26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3126 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

242. mál, rannsóknir á háhitasvæðum landsins

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki miklu við að bæta ítarlega framsögu 1. flm. þessarar þáltill., en ég vil þó nota tækifærið og undirstrika og leggja sérstaka áherslu á nokkur atriði og mikilvægi till. í heild.

Ég vil einnig sem einn af flm. nota tækifærið og þakka hæstv. iðnrh. fyrir undirtektir hans við mál það sem hér er til umr.

Við leggjum höfuðáherslu á að ávallt séu fyrirliggjandi á hönnunarstigi nokkrir virkjunarstaðir á háhitasvæðum landsins. Við vitum e. t. v. með litlum fyrirvara hvenær nýtingarmöguleikar slíkra svæða kunna að koma upp. Slík nýting getur komið óvænt og nokkuð skyndilega og þá getur, eins og reyndar kemur fram í grg. með þáltill., verið of seint að bíða í 6–8 ár eftir þeim rannsóknum sem fyrir þurfa að liggja eða þarf að framkvæma áður en nýting getur hafist á svæðunum. Því er það fjármagn, sem lagt er í slíkar undirbúningsrannsóknir, nokkurs konar varasjóður að okkar áliti sem gott getur verið að gripa til þegar að nýtingu kemur og stundum nauðsynlegt, eins og með svo margt annað, að eiga varasjóð að grípa til þegar til þarf að taka.

Ákvörðun um virkjunarframkvæmdir hefur oft reynst þeim, sem hana eiga að taka, nokkuð erfið, þ. e. ríkisstj. og Alþingi, og er það auðvitað af ýmsum ástæðum. Einkum hefur þetta þó hingað til átt við um vatnsaflsvirkjanir, en slíkt getur vafalaust einnig komið upp þegar rætt er um virkjanir eða nýtingu háhitasvæða. Er lauslega bent á það í lok grg., þegar talað er m. a. um eignarhald eða eignarrétt á þessum svæðum. E. t. v. finnst ýmsum að við Þingeyingar ættum ekki að tala mikið um slík mál, það sé e. t. v. líkt því að kasta steinum úr glerhúsi ef við tölum um það, hvernig eigi að standa að virkjunarframkvæmdum. Má auðvitað í því sambandi bæði nefna Laxármálið, sem allir kannast við, og svo hvernig gengið hefur við Kröflu. En það hlýtur að vera okkar að læra af reynslunni og til þess eru að sjálfsögðu vítin að varast þau, og þess vegna teljum við að mjög nauðsynlegt sé að hafa fyrirhyggju í þessum málum ekki síður en öðrum.

Í Þingeyjarsýslu eru háhitasvæði á svokölluðu Þeistareykjasvæði, sem nefnt er hér í grg., sem lítt hafa verið rannsökuð, en hljóta að bjóða upp á ýmsa möguleika. Má í því sambandi nefna hugmyndir manna norður þar um að kannaðir verði möguleikar á því að reisa pappírsverksmiðju á Húsavík. Nú þegar hafa heyrst svör og viðbrögð ýmissa aðila, bæði í ræðu og riti, um að rannsóknum á háhitasvæðum sé lengra komið annars staðar en þarna fyrir norðan og því sé réttara að nýta þau ef reisa á slíka verksmiðju eða aðrar sem þarfnast eða geta nýtt orku frá háhitasvæðum. Má í því sambandi vitna til greinar sem prófessor Jónas Elíasson skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 21. mars s. l. og kemur einmitt inn á þessar hugmyndir, þar sem hann er að hugleiða nýtingu háhitans og talar um að háhitann þurfi að virkja. Í lok greinar sinnar segir hann svo, með leyfi forseta:

„Á Reykjanesskaga eru bestu aðstæður sem nú þekkjast til að byggja slíkar stöðvar ódýrt. Þar að auki eru góðir möguleikar á að framleiða gufu til iðnaðarnota á Reykjanesi. Þar eru loðnuverksmiðjur og frystihús, sem geta nýtt þessa gufu. Þar er landrými til að byggja verksmiðjur, t. d. er hætt við að pappírsverksmiðja sé best staðsett á Reykjanesi.“

Ef slík rök eru notuð má líkja því við það, að aldrei yrði virkjað vatnsafl annars staðar en á núverandi virkjunarsvæði Landsvirkjunar og háhiti yrði e. t. v. aldrei virkjaður annars staðar en t. d. í Svartsengi á Reykjanesi. Slík vinnubrögð hljóta að hafa mikil áhrif á uppbyggingu atvinnulífsins í landinu og verður vart við slík rök unað, heldur þess krafist að tækifærin verði nýtt sem víðast um land og þar sem þau eru fyrir hendi. Því leggjum við flm. mjög mikla áherslu á að í tíma verði unnið að rannsóknum svæðanna og nýting þeirra verði möguleg með tiltölulega litlum fyrirvara ef og þegar tækifæri gefast. Eflaust finnst einhverjum að hér sé um ótímabæra og lítt arðsama fjárfestingu að ræða, en við flm. teljum að þá sé ekki lagt rétt mat á. Ég leyfi mér aftur að vitna til þess sem gerst hefur við Kröflu og hvernig staðan væri hefði þar verið betur staðið að undirbúningi. Ég held að við getum öll verið sammála um að ef þar hefði verið betur staðið að undirbúningi hefði líka verið betri árangurs að vænta

Hæstv. iðnrh. nefndi, að slíkar rannsóknir kostuðu mikið fjármagn, og höfðaði til þeirra, sem með fjármagn og fjárveitingavald fara, að þeir þyrftu að leggja sitt af mörkum á næstu árum til að gera þessi mál að veruleika. Ég tek undir það og ég vona að þáltill. þessi fái hér góðar undirtektir og greiðan framgang í gegnum þingið og síðan framkvæmdir af hálfu hæstv. ríkisstj.