26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3120 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

239. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það stóð svo illa á að ég var að koma inn úr dyrunum og missti af ræðu hv. þm., en mér er sagt að lokaorðin, sem ég heyrði, hafi verið á þá leið, að á vegum ráðuneyta og ráðherra tíðkist að haldnar séu veislur og síðan séu talsverðar eftirstöðvar sem notaðar séu til annars og annað eftir því. Ég tel fjarstæðu að láta þessari umr. ljúka án þess að þessu sé harðlega mótmælt, vegna þess að þetta er ekki á þennan veg. Það er ákaflega grannt fylgst með því, hvernig háttað er meðferð áfengis sem rn. fá til sinna nota. Ég tel mig geta fullyrt að slíkt misferli á sér ekki stað, a. m. k. ekki svo að mér sé kunnugt um. Og ég held að ef slíkum fullyrðingum er haldið uppi verði menn að færa gleggri rök fyrir því — og helst sönnur — til þess að mark verði á tekið.