26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (3251)

239. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég bað um orðið þegar ég heyrði hv. frsm. lýsa þm nokkurn veginn með þeim orðum, að í opinberum veislum væri áfengi þrýst upp á menn. Ég kannast ekki við það. Það hlýtur þá að vera í þingveislunni. Ég hef ekki orðið var við það. Að minnsta kosti vona ég að hv. þm. hafi komist hjá því og veit ég að svo er, sem betur fer, því hann vill ekki neyta áfengis.

Hins vegar, af því ég er staðinn upp, vil ég taka undir það sem hann sagði um skaðsemi áfengisneyslu. Ég tek undir hvert orð sem hann sagði um það. Vitanlega ber að draga úr áfengisneyslu með öllum ráðum, en ég held að menn séu með þessu að skýla sér á bak við ráð sem skammt dugar. Sumir geta sagt að eftir höfðinu dansi limirnir, og eitthvað má vera til í því. Ég held hins vegar að ýmissa fleiri og annarra leiða beri að leita sem árangursríkari mundu verða.

Ég bendi t. d. á stuðning við samtök eins og SÁÁ, sem hafa unnið þrekvirki. Þar eru sjálfboðaliðar. Það eru áhugamenn um að stöðva áfengisneyslu. Það eru menn sem hafa af því reynslu og kunnáttu og hafa unnið gífurlega gott starf. Mér er ekki kunnugt um að þeir hafi neinn stuðning frá opinberri hálfu. Margt fleira slíkt mætti nefna. (Gripið fram í.) Hafa þeir stuðning? Ef svo er má áreiðanlega auka hann. Ég held einnig að aukin fræðsla í fjölmiðlum og fleira væri ákaflega gagnlegt í þessu sambandi. Hún hefur verið nokkur, en hana má auka.

Hins vegar vil ég segja það um þá till. sem hér liggur fyrir, að ég hef síður en svo á móti því að draga úr áfengisveitingum í opinberum veislum. Hv. frsm. upplýsti áðan að Svíar hafa ekki bannað áfengisneyslu, eins og segir í grg. hér, heldur hafa Svíar stöðvað veitingu sterkra drykkja, og það er töluvert annað. — Satt að segja hélt ég að menn hefðu gott af því að fá sér glas af góðu víni með góðum mat. Það er til að bæta. Og ég vil eindregið benda þeim mönnum, sem ekki hafa reynt það, á að gera það. (Gripið fram í: Þeir verða þá bara magaveikir.) Ja, rauðvín er mjög gott fyrir magann líka. (Gripið fram í: Hvernig veit hv. þm. það?) Ég hef það eftir læknisfróðum mönnum að rauðvín sé eitthvað það besta sem menn fá í maga. (SvH: Þetta er rétt.) Já, þarna heyrið þið það.

Ég held að svona öfgar í þessum málum leiði okkur til einskis. Ég hygg hins vegar að mjög þarft væri að endurskoða reglur um áfengisveitingar í opinberum veislum. Hér hefur t. d. tíðkast í mörg ár að næstum því við hvern einasta ársfund, hvað sem hann heitir, er ráðh. talið skylt að bjóða til síðdegisveislu. Þetta er, a. m. k. í flestum tilfellum, ef ekki öllum, hinn mesti óþarfi. En svona hefur það verið ár eftir ár. Ég held að þarft væri að setja um veitingu áfengis í opinberum veislum reglur sem yrðu til þess að draga úr áfengisveitingum. Ég vil beina því til flm. eða þeirrar nefndar, sem þetta fær, að hún taki áskorun um slíkt inn í tillöguna.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð. Ég stóð fyrst og fremst upp til að leiðrétta það, að í opinberum veislum sé um ofneyslu áfengis að ræða. Ég hef ekki séð það. Ég kannast ekki við það og ég vildi gjarnan vita hvort hv. frsm. hefur orðið var við slíkt. Ég vil leggja áherslu á að leitað verði annarra og markvissra leiða til að draga úr almennri áfengisneyslu með þjóðinni. Ég tek undir hvert orð sem flm. sagði um skaðsemi áfengis. Ekki má láta deigan síga í baráttu gegn því.