26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3102 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár, er eftirfarandi:

Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins s. l. þriðjudag og í forsíðugreinum í dagblaðinu Þjóðviljanum miðvikudag og aftur í dag er fjallað um svonefnt flugstöðvarmál. Í þessum blöðum er því haldið fram í fyrsta lagi, að 18. júlí árið 1979 hafi fyrrv. utanrrh., Benedikt Gröndal, undirritað samkomulag fyrir hönd ríkisstj. þar sem m. a. er kveðið á um framlag Bandaríkjastjórnar til flugstöðvarbyggingarinnar. Í forsíðugreinum Þjóðviljans er því í annan stað haldið fram, að sú kvöð fylgi þessu samkomulagi, að Íslendingar hafi skuldbundið sig til að afhenda bandarískum hernaðaryfirvöldum umrædda byggingu, eins og þar segir, „100% á óvissutímum“. Í þriðja lagi er sú ályktun dregin í blaðinu Þjóðviljanum af þessu, að fyrrv. utanrrh. hafi farið á bak við þáv. ríkisstj. og Alþingi í þessu máli ef rétt reynist.

Nú vil ég vekja athygli á því, að hér er um mikilvægt mál að ræða og býsna alvarlegar ásakanir. Þá er þess að geta, að fyrrv. utanrrh. er fjarstaddur í opinberum erindagerðum, þar sem hann situr hafréttarráðstefnu í New York um þessar mundir, og á þess ekki kost að bera hönd fyrir höfuð sér. Nú þykjumst við flokksbræður hans vita að hér sé hallað réttu máli. Við viljum ekki una því, að hann sé að ósekju borinn slíkum sökum. En við eigum ekki annarra kosta völ en vísa því til réttra aðila hér á landi, þ. e. hæstv. utanrrh., að hann upplýsi þing og þjóð um hverjar séu staðreyndir þessa máls.

Ég skal taka það fram, að ég hef haft símasamband við Benedikt Gröndal og leitað eftir því að fá frá honum upplýsingar um málið og vil gera í stuttu máli grein fyrir þeim. Það, sem við vitum sannast og réttast um þetta mál, er eftirfarandi:

Samkomulag um aðild Bandaríkjastjórnar að umræddri flugstöðvarbyggingu var gert í maímánuði árið 1978, í ríkisstjórnartíð Geirs Hallgrímssonar, en í utanríkisráðherratíð Einars Ágústssonar. Í því samkomulagi var ekki kveðið á um hver skyldi vera hlutdeild Bandaríkjamanna í umræddri byggingu. Þetta er ekkert leyndarmál, heldur liggur það fyrir í opinberri skýrslu. Þar vitna ég til skýrslu utanrrh. um flugstöðvarbyggingu á Keflavíkurflugvelli sem lögð var fram af utanrrh. Benedikt Gröndal í okt. 1979. Þar segir, með leyfi forseta:

„Haustið 1977 fór utanrrh. til Washington og ræddi m. a. um þetta mál við ýmsa ráðamenn. Þá kom upp sú hugmynd, að öðru máli skipti um flugstöðvarbygginguna, ef hún gegndi jafnframt því hlutverki að vera til taks sem sjúkrahús og í almannavarnaskyni ef til þyrfti að taka á Keflavíkurflugvelli.

Þessa hugmynd bar utanrrh. undir þáv. ríkisstj. og var á hana fallist. Var nú enn fjallað um málið og í byrjun maí tilkynnti sendiherra Bandaríkjanna í Reykjavík ráðh., að Bandaríkin væru reiðubúin að taka þátt í fjármögnun flugstöðvarinnar á fyrrgreindum forsendum. Var ríkisstj. skýrt frá þessari niðurstöðu.“

Þar segir einnig, með leyfi forseta:

„Þannig stóðu mál, er núv. ríkisstj. kom til valda“ — þ. e. ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, haustið 1978. — „Fyrrv. stjórn hafði ákveðið að ráðast í byggingu flugstöðvarinnar á þeim grundvelli, sem hér hefur verið lýst.“

Að því er varðar vitnisburð bandarísks aðmíráls, sem vitnað er til í umræddum blöðum, um að samkomulag hafi verið gert er feli í sér nýjar kvaðir varðandi umrædda byggingu og notkun hennar, þá skal það upplýst eftir okkar bestu vitneskju hvað hér um ræðir. Hér er vitnað til samkomulags frá 18. júlí árið 1979. Hér mun vera um að ræða staðfesta fundargerð, sem bókuð var að loknum sameiginlegum fundi byggingarnefndar hinna íslensku byggingaraðila og verkfræðideildar Bandaríkjahers. Þessi fundargerð er undirrituð af embættismönnum, þ. e. ráðuneytisstjóra og sendiherra Bandaríkjanna, en ekki af utanrrh. Hún er því ekkert samkomulag þó að að sjálfsögðu sé hún á ábyrgð utanrrh.

