26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3132 í B-deild Alþingistíðinda. (3268)

250. mál, siglingalög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess að segja örfá orð um þessa till. til þál. um breytingu á siglingalögum. Hér er um viðkvæmt og viðamikið mál að ræða, en ekki e. t. v. jafneinfalt og sumir vilja vera láta.

Þegar skip þarfnast utanaðkomandi hjálpar er greint á milli þess, hvort skipinu er veitt aðstoð eða — þegar hjálparþörf er sérstaklega rík — hjálp telst björgun. Um björgun eru í siglingalögum sérstök ákvæði sem fela í sér rétt bjargenda til þóknunar, björgunarlauna, sem eru mun hærri en venjulegt endurgjald fyrir vinnu. Þegar björgun er innt af hendi frá öðru skipi á áhöfn þess lögvarinn hluta björgunarlaunanna. Tilgangur þessara sérreglna er sá að hvetja menn til að bjarga þegar björgunar er þörf. Er á því byggt að menn gefi sig frekar að björgun, bregðist skjótar við og leggi sig meira í framkróka við björgunarstarfið, ef til ríflegra launa er að vinna. Björgun er og oft bæði örðug og áhættusöm fyrir bjargendurna. Þeir, sem björgunarlaunin greiða, eigendur eða vátryggjendur, hefðu og orðið fyrir meira tjóni ef ekkert hefði bjargast.

Ákvæði siglingalaganna eru að stofni til frá árinu 1914 og má rekja þau til alþjóðasamþykktar um björgun sem gerð var í Brussel árið 1910. Ákvæði þessi, sem og ákvæði siglingalaganna yfirleitt, eru þannig alþjóðaregla sem tekin hefur verið upp í siglingalög einstakra ríkja. Ísland hefur ekki gerst aðili þessarar samþykktar.

Það telst björgun ef bjargað er skipi sem hefur farist eða er statt í neyð. Þannig er það skilyrði þess að um björgun teljist vera að ræða, að skip hafi verið statt í neyð, verið í hættu statt þannig að viðbúið sé að skipið hefði farist eða orðið fyrir spjöllum ef ekki hefði borist hjálp annars staðar að. Það er og skilyrði til að ákvæði siglingalaganna veiti rétt til björgunarlauna, að björgunartilraun beri árangur. Kemur þannig ekki til greiðslu björgunarlauna ef tilraunin verður árangurslaus. Þá fela reglur þessar ekki í sér rétt til björgunarlauna ef eingöngu er um að ræða björgun manna af skipi, en skip eða farmur ferst með öllu. Reglurnar byggja á því, að sá, sem hefur á hendi stjórn skips sem er í hættu, taki ákvörðun um hvort eða hver veiti aðstoð. Sá, sem tekur þátt í björgun gegn réttmætu banni stjórnandans, á því ekki rétt á björgunarlaunum.

Samkv. siglingalögum skiptir ekki máli hver er eigandi skips sem að björgun stendur. Réttur til björgunarlauna skapast þannig þótt skip sem bjargar sé eign sama aðila og skipið sem bjargað er. Siglingalög gera ekki heldur greinarmun á því, hvort um er að ræða skip í eigu ríkisvaldsins. Varðskip eða sérstök björgunarskip eiga þannig að siglingalögum sama rétt til björgunarlauna og önnur skip.

Þegar björgunarlaun eru ákveðin ber að taka tillit til þess, að hve miklu leyti björgun tókst, verklagni og atorku björgunarmanna, tíma og fyrirhafnar, hættu þeirrar sem skipið, sem bjargað var, var statt í, skipshöfn þess, farþegar eða farmur, hættu þeirrar sem björgunarmönnum og eign þeirra var stofnað í, áhættu björgunarmanna á því að verða bótaskyldir, skaða þess sem björgunarmenn hafa beðið á lífi, heilsu eða fjármunum, fjártjóns þess eða tilkostnaðar, sem þeir hafa haft, og verðmætis björgunartækja þeirra sem notuð voru, og loks hvort skipið sem bjargaði var sérstaklega útbúið til björgunar. Síðan skal taka tillit til verðmætis þess sem bjargað var. Ákvörðun björgunarlauna tekur þannig til fjölmargra atriða. Er erfitt að lýsa því, hvernig þau verða ákveðin, þar sem hvert einstakt atriði kann að verka mismunandi mikið í einstökum tilvikum.

Björgunarlaun skiptast milli þeirra sem að björgun hafa staðið. Þegar skip bjargar skiptast björgunarlaunin þannig, að fyrst er bætt það tjón sem orðið hefur við björgunina á skipinu sem bjargaði. Síðan skiptist afgangurinn milli útgerðar skipsins annars vegar og áhafnar hins vegar. Þegar um vélskip er að ræða hlýtur útgerðin 2/3, en hluti áhafnar skiptist þannig, að skipstjóri fær annan helminginn, en skipshöfnin hinn að tiltölu við kaup skipverja.

Um skiptingu björgunarlauna, þegar um er að ræða skip Landhelgisgæslunnar, eru sérákvæði í lögum um Landhelgisgæsluna. Greiðist þá 1/4 hluti björgunarlauna, að frádregnum útgjöldum vegna björgunarinnar, áhöfn í réttu hlutfalli við föst mánaðarlaun hvers og eins, en eftirstöðvarnar, 3/4 hlutar, renna í Landhelgissjóð.

Eins og áður segir gilda reglur um björgunarlaunin jafnt um skip í eigu einstaklinga og ríkisskip. Þess munu þó dæmi í erlendri löggjöf að ríkisvaldinu sé heimilt að falla frá kröfu um björgunarlaun að því er varðar hlut útgerðarinnar, en hins vegar heldur áhöfnin þá fullum rétti til björgunarlaunanna.

Í lögum um bátaábyrgðarfélög hafa staðið sérákvæði sem kveða svo á, að skip, sem tryggð eru samkv. reglu bátaábyrgðarfélaganna, fiskiskip undir 100 rúmlestum að stærð, eða af Samábyrgðinni, svo og skip sem ríkisstofnanir eða ríkissjóður gera út eða sjá um útgerð á, séu skyld til að hjálpa hvert öðru úr háska. Greiðsla fyrir slíka hjálp fer ekki eftir venjulegum björgunarreglum, heldur skal hún miðast við það fjártjón og tilkostnað sem hjálpin hefur bakað þeim sem hafa veitt hana. Ákvæði þessi eru algild sérákvæði í löggjöf, en fela í sér gagnkvæma skyldu til að veita aðstoð.

Að sjálfsögðu þarf oft að vera matsatriði hvort um er að ræða björgun eða aðstoð sem veitt er, og er ekkert óeðlilegt að aðilar hafi mismunandi skoðun á því, hver björgunarlaun skuli vera.

Tilgangur reglnanna um björgun og björgunarlaun er að hvetja menn til að gefa sig að björgun þegar hennar er þörf. Þau sjónarmið eru ríkjandi í siglingareglum meðal siglingaþjóða og hafa verið um langt árabil. Full ástæða er til að rasa ekki um ráð fram við breytingar á þeim reglum og tillögur um fráhvarf frá þeim ber að skoða með fyllstu varkárni. Það er þó rétt að upplýsa hér, að endurskoðun mun standa yfir á hinni gömlu samþykkt um björgun, frá 1910, sem kennd er við Brussel. Hefur siglingamálastjóri tekið að sér að afla upplýsinga um það, í hverju sú endurskoðun er fólgin og hvað henni miðar fram.

Í umræðum um björgunarlaun og björgun skipa hefur á ýmsan hátt, oft ómaklega, verið vikið að Landhelgisgæslunni og áhöfnum skipa hennar. Það segir sig sjálft að Landhelgisgæslan, starfsmenn hennar og tæki eru hvenær sem er til reiðu til að veita hjálp skipum og mönnum sem í háska eru stödd. Er það og ákvæði í lögum um Landhelgisgæsluna, en hlutverk hennar er að veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska eða á landi svo og að annast aðkallandi sjúkraflutninga, ýmist á eigin spýtur eða í samvinnu við Slysavarnafélagið eða aðila sem að björgunarstörfum vinna. Ekki ætti að þurfa að taka það fram, að aldrei er rætt um björgunarlaun eða endurgjald þegar um björgun manna er að ræða. Mannslíf eru ekki metin til peningaverðs við björgun og Landhelgisgæslan hefur aldrei gert kröfu til greiðslu launa fyrir að bjarga mannslífum.

Í lögum um Landhelgisgæsluna er og ákveðið að hlutverk hennar sé að aðstoða eða bjarga bátum eða skipum sem kunna að vera strönduð eða eiga í erfiðleikum á sjó við Ísland, ef þess er óskað. Hér er byggt á þeirri meginreglu, að sá, sem er bjargar þurfi, hafi forræði að björguninni.

Varðskipin og áhafnir þeirra leggja sig oft í mikla hættu er unnið er við björgun og ber sannarlega að þakka þau störf. Fyrir björgun skipa hljóta varðskipsmenn hluta af björgunarlaunum, svo sem áður sagði. Þess ber jafnframt að geta, að þegar björgunaraðgerðir verða árangurslausar eru engin björgunarlaun greidd og eru fjölmörg dæmi um slíkar aðgerðir hjá Landhelgisgæslunni.

Dæmi hafa verið nefnd um óbilgirni Landhelgisgæslunnar og varðskipsmanna í sambandi við kröfugerðir fyrir björgun. Skip eru flest verðmæt. Prósentutala af verðmæti skips verður því há að krónutölu. Það sem bjargast er þó margfalt að verðmæti. Ágreining um mat á fjárhæð björgunarlauna í einstökum tilvikum á þó að vera hægt að jafna án þess að bylta þýðingarmiklum grundvallarreglum alþjóðlegs björgunarréttar. Slíkt getur teflt í hættu öryggi sjófarenda.

Lokaorð mín að þessu sinni skulu því verða þau, að ekki verði rasað um ráð fram í þessum efnum, að kannað verði náið hvernig þessum málum er háttað meðal annarra siglingaþjóða og hver þróun er á alþjóðavettvangi, þótt sérstaða okkar sem fiskveiðiþjóðar kunni að geta skipt máli og skipti máli, og kannað verði náið viðhorf skipseigenda og útgerðarmanna sem og skipshafna til þessa máls.