25.03.1981
Neðri deild: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3086 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. varpaði nokkrum spurningum fram til hæstv. forsrh. og einnig til mín. Ég heyrði ekki ræðu hans alla vegna þess að við vorum bundnir við atkvgr. í Ed., en ég skal svara því sem ég heyrði af þeim spurningum sem hann beindi til okkar.

Sú spurning, sem fyrst og fremst var beint til ríkisstj., var þessi: Hvað tekur við 1. maí n. k. þegar verðstöðvun þeirri lýkur sem kveðið er á um í brbl. sem hér eru til meðferðar? Um það vil ég aðeins upplýsa að ríkisstj. hefur verið og er að fjalla um efnahagsmálin. Það var alltaf hugmyndin að gera úttekt á stöðunni þegar færi að líða á þetta tímabil frá áramótum fram til 1. maí, að gera úttekt á stöðunni og reyna að átta sig á því, hvernig til hefði tekist um þróun efnahagsmálanna. En þar sem þessi úttekt hefur ekki endanlega farið fram — þó að við vitum nú um vissa hluti sem ástæða er til að ætla að breytist ekki mikið frá því sem nú er, og kem ég að því hér á eftir, — þá eru ekki tök á að svara því nú hvað tekur við 1. maí, vegna þess að menn vita ekki til fulls hvernig þróunin verður á þessu tímabili. Það er þó ástæða til að geta þess í þessu sambandi, að í efnahagsáætlun ríkisstj. frá áramótunum er gert ráð fyrir að dregið verði svo úr hraða verðbólgunnar á þessu ári að hún lækki í um 40%. Þetta er stefnuskráratriði sem stefnt er að. Og í öðru lagi, að á næstu mánuðum, eins og það var orðað, verði ákveðin tímasett mörk fyrir hámark verðhækkana í samræmi við hjöðnun verðbólgu. Það fer því ekkert á milli mála hvaða markmið það eru sem ríkisstj. stefnir að í þessum efnum. Hvernig til tekst skal ég ekki spá á þessari stundu, en ég er þó þeirrar skoðunar, að með tilliti til þess, sem gert var um áramótin, eigi ríkisstj. að hafa öll skilyrði til að ná þessum markmiðum ef ekki gerist eitthvað ófyrirséð sem kann að breyta málum.

Ég hef látið þá skoðun í ljós, gerði það raunar þegar um áramótin og við framsóknarmenn höfum ítrekað það, að þær aðgerðir, sem gerðar voru þá, hafi verið skref í þá átt að lækka verðbólgu, vinna að hjöðnun verðbólgu, en að þær aðgerðir komi ekki að fullum notum nema þeim verði fylgt eftir. Eins og hv. 1. þm. Reykv. drap á liggur nú fyrir áætlun um að framfærsluvísitala hnekki um 8.45% 1. maí n. k. Og það er alveg rétt, það liggur fyrir áætlun frá Hagstofunni um það. Hv. þm. ræddi síðan um og spurðist fyrir um nokkur efni sem hafa auðvitað áhrif á framfærsluvísitöluna, eins og t. d. opinber þjónustugjöld. Og það er rétt, að þau eru ekki inni í þessari áætlun og ekki gert ráð fyrir hækkun opinberra þjónustugjalda. Sú ákvörðun var tekin fyrir áramótin að hækka opinber þjónustugjöld yfir heilu línuna, ef svo mætti komast að orði, um 10%.

Ég skal ekki spá um það, hvað hægt er að komast af með í sambandi við hækkun á opinberum þjónustugjöldum, en ég vil þó auðvitað benda á að í áætlunum ríkisstj. er gert ráð fyrir að koma verðbólgunni niður í 40% á þessu ári. Það er engin launung á því, að ríkisstj. leggur á það hið mesta kapp að halda niðri opinberum þjónustugjöldum. Það er mikið kvartað undan því í þjóðfélaginu, að í baráttunni við verðbólguna sé tregða á því af hálfu ríkisvaldsins að gera ráðstafanir af sinni hálfu til þess að lækka verðbólgu, m. a. með því að lækka þjónustugjöld. Það hafa ekki verið teknar ákvarðanir um það enn þá, hvað gert verður í þessu efni 1. maí. Það hafa ekki heldur verið teknar ákvarðanir um það, hvað gert verður í sambandi við þjónustugjöld ýmissa opinberra þjónustuaðila Reykjavíkurborgar. Það gefur auðvitað auga leið, að ef á að lækka þjónustugjöldin og opinber útgjöld, þá verður að verða breyting á rekstri þeirra stofnana sem hlut eiga að máli, hvort sem er um að ræða stofnanir ríkisins eða stofnanir Reykjavíkurborgar eða einhverjar aðrar opinberar þjónustustofnanir. Það hefur verið mikil tregða í kerfinu að aðlaga sig vilja stjórnvalda í þessum efnum, og oft hafa menn vaknað upp við vondan draum, við það að málefni opinberra þjónustustofnana eru komin í óefni.

Ég hef ekki trú á því, að það verði hægt að koma við lækkunum á opinberum þjónustugjöldum nema þessar stofnanir breyti rekstri sínum, en það kann að koma niður á þjónustu þeirra að einhverju leyti. Það verða menn að horfast í augu við.

Ég er alveg sammála um það, sem oft er sett fram, að til þess að lækka verðbólguna og verðlagið í landinu verður að lækka kostnaðartilefni, þá verður að eyða tilefni til verðhækkana. Ég er sammála um það. Það er ekki hægt að skrúfa fyrir verðbólguna eins og fyrir radíó, það er alveg ljóst mál.

Hv. 1. þm. Reykv. kom nokkuð inn á gengismálin. Af því tilefni vil ég aðeins ítreka það sem áður hefur verið sagt, að íslenska krónan hefur staðið algerlega í fullu gildi gagnvart öllum þeim gjaldmiðlum, sem skráðir eru hjá Seðlabankanum, þegar meðaltalið er tekið frá áramótum. Hún hefur að vísu lækkað gagnvart dollar, en það er ekkert einsdæmi. Það hafa náttúrlega gjaldmiðlar um víða veröld gert, vegna þess að dollarinn hefur styrkst miklu meira en menn áttu von á. Ég held því að við getum verið fullsæmdir af því, Íslendingar, ef krónan hjá okkur stendur í sama verðgildi, miðað við meðaltal þeirra gjaldmiðla sem skráðir eru hjá okkar Seðlabanka. En ég skal ekki spá um afkomu sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar sem hv. 1. þm. Reykv. gerði sérstaklega að umræðuefni. Ég vil þó geta þess, að verðþróun hefur verið mjög hagstæð, ákaflega hagstæð núna seinustu vikur. Það er búið að gera óvenjustóra og góða samninga um sölu á bæði skreið og saltfiski á þessu ári og verðið allmiklu hærra en áður var. T. d. var gerður mjög stór samningur núna á dögunum um sölu á saltfiski og verðið er 20% hærra en það var áður í erlendum gjaldeyri. Til viðbótar við þetta kemur styrking dollarans, þannig að afkoma skreiðarvinnslu og saltfisksvinnslu er áreiðanlega mjög góð um þessar mundir, það er mín skoðun.

Það hafa ekki orðið hækkanir á freðfiski í Bandaríkjunum, hvorki á flökum né blokkinni. Nú er svo komið að það er vaxandi verkun bæði í skreið og saltfisk, og mér er kunnugt um að það veldur þeim nokkrum áhyggjum sem hafa með að gera sölu á sjávarafurðum til Bandaríkjanna. Ég var að vonast til þess, að minna framboð þangað mundi leiða til verðhækkana. Þó er því miður ekki hægt að skýra frá því nú, að það sé á næsta leiti. En það kann að fara svo, að þeir, sem vinna úr blokkinni, t. d. í Bandaríkjunum, sjái sig tilneydda að hækka verðið til þess að fá yfirleitt hráefni til þess að keppa við þá sem verka í skreið og saltfisk. Ég er því frekar að vonast til þess, að ekki líði ákaflega langur tími þangað til verð hækkar t. d. á blokkinni.

