26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (3252)

239. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það var nú mál til komið að þeir Hermannssynir yrðu sammála um eitthvað.

Ég tek undir orð hæstv. sjútvrh.: Ég hrökk við og sperrti eyrun þegar ég heyrði hv. þm. og frsm. Jón Helgason fullyrða að þrýstingi væri beitt um neyslu áfengis í opinberum veislum. Mér varð um leið hugsað til þingveislunnar og á nú helst von á að félagar mínir, hæstv. forseti í Ed. og hæstv. forseti Sþ., leggist nú á eitt, þar sem ég heyrði að hv. þm. Helgi Seljan hefur beðið um orðið. En ég neita þessu. Ég hafði enga slíka tilburði í frammi, eins og menn geta vitnað um.

Hv. þm. og frsm. Jón Helgason rifjaði það upp, að hér hefði verið rætt um það og fluttar till. um að mótuð yrði stefna hins opinbera í áfengismálum, þessum alvarlegu málum okkar, og um nauðsyn þess að draga úr áfengisneyslu í landinu. Enginn neitar því, að þetta er eitt mesta vandamál sem við eigum við að etja, og með vísun til þess er þessi þáltill. flutt, — með vísun til þess, að það þurfi að ráða bót á þessum gífurlegu vandamálum. En þá er þessi skinhelgi komin á borð alþm., að það eigi að draga úr eða — eins og segir — að hið opinbera beiti sér fyrir því, að vínveitingum verði hætt í veislum hins opinbera. Þetta hefur auðvitað engin áhrif. Það er svipað og að ætla sér að lækna krabbamein með því að hætta að tala um það. Þetta hefur auðvitað ekki nokkur minnstu áhrif. Og þeim, sem þekkja til þessara miklu raunamála, fellur allur ketill í eld, þeim dettur ekki í hug að alþm. sé alvara í hug að leggja lið sitt til að reyna að vinna bug á vandamálinu með slíkum og þvílíkum tilþrifum.

Svo er vitnað í Svía. Það hefur engin áhrif á mig. Að vitna í Svía hefur jafnvel alveg þveröfug áhrif á mig. Þar kom það fram, að þeir séu hættir að veita sterka drykki með mat. Hvar á þá að draga mörkin? Ég get tekið undir með hæstv. sjútvrh., að út af fyrir sig er það athugandi. Eins er um þessi boð um og upp úr hádegi með sterkum drykkjum, það má leggja þau af. En að kalla þetta eitthvert fordæmi og eitthvert framtak í baráttunni við þetta geigvænlega vandamál er ekkert nema yfirdrepsskapur, ekki nokkur skapaður hrærandi hlutur annar.

Við ættum að taka til höndum. Það bíða þarna verkefni sem ýmsir áhugamannahópar eru að vinna að og við getum stutt miklu, miklu betur en við höfum gert hingað til. Á það þarf að leggja áherslu.

Menn hafa auðvitað beinbrotið sig og orðið lamaðir vegna áfengis þar sem slys hefur borið að höndum, en það hefur líka hent menn ódrukkna í baðinu heima hjá sér. Og ég veit ekki hvort það er sérstaklega í veislum hins opinbera sem menn hafi hlotið örkumlin mest. Ég er ekki að draga dár að þessu. Hvað eina, sem gert er til þess að ráða bót á þessu geigvænlega vandamáli, er af hinu góða. En ég hygg að þetta verði ekki skilið á þann veg, enda engin áhrif sem þetta muni hafa.

Ég álít að sú nefnd, sem fær þetta til athugunar, ætti að athuga vandlega hvort ekki mætti breyta till. á þann veg að viðhlítandi væri, þannig að menn fari ekki að teygja þetta og toga og skopast að hv. þingheimi, eins og þessi till. eins og hún nú er úr garði gerð gefur vissulega tilefni til.