26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3115 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

239. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa ánægju minni yfir því að hér verða þetta miklar umr. um það mál sem hér er á dagskrá. Ég hef nefnilega áður setið á þingi þegar áfengismál hefur borið á góma og yfirleitt hefur verið mjög hljótt um þau. Mér virtist löngum að þau væru annaðhvort gerð að feimnismáli eða gamanmáli, en auðvitað eru þau hvorugt og mjög langt frá því.

Það hvarflar ekki að mér að fyrir því ágæta fólki, sem stendur að flutningi þessarar till. um afnám vínveitingar á vegum ríkisins, vaki annað en allt það besta í þessum efnum, og það væri óréttmætt og ómaklegt mjög að saka flm. till. um skinhelgi eða hræsni á einn eða annan hátt. Þeir leggja þarna mjög mikið upp úr fordæmi stjórnmálamanna og Alþingis. Ég held að ekki sé vert að gera of lítið úr þessu fordæmi. Ég vil eindregið taka undir síðustu orð hv. síðasta ræðumanns, Helga Seljans, að það hvílir vissulega mikil skylda á alþm. Það er hárrétt hjá honum. En í fullri einlægni held ég að flm. þessarar till. séu of bjartsýnir um að þessi aðferð, sem þeir benda á, sé sú rétta. Niðurlag grg. með till., en því miður missti ég af framsögu hjá hæstv. forseta Sþ., Jóni Helgasyni, finnst mér fela í sér óskhyggju sem ég held að geri ekki gagn í þessu máli. Þar stendur:

„Framkvæmd þessarar till. gæti haft meiri áhrif til að draga úr vandanum í áfengismálum okkar heldur en fjölmennt lið lækna og lögreglu, en þær stéttir standa nú í ströngu í látlausri baráttu við afleiðingar áfengisneyslunnar, og þar við bætist það mannlega böl sem aldrei verður bætt.“

Ég er að vonast til að þetta mál verði ekki svæft í fjórða skipti hér á Alþingi. Það kemur fram að þetta er í fjórða skipti sem málið er borið fram í þessu formi: fyrst fyrir tíu árum, síðan í annað og þriðja skipti og nú í fjórða sinn. Ég verð að segja að það slær mig illa hve þetta mál kemur seint fram nú. Það eru ýmsar blikur á lofti og finnst mér, ekki síst eftir undirtektir sem það hefur fengið í þessum umræðum, að það eigi að svæfa það. Ég veit líka að það er ekki einróma vilji fyrir framkvæmd málsins eins og það liggur fyrir hérna.

Mér er nær að ætla að það, sem við ætlum að gera í þessu máli og beina til n. sem fær þetta til umfjöllunar, væri að skapa þarna mjög skýrar og ákveðnar reglur. Við stöðlum alla skapaða hluti nú á dögum. Ég held að ef það er vilji fyrir hendi sé enginn vandi að setja þarna allskýrar og fastmótaðar reglur sem ríkið færi eftir í vínveitingum. Við gætum einfaldlega, svo ég nefni eitt einstakt atriði, miðað við gestafjölda. Ákveðnum gestafjölda skal veitt ákveðið magn af víni og það skal veitt í hófi. Það skal veitt þannig að menning en ekki ómenning sé að. Þetta held ég að sé í lófa lagið þeim sem stjórna málum Alþingis að gera þannig úr garði að alþm. gætu þrátt fyrir allt gefið gott fordæmi.

Ég hjó eftir því líka, sem hv. 2. þm. Austurl., Helgi Seljan, sagði, sem er mjög sláandi í þessu máli, að þegar vínveitingar eru um hönd hafðar á vegum ríkisins má ekki gleymast, eins og oft vill, að hafa óáfengt á boðstólum. Það telst til mannasiða í umgengni við áfengi að gera ekki endilega ráð fyrir að allir vilji neyta þess. Um þverbak keyrir þegar haldið er áfengi að fólki þannig að óþægilegt er og áberandi að þurfa að hafna því og biðja um eitthvað sem ekki er áfengt.

Ég tek eftir því, að í hinni mjög svo ítarlegu till., sem hv. þm. Helgi Seljan vitnaði í áðan, borinni fram af þm. Alþfl., um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum, sem ég tel ákaflega góðra gjalda verða, ítarlega og nákvæma, er hvergi minnst á afnám vínveitinga á vegum ríkisins. Ég leitaði eftir því, því ég hef fengið þetta mál í hendur fyrir nokkru. Það er ekki minnst á að afnumdar skuli vínveitingar á vegum ríkisins. Þar stendur efst á blaði, og það hygg ég að sé meginatriðið í þeirri herferð sem nú stendur yfir og alþm. úr öllum flokkum hafa tekið þátt í, það markmið að draga úr heildarneyslu. Þetta er ekki markmið út í bláinn því að það er nú svo, að þar sem þetta hefur verið rannsakað ítarlega er augljós fylgni milli heildarneyslunnar og milli þess tjóns sem áfengisneysla í óhófi veldur. Þess vegna held ég endilega, að við eigum að koma niður á jörðina í þessu máli og reyna að skapa fordæmi af hálfu stjórnmálamanna án þess að fara út í ystu mörk og afnema og banna áfengi á vegum ríkisins.

