26.03.1981
Sameinað þing: 66. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3139 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

250. mál, siglingalög

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka flm. fyrir að hreyfa þessu máli. Ég held að það sé þarft verk og fyllilega ástæða til að skoða þessi mál. Mín trú er sú, að það sé ásetningur þeirra aðila, sem flutt hafa þetta mál hér, að leita að farsælli leið en nú er farin þegar aðstoðar er þörf á hafinu.

Það vill svo til að ég þekki þessi mál nokkuð, en ætla ekki að fara með neina afrekaskrá. Vegna starfs míns hef ég margsinnis þurft að taka á þessum málum og þekki því nokkuð hvernig þau ganga fyrir sig. Ég hef þurft að taka ákvarðanir í samráði við skipstjóra, þegar um beina björgun og einnig margs konar aðstoð hefur verið að ræða, og leitað þá samráðs bæði við tryggingafélög og Landhelgisgæslu. Ég hef einnig gert upp eftir tjón og þekki þannig þann farveg er þau falla eftir.

Herra forseti. Ástæðan til að ég kom hér í ræðustól er m. a. að ég fagna því, að þessu máli skuli hér hreyft. Ég held að við séum menn til þess að skoða það, velta því fyrir okkur, en við breytum auðvitað engu í þessu máli bara breytinganna vegna.