26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3106 í B-deild Alþingistíðinda. (3242)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Reykv., Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrir að hafa vakið máls á þessu máli svo og hæstv. utanrrh. fyrir skýringar hans.

Ég hygg að það hafi ekki verið í árásar- eða ávítunarskyni gert á hendur hv. þm. Benedikt Gröndal að Morgunblaðið vakti máls á því samkomulagi sem gert var vorið 1979, þótt það sé auðvitað liður í gangi málsins. Þá áttu Alþb.-menn aðild að ríkisstj. eins og nú. Alþb. menn hafa í stjórnarsamningi nefnt þetta mál — byggingu flugstöðvar — eitt allra mála er lúta að framkvæmdum í þágu varna og öryggis Íslands eða í þágu varnarliðsins. Að öðru leyti hafa Alþb.-menn ekki gert, svo kunnugt sé, opinberlega neinn fyrirvara um athafnir eða framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. Þannig standa málin, þótt ýmsum getum megi leiða að undirmálum samkv. þeim umr. sem hér hafa áður farið fram á Alþingi um leynisamninginn. Ég vil vekja athygli á þessu: Þessi framkvæmd er sú eina sem Alþb.-menn hafa skapað sér nokkra sérstöðu um. Það er athyglisvert að opinberlega mega allar framkvæmdir eiga sér stað á Keflavíkurflugvelli í þágu varnarliðsins aðrar en þessi eina. Þeir vilja hafa frekari hönd í bagga með henni, ef ég skil stjórnarsáttmálann rétt. Ég býst við því, að það sé ekki undir virðingu hv. formanns þingflokks Alþb. að staðfesta þennan skilning minn.

Ég nefni þetta vegna þess að bygging flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli er, burt séð frá því að vera sjálfsagt mál í þágu varna og öryggis Íslands, einnig að öðru leyti séríslenskt hagsmunamál í daglegu lífi okkar, þar sem um er að ræða aðalflugstöð landsins og tengsl við umheiminn. Eins og nú standa sakir er núverandi flugstöð algerlega ófullnægjandi og það þrátt fyrir minnkandi umferð um flugvöllinn, sem við vonum öll að sé tímabundið. Enn fremur er þess að gæta, að það er hagsmunamál okkar í daglegu lífi á þessu landi að sú skipting eigi sér stað sem um var samið við Bandaríkjamenn 1974, í tíð þáv. ríkisstj., að skilið verði á milli varnar- og eftirlitsstarfseminnar á Keflavíkurflugvelli og almennrar flugstarfsemi og farþegaafgreiðslu. Þess vegna er það ekki síst erindi mitt hingað í ræðustól í dag að leggja á það megináherslu, að áfram verði unnið að framkvæmd þessa máls og það verði tryggt að þeir samningar, sem tekist hafa við bandarísk stjórnvöld um eðlilega þátttöku þeirra í kostnaði við gerð þessa mannvirkis í samræmi við þann hag, sem varnastarfsemin hefur af þeim framkvæmdum, leiði til þess, að þessum framkvæmdum verði hraðað — hafnar sem fyrst og lokið sem fyrst — og mál þetta komi hér fyrir Alþingi sem allra fyrst, undirbúið vitaskuld fyrst og fremst af hæstv. utanrrh., svo að það samkomulag megi standa sem gert var 1974, 1977 og síðan með undirritun þeirrar bókunar 1979 sem hér hefur verið frá skýrt.