26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

239. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Till. þessi til þál. um afnám vínveitinga á vegum ríkisins er flutt af tíu hv. alþm. Hún gengur út á það, að skorað sé á ríkisstj. að hætta vínveitingum í veislum sínum. Eins og allir hljóta að sjá er hér aðeins snert við einum litlum þætti hins mikla og geigvænlega áfengisvandamáls.

Ekki virðast hv. alþm. hingað til hafa verið sérstaklega áfjáðir í að samþykkja till. af þessu tagi, ef marka má upphaf grg., þar sem tekið er fram að till. svipaðs efnis eða samhljóða þessari hafi verið flutt á 93. löggjafarþingi og síðan endurflutt á tveimur næstu þingum, en náði þá ekki samþykki Alþingis. Það er því gott að þetta mál, þetta geigvænlega vandamál, sem allir virðast sammála um, komi enn einu sinni á borð alþm. svo þeim gefist tækifæri til að tjá sig um þessi efni.

Já, ég sagði að þessi till. snerti ekki við nema einum þætti þessa stóra vandamáls. Það má vel vera að hún gæti orðið til góðs, en þó skal ég ekki um það fullyrða, a. m. k. þarf að athuga þessi vandamál út frá miklu víðara sjónarhorni.

Það er talað um að lítið sé gert í þessum málum, og sannarlega eru það ekki stórtíðindi þó ég greini frá því, að þau séu til athugunar, m. a. í mínu ráðuneyti. En ég er þó ekki viss um að það hafi oft verið unnið meira að því að laga eitthvað til í þessum málum en nú er gert. Á ég þar ekki síst við hina fjölmennu hópa áhugamanna sem vinna að þessum málum sem betur fer með þeim besta árangri sem ég hef hingað til kynnst. Ég held mér sé óhætt að segja það. Ég get t. d. bent á starfsemi Samtaka áhugamanna um áfengisvarnir sem nú reka a. m. k. þrjú hæli eða heimili í þessu skyni, á Silungapolli, í Sogni og á s. l. hausti var húsmæðraskólinn á Staðarfelli í Dölum tekinn til þessara nota, þ. e. að SÁÁ-fólki gæfist þar kostur á að taka áfengissjúklinga til dvalar langan tíma eða til framhaldsmeðferðar. Þar hafa frá því í desembermánuði dvalist, að ég ætla, tugir vistmanna og ég get fullyrt að þessari starfsemi er tekið vel af þeim sem þar búa í nágrenninu og hún hefur gengið mjög vel. Þetta er mjög áhugavert og ég vona að á þessu verði framhald.

En því er ekki að neita, að í þessu máli þarf að taka mun betur á, því ég álít að áfengisvandamálið, að viðbættu fíkniefnavandamálinu, sé tvímælalaust eitt stærsta vandamál þjóðarinnar um þessar mundir. — Þó að við því væri spornað, að starfsmönnum ríkisins væri fjölgað mikið við gerð síðustu fjárlaga og athugun á fjárhagshorfum ríkisins, þá vil ég þó nefna að bætt var við lögreglumönnum í rannsóknardeild lögreglustjóra í Reykjavík sem fæst við rannsóknir fíkniefnamála, og yfir þá deild var settur löglærður fulltrúi til að greiða fyrir rannsókn mála og leiðbeina lögreglumönnum á því sviði.

Ég vil sérstaklega geta þess sem gert hefur verið í þessu skyni, þó að ég telji að enn þá meira þurfi að vinna í þessum málum. Og ég fagna því, að hv. alþm. skuli láta í ljós áhuga sinn á þessum efnum.