgreiða það frekar með hraði en hitt. En ég vil aðeins taka fram í þessu sambandi, sem sjálfsagt hefur áður fram komið, að ástæðuna fyrir því, að þetta mál er nú á ferðinni, má rekja til hæstv. sjútvrh. sjálfs. Það var hann sem raunverulega hóf afskipti af þessum málum með því að lækka olíugjaldið verulega í vor, fljótlega eftir að hann tók við embætti, og tók þá sérstaklega fram að það væri hæstv. ráðh. að gera til að greiða fyrir samkomulagi við sjómenn vestur á Ísafirði. Nú leikur mér hugur á að fá að vita hvaða áhrif hæstv. ráðh. heldur að þessi ákvörðun hans nú, sem hann biður þingið um að staðfesta, en segist sjálfur vera á móti, muni hafa á næstu fiskverðssamninga, sem fram eiga að fara eftir nokkrar vikur. Telur hann líklegt að aðgerð hans núna, sem stangast á við aðgerð hans frá því fyrir nokkrum mánuðum, sé líkleg til að greiða fyrir ákvörðun fiskverðs sem fram fer eftir nokkrar vikur? Ef til vill er það þess vegna sem hann slær þann varnagla núna í ræðustól á Alþ. að segjast sjálfur vera á móti eigin máli.

Ég vil aðeins undirstrika það, að fram kom hjá hæstv. ráðh. að hann mótmætti því ekki, sem Karvel Pálmason hefur bent á tvívegis úr ræðustól, að þetta mál er nú þann veg öðruvísi vaxið en það var þegar ríkisstj. Alþfl. átti hlut að olíugjaldi, að þá var fiskverð ávallt ákveðið í tengslum við ákvörðun um olíugjald án mótmæla sjómanna. Og ég minni á að forustumenn sjómanna tóku sérstaklega fram áður en þetta olíugjald var fyrst leitt í lög í byrjun árs 1979, að þeir teldu ekki óeðlilegt að þann veg yrði tekið á málum vegna hinnar miklu olíuverðshækkunar. Hins vegar var það hæstv. sjútvrh. sjálfur sem átti frumkvæðið að því fyrir nokkrum mánuðum að breyta þessu gjaldi og óskar svo nokkrum mánuðum seinna eftir því að snúið sé við. Hæstv. sjútvrh. hefur í öllu sínu máli ekki mótmælt því, að þetta er í fyrsta skipti, sem slíkt gjald er ákveðið í tengslum við fiskverðsákvörðun, frá því að það fyrst var lögleitt í mars 1979, eftir að sjómannasamtökin hafa harðlega mótmælt fiskverðsákvörðun í tengslum við olíugjald.

Um hv. þm. Garðar Sigurðsson ætla ég að fara fáum orðum, hef ekki sérstaka ástæðu til, en ætla að benda þeim ágæta þm. og flokksbræðrum hans á að hann ætti ekki að vera alveg svona orðljótur við okkur Alþfl.menn því að ég veit ekki betur en að það sé eina tækifærið fyrir þennan ágæta þm. að koma skoðunum sínum á framfæri í fjölmiðlum ef blöð, sem gefin eru út af Alþfl., sjá um að svo sé. Virðast þau blöð, sem gefin eru út af hans eigin flokksmönnum, ekki hafa mikinn áhuga á þessum ágæta þm., — a.m.k. minnist ég þess ekki um margra mánaða skeið að hans hafi verið þar getið að nokkru.