26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3138 í B-deild Alþingistíðinda. (3272)

250. mál, siglingalög

Flm. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. gat um það, að menn mundu leggja harðar að sér ef þeir ættu von á björgunarlaunum. Ég held að þetta sé ekki rétt. Það má vera að þeir geri það þegar menn eru að reyna að ná skipum af strandstað og allur mannskapur horfinn frá borði. Ég veit ekki betur en varðskipin t. d. leggi ekki síður hart að sér við að bjarga bátum sem eru tryggðir hjá Samábyrgðinni, innan við 100 tonn, en fyrir það fá þau ekkert sérstaklega, þau fá tímakaup eða eitthvað því um líkt. Ég hef aldrei orðið var við að þau drægju af sér við að aðstoða þá frekar en skip þar sem von er í björgunarlaunum.

Hæstv. ráðh. kom inn á að þetta væri ekki einfalt mál. Það má vera að það sé ekki mjög einfalt, en þó var það ofureinfalt að setja lögin um Samábyrgðina. Þar er í eitt skipti fyrir öll sagt að það skyldi borga fyrir veitta aðstoð, borga eftir kostnaði, en alls ekki björgunarlaun. Við höfum það þannig með lóðsinn í Vestmannaeyjum, sem ég kom inn á áðan, að við erum með ákveðinn taxta þegar hann er að aðstoða skip og draga skip og annað því um líkt. Aftur á móti þegar hann fer í björgun eða aðstoð sem varðskipsmenn mundu flokka undir björgun, þá er sá tímakaupstaxti tvöfaldaður og allir eru ánægðir. Aldrei kom fram kvörtun um það frá áhöfninni á Lóðsinum að hún væri hætt að fá björgunarlaun eins og hún fékk alltaf áður. Sannleikurinn er sá, að Lóðsinn stóð aldrei undir sér nema hann lenti í einni eða tveimur björgunum á hverju ári. Það er það leiðinlega við þetta allt saman, að Landhelgisgæslan er rekin á þessum grundvelli. Það er það leiðinlega, en ekki það að áhafnirnar fái svo mikið. Þær fá ekki nema 1/4. Mér finnst vera afskaplega hvimleitt í þessu máli öllu saman að þetta skuli vera verulegur grundvöllur undir rekstri Landhelgisgæslunnar. Auðvitað þarf einhver að borga þennan kostnað allan, hvernig sem hann fellur til, og sjálfsagt eiga tryggingafélögin að borga þarna góðan hluta. En undir öllum kringumstæðum verður að breyta því þannig, að sjómenn geti beðið um þá bestu hugsanlegu aðstoð sem hægt er að fá í hverju tilviki, en það er því miður ekki hægt um þessar mundir.