Hitt er svo annað mál, að það er margt í meðferð ríkisins á áfengi sem þyrfti athugunar við. Ég á þar við, sem ég veit að er á allra vitorði, að starfsmenn rn. hafa flestir aðgang að tollfrjálsu ódýru áfengi, sem almenningur er auðvitað útilokaður frá, og eftir furðulegustu leiðum, sem ég veit ekki hvaða reglur gilda um, flóir þarna vín í kringum ráðuneytin, sem af greiðasemi eða hefð er útdeilt til starfsmanna Stjórnarráðsins. Þetta er nokkuð sem við ættum að reyna að taka fyrir. En manni er jafnan svarað til: Þetta er gjarnan partur af kjaramáli þessara starfsmanna. Þeir fá uppbót á lélegum launum með því að fá svo til ókeypis brennivín. — Þarna er enn eitt skúmaskotið í kjaramálum okkar þar sem farið er bak við tjöldin eftir miður geðfelldum leiðum til að gera starfsmenn ánægða.

Ég held að skylda Alþingis í þessu máli sé að stórauka aðhald í þessum efnum, stórauka aðhald og eftirlit með vínveitingum á þess vegum. Ég verð að segja það í hreinskilni, að þegar Alþingi býður til veislu eða opinberar stofnanir, — það er ekki verið að tala um Alþingi einungis hér, heldur allar ríkisstofnanir, — og við veitum góðan mat, þá finnst mér beinlínis að það vanti nokkuð á matarveisluna ef borið er óáfengt — ja, vatn eða eitthvað óáfengt — með. Góð borðvín borin fram með góðum mat eru ekki neitt sem hægt er að hneykslast yfir eða tala um sem ómenningarlegt atriði. Hitt er svo annað mál, kokkteilarnir allir í miðdegisverðarboðum og því um líkt. Þeir mega hverfa. Við skulum draga hér úr mjög ákveðið án þess, eins og ég segi, að fara út í algert bann.

Ég hef þótt fullhlynnt boðum og bönnum í þessu efni og ég er sannfærð um að við hljótum víða að beita ströngustu hömlum til að draga úr óhóflegri áfengisneyslu. — Ég vil minna á fyrrv. dómsmrh., — það er nú einn hér að fara út úr dyrunum, Vilmundur Gylfason, — og núv. hæstv. sjútvrh. Þeir ætluðu að bæta vínmenninguna hér í Reykjavík. Það voru samþykkt lög sem miðuðu öll í frjálsræðisátt, m. a. með þeim hætti að opnunartími veitingahúsa er frjáls. Veitingarmenn mega hafa opið eins lengi og þeir vilja. Reynslan hefur í stuttu máli orðið sú að dómi allra, sem fjallað hafa um þetta mál, að árangurinn eða afleiðingarnar hafa orðið þveröfugar við það sem tilætlunin var. Ég sé að fyrrv. hæstv. dómsmrh. hristir höfuðið. Ég bið hann að leita til þeirra aðila sem þarna þekkja gerst til — til lögreglunnar í Reykjavík, til veitingamanna á veitingahúsunum, og þeim mun bera saman um að þarna var ekki farin rétta leiðin.

Ég vil þakka fyrir að þessi till. er fram komin. Ég held að við ættum að breyta henni í þá átt að við fengjum afgreitt hana frá þessu þingi. Og þetta sem ég var að tala um, um vínið á vegum rn., þarf athugunar við. Ég gæti minnst líka á forsetabrennivínið svokallaða, sem nú er búið að afnema af því að það þótti ekki viðurkvæmilegt að forsetarnir fengju forréttindi af þessu tagi. Ég veit ekki betur en forsetarnir fái sitt brennivín vel mælt núna með þeim hætti að það er einfaldlega pantað vel riflega þegar boðið er til veislu og forsetinn fær afganginn. Fari ég hér með rangt mál bið ég hæstv. forseta Alþingis að leiðrétta, en svona hefur málið verið lagt fyrir mig. Svona feluleikur bak við tjöldin gerir ekki gagn. Við skulum ganga beint framan að hlutunum og reyna að koma því til leiðar, að stjórnmálamenn og æðstu ráðamenn þjóðarinnar og Alþingi gefi þarna gott fordæmi, og höfum að leiðarljósi hófsemi og að dregið verði stórlega úr neyslu áfengis, bæði á vegum hins opinbera og úti í þjóðfélaginu, hvar sem það kæmi til á annað borð að vín væri haft um hönd.

Ég get ekki farið úr ræðustól án þess að minnast líka á annað aðalatriði í þessu máli og það er fræðsla um áfengi. Það er fræðslan um áfengi sem hið opinbera vanrækir að hafa um hönd. Það er vanrækt að framfylgja lögum, bæði fræðslulögum og áfengislögum, um lögboðna fræðslu um skaðsemi áfengis í skólum. Þarna held ég að Alþingi hafi mjög góða aðstöðu til að beita sér og sjá svo um að þarna verði betrumbætt og farið að lögum.