30.03.1981
Efri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (3281)

258. mál, ný orkuver

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það hafa verið miklar umr. um orkumál á undanförnum vikum og mánuðum, bæði á almennum fundum, í fjölmiðlum og hér á Alþingi. Hér hefur verið flutt af sjálfstæðismönnum það mál sem nú er til umr., frv. til l. um ný orkuver. Í tengslum við þessi mál hafa svo verið fluttar tvær þáltill. í Sþ. um stefnumótun í stóriðjumálum, þ. e. till., sem sjálfstæðismenn hafa flutt þar, og önnur till. til þál. um aukningu orkufreks iðnaðar, sem Alþfl.-menn hafa flutt í Sþ. einