04.11.1980
Neðri deild: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er stundum svo, að maður þarf að taka oftar til máls en góðu hófi gegnir ef svör ráðh. og málflutningur er með þeim hætti sem verið hefur í þessu máli.

Hæstv. sjútvrh. hefur sagt hér hvað eftir annað, bæði á fundi deildarinnar í gærkvöld og eins í tveim ræðum áðan, að samráð hafi verið haft við sjómenn. Nú hef ég talað um þetta við Ingólf Ingólfsson, fulltrúa sjómanna, og hann sagði að það væri að vísu rétt að þeir Steingrímur Hermannsson hefðu hist, en hæstv. sjútvrh. hefði ekki leitað eftir neinu og ekki nefnt neinn möguleika sem gæti leitt til samkomulags við sjómenn. Hið eina, sem hann skýrði frá, var að það væru áformaðar af hálfu ríkisstj. breytingar á olíuverðinu til samkomulags við útvegsmenn og jafnframt væri ákveðið að gengissig skyldi halda áfram. Um samráð við sjómenn var ekki að ræða, heldur einungis að þeim var tilkynnt þetta sem ófrávíkjanlegt, en hvergi komið til móts við þeirra sjónarmið. Þetta kalla ég ekki samráð. Þetta á ekkert skylt við þær hástemmdu ræður, sem uppi voru hafðar þegar ólafstög voru sett, og á ekkert skylt við þau loforð, sem verkalýðshreyfingunni hafa verið gefin hvað eftir annað af báðum þeim ráðh. sem þarna sitja, hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh.

Ég verð að segja það líka, að mér þykir nokkuð undarlegt að það skuli með engum hætti vera hægt að tosa eitt einasta orð upp úr einum einasta ráðh. um að þeir ætli að halda lög landsins í sambandi við þær efnahagsráðstafanir sem þeir hafa ákveðið, — ekki eitt einasta orð. Jafnvel þó hæstv. forsrh.fyrrv. hæstaréttardómari er ekki hægt að fá eitt einasta orð um það, að ríkisstj. hyggist standa við lög landsins og halda þau í sambandi við þær efnahagsráðstafanir sem boðaðar hafa verið og tilkynntar bæði í útvarpsumræðum og í viðtölum við blaðamenn. Það er ekki hátt risið á þessari hæstv. ríkisstj., sem hefur skert kjör alþýðunnar meira en dæmi eru til frá lýðveldisstofnun og frekari aðgerða að vænta sem allar vita í þessa sömu átt.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það við okkar ágæta vin, 4. þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, að hann reynir þó að halda á sínu máli og er hreinskilinn og segir hug sinn. Það er svolítið annað en þessir hæstv. ráðh. (Gripið fram í: Já, já.) Já, hann reynir það. (KP: Hann reynir það, já.) Það má náttúrlega meta það til drengskapar. Ég er raunar ekkert hissa á að hann skuli ekki skilja mál okkar Matthíasar í sambandi við þetta. Hann er farinn að ruglast í því, hvernig hann á að standa í sambandi við þetta og ýmislegt fleira, þar sem kúvendingarnar eru orðnar svo margar, ekki síst í þeim flokki sem hann tilheyrir. (Gripið fram í.) Hann lætur svona bara, já. Þú þekkir hann betur en ég.

Ég vildi svo aðeins ítreka í lokin að það kann ekki góðri lukku að stýra og ég vil enn vara við því, að ríkisstj. skuli enn vega í þennan sama knérunn þar sem eru sjómannasamtökin í landinu. Við munum eftir gerðardómnum sem var settur fyrir rúmu ári, og við vitum að það er hvað eftir annað búið að skerða kjör þessa hóps meira en annarra stétta, hvað sem líður hástemmdum ræðum á Sjómannadeginum.

Ég vil svo ítreka þetta enn, hvort einhver ráðh. hér treysti sér til að segja eitthvað um þetta: Er meiningin að verkalýðshreyfingin fái að fylgjast með þeim kjaraskerðingaráformum sem nú eru til umfjöllunar í ríkisstj. og hjá litla forsrh., Jóni Ormi? Er einhver von til þess, að Alþ. fái að fylgjast með þessum málum? Hvenær má vænta löggjafar um þessi mál? Verður eitthvað gert í tíma þannig að hægt sé að athuga þau mál í sambandi við það fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir þinginu?