Efnisatriði þessarar bókunar eða fundargerðar munu vera fjögur, eftir því sem okkur er kunnugt um: Í fyrsta lagi mun þar hafa verið lögð fram endurskoðuð kostnaðaráætlun varðandi bygginguna og kveðið á um hlutdeild Bandaríkjanna með þeim orðum að hún skyldi nema allt að 20 millj. dollara. Annað atriði fundargerðarinnar er fyrirvari sem settur er fram af hálfu bandarískra aðila um að þessi fjárframlög séu háð samþykki Bandaríkjaþings. Þriðja atriðið er að hinir íslensku embættismenn lýsa sig fylgjandi því, að Íslendingar taki á sig kostnað af umræddri byggingu, sem verður umfram 20 millj. bandaríkjadali. Þó er kveðið skýrt á um það, orðrétt eftir því sem við best vitum, að þessi tillaga sé með fyrirvara um samþykki Alþingis og fjvn. Í fjórða atriði umræddrar fundargerðar er vísað í vinnuplagg um þetta mál, sem muni vera í fórum utanrrn., þar sem fjallað er um afnot varnarliðsins af byggingunni, ef til kemur, og það skilgreint með eftirfarandi orðum á ensku: In times of war or emergency — m. ö. o.: ef styrjöld brýst út eða neyðarástand ríkir. Í því efni er vitnað til ákvæða varnarsamnings milli Lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna og enn fremur til ákvæða Norður-Atlantshafssáttmálans, þar sem mun vera átt við að slíku neyðarástandi verður ekki yfirlýst nema með samþykki allra aðildarríkja eða ríkisstjórna bandalagsins. M. ö. o.: Ef til kemur að byggingin verði notuð með þessum hætti á styrjaldartímum gerist það ekki nema með samþykki íslensku ríkisstj. Slíku neyðarástandi hefur aldrei verið lýst í sögu bandalagsins, eftir því sem okkur er kunnugt um.

Niðurstaða máls míns er þá í stuttu máli þessi, herra forseti:

Samkomulag um aðild Bandaríkjamanna að flugstöðvarbyggingunni og afnot á styrjaldartímum var staðfest í maímánuði árið 1977, þ. e. í utanríkisráðherratíð Einars Ágústssonar. Það byggist á ákvæðum varnarsamningsins og Atlantshafssáttmálans og er háð samþykki íslenskra stjórnvalda. Upplýsingar um þetta hafa þegar verið lagðar fram á Alþingi í skýrslu utanrrh., sem vitnað var til áðan. Hér er því ekki um að ræða neinar nýjar uppljóstranir. Það liggur skjalfest fyrir í umræddri skýrslu, sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Eftir því sem við best vitum hefur þar engu verið haldið leyndu.

Að því er varðar fundargerð frá 18. júlí, sem umrædd blöð vitna til, er hún í fyrsta lagi undirrituð af embættismönnum, en í öðru lagi felur hún ekki í sér, eftir því sem best verður séð, neinar nýjar skuldbindingar eða kvaðir og þar að auki — og það er meginatriði málsins — er staðfesting hennar háð samþykki Alþingis.

Þá kann að vakna upp sú spurning, hvers vegna þetta mál hafi ekki verið lagt fyrir Alþingi fyrr. Þá er þess að geta, að stjórnarslit urðu áður en Alþingi kom saman haustið 1979. Minnihlutastjórn Alþfl., sem sat þá næstu mánuði, taldi ekki rétt að beita sér í þessu máli.

Þannig er staða málsins nú, eftir því sem við best vitum, sú, að málið er óafgreitt. Það er í höndum núv. hæstv. utanrrh. og það bíður ákvörðunar hans um hvort eða hvenær hann telur tímabært að leggja það fram á Alþingi.

Þetta er í stórum dráttum það sem við vitum sannast og réttast í þessu máli. Ef þetta eru réttar upplýsingar er ljóst að vitnisburður hins bandaríska flotaforingja og ályktanir dagblaðsins Þjóðviljans, sem af honum eru dregnar, fá ekki staðist.

Eins og ég sagði í upphafi er Benedikt Gröndal fjarverandi og hefur ekki haft aðgang að nauðsynlegum gögnum til stuðnings sínu máli. Þess vegna er óhjákvæmilegt að óska eftir því hér, að réttir aðilar, þ. e. núv. hæstv. utanrrh., taki af tvímæli um það, hverjar eru staðreyndir málsins. Ég vil því leyfa mér hér með, herra forseti, að beina því til hæstv. utanrrh. að hann upplýsi þing og þjóð um stöðu þessa máls og málavexti alla.