Hv. þm. kom inn á vaxtapólitíkina og um það mætti tala langt mál. Ég vildi þó aðeins nefna það, að afkoma bankakerfisins í landinu, bæði Seðlabankans og viðskiptabankanna, var tiltölulega mjög hagstæð á seinasta ári, hagstæðari en hún hefur verið um mörg ár, bæði hvað snertir afkomu og einnig hvað snertir ráðstöfunarfé. Innlánsaukningin í bönkunum var um 66% á sama tíma sem útlánsaukningin var um 55%, þannig að ráðstöfunarfé bankakerfisins hefur aukist. Þetta þýðir það, að þarna er eitthvert svigrúm til þess að hafa í huga þegar vaxtapólitíkin er ákveðin.

Hv. þm. gat þess, að sjútvrh. hefði sagt að vísitalan mætti ekki verða hærri en 8%, og hann bætti við: án tillits til framfærslukostnaðar. Þetta hefur sjútvrh. ekki sagt. Hann hefur gert sér grein fyrir því, eins og margsinnis hefur verið tekið fram af hálfu okkar framsóknarmanna, að það þurfi að fylgjast að helstu þættir verðlagsins í sambandi við það að vinna að hjöðnun verðbólgu. Og við höfum þá talið þar í flokki verðlagið sjálft, bæði á vörum og þjónustu, verðlag á landbúnaðatvörum, fiskverð, verðbætur á laun, vexti og gengispólitík. Þetta eru þeir þættir sem við höfum sérstaklega lagt áherslu á að þyrftu að fylgjast að í sambandi við niðurfærslu verðbólgunnar. Og það er á þeim nótum sem hæstv. sjútvrh. hefur talað.

Þá kom hv. þm. nokkuð inn á stöðuna almennt í efnahagsmálum og vil ég víkja að því nokkrum orðum. Það verður að segja það eins og er, að þrátt fyrir óðaverðbólgu, sem hefur verið í landinu, og þrátt fyrir olíukreppu, sem hefur bitnað mjög á okkar efnahagskerfi, þá er staða íslenska efnahagskerfisins í sumum greinum furðanlega góð. Ég vil fyrst víkja að ríkisfjármálunum. Staðan í ríkisfjármálunum í þrengri merkingu er alveg þolanleg að mínu mati og miklu betri en hjá mörgum nágrannaþjóðum okkar, jafnvel ríkum þjóðum eins og t. d. Svíum, svo að dæmi sé tekið. Ef við lítum á útflutningsverslunina á seinasta ári, þá kemur í ljós að utanríkisviðskiptin einkenndust af því, að útflutningur vöru var meiri en innflutningur vöru og munurinn á þessu var um 11 milljarðar gkr. Hins vegar var þjónustujöfnuðurinn óhagstæður á seinasta ári og fyrir því voru fyrst og fremst ákveðnar ástæður. Það var í fyrsta lagi sú ástæða, að vextir hækkuðu gífurlega mikið á alþjóðamörkuðum á seinasta ári og þetta hafði veruleg áhrif á okkar þjónustujöfnuð. Í öðru lagi var um mjög mikla erfiðleika að ræða í flugsamgöngunum við útlönd, sem einnig hafði mikil áhrif í þessum efnum. En eigi að síður varð útkoman sú, að viðskiptajöfnuðurinn var óhagstæður um 2.4% af þjóðarframleiðslu, sem er sannanlega ekki mikið borið saman við flestar þjóðir í kringum okkur, flestar nágrannaþjóðir og flestar þær þjóðir sem við skiptum við, sem búa margar hverjar við mikinn viðskiptahalla. Og álitið er að viðskiptahallinn á þessu ári verði svipað hlutfall af þjóðarframleiðslu og var á seinasta ári. Þjóðarframleiðslan jókst á seinasta ári um 2.5%. Því er spáð nú, að hún muni standa í stað á þessu ári, og það er slæmt, það viðurkenni ég. En þess ber að geta, að í októbermánuði s. l. töldu menn að þjóðarframleiðslan mundi ekki vaxa nema um 1% á seinasta ári: Þetta gerbreyttist á seinustu mánuðunum og það urðu 2.5% þegar upp var staðið. Við skulum vona að eitthvað svipað gerist á yfirstandandi ári.

Peningamálin eru býsna gildur þáttur efnahagsmála og mjög þýðingarmikið að efla peningalegan sparnað og skapa jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar lánsfjár. Ég gerði grein fyrir því áður, að staða bankakerfisins hefði styrkst á seinasta ári, bæði hvað afkomu snertir og einnig varðandi ráðstöfunarfé. Síðan vil ég nefna það, að okkur Íslendingum hefur tekist að halda uppi fullri atvinnu fram að þessu, sem er meira en flestar þjóðir í kringum okkur geta státað af, og það er ekki svo lítill þáttur í okkar þjóðarbúskap, kannske sá þýðingarmesti þegar allt kemur til alls. En þrátt fyrir þetta, þó að ýmsir þættir efnahagsmálanna hafi staðið furðanlega vel miðað við aðstæður um s. l. áramót, þá skal ég á engan hátt draga úr þeim erfiðleikum og þeim hættum sem fram undan eru í efnahagsmálum ef ekki er rétt stýrt og stefnt. Og ég vil endurtaka það, að ég álít að þær aðgerðir, sem gerðar voru um áramótin, hafi verið gífurlega þýðingarmiklar, en nái ekki tilgangi sínum til fulls nema þeim verði fylgt eftir með frekari ráðstöfunum á árinu, eins og gert er ráð fyrir í efnahagsáætlun ríkisstj.

Það kunna að hafa verið fleiri atriði, sem hv. 1. þm. Reykv. drap á í sínu máli, en ein,s og ég gat um í upphafi kom ég því ekki við að heyra alla ræðu hans. (Gripið fram í.) Í sambandi við vísitöluna? Í sambandi við vísitöluútreikninginn 1. maí? Þessi málefni, sem varða ákvarðanatöku í efnahagsmálum á vegum ríkisstj. og ég hef skýrt frá að eru í vinnslu og ekki komin á það stig að menn hafi tekið ákvarðanir, þetta atriði er eitt af þeim sem til álita koma í þessum efnum. Verðlagið á landbúnaðarvörum er eitt af þeim atriðum sem koma til álita í þessari glímu við verðbólguna. (GH: Ríkisstj. hefur sem sagt ekki hugsað fyrir neinu eftir 1. maí?) Jú, jú, ríkisstj. hefur hugsað fyrir ýmsu eftir 1. maí, en hún er ekki fær um það núna að skýra frá því hvað hún hyggst fyrir, hún er ekki fær um það, eins og ég hef margskýrt hér frá. Hún er að taka sólarhæðina, hún er að gera sér grein fyrir því, hvernig staðan er, og þegar hún hefur það fyrir framan sig hvernig staðan er í efnahagsmálunum, hvernig þróunin hefur verið síðan um áramótin, þá fyrst er hún í færum að taka ákvarðanir um framhaldið.

Ég vil segja það, að efnahagsaðgerðum ríkisstj. um áramótin hefur verið vel tekið af þjóðinni, nema Morgunblaðinu og kannske Alþýðublaðinu. Ég er á þeirri skoðun, að t. d. Morgunblaðið hefði átt að snúa sér dálítið öðruvísi í því máli, vegna þess að hvað sem um þessi mál má segja, um þau má deila að sjálfsögðu, þá er það staðreynd, að ef ekki hefði verið gripið til — ég vil segja hastarlegra aðgerða um áramótin, þá hefði verðbólgan sennilega siglt upp í 70–80% á þessu ári. En ég held að það sé viðurkennt af öllum nú, að verðbólgan verði miklu minni. Eigi að síður álít ég að það þurfi að fylgja þessum aðgerðum eftir til þess að ná því marki sem menn hafa samið um og sett sér.