26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3136 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

250. mál, siglingalög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Dulbúnum dylgjum síðasta hv. ræðumanns um varðskipsmenn ætla ég að láta ósvarað. Á hinu vil ég vekja athygli, að ég sagði í máli mínu ekkert einasta orð gegn till. sem hér er flutt þó að þeir fáu sjómenn, sem hér sitja á Alþingi, finni stundum óeðlilega mikið til sín þegar þeir stíga í þennan ræðustól og þykist þá tala fyrir munn allra íslenskra sjómanna eins og enginn þekki þá nema þeir.

Já, ég sagði ekki eitt orð gegn þessari till., en ég reyndi að útskýra fyrir hv. síðasta ræðumanni og öðrum þau lög sem gilda um þessi efni. Það var rétt hjá hv. ræðumanni, að til þess eru alþm. að vinna að breytingum á þeim lögum sem þeir vilja ekki una lengur. Þess vegna eru þeir ekki of góðir til að hlusta á gildandi lög. Ég álít að sá, sem vill breyta og bæta löggjöfina, verði að leggja það á sig að kynna sér hvað eru gildandi lög á hverjum tíma. Það getur vel verið að þau séu ekki öll æskileg, þurfi breytingar við, en um það gildir hið fornkveðna:

Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja, án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt.

Ég ætla svo ekki að eyða fleiri orðum að sinni á þennan hv. ræðumann. Ég er reiðubúinn að hlusta á þær raddir, sem koma fram um þessa till. og allt sem snertir þessi mál, og gera mitt til þess að bæta úr því sem betur má fara. En hitt verð ég að telja meðmæli með núv. hæstv. ríkisstj. að hún rasi ekki um ráð fram í hverju máli þó að einhver vindhviða skelli á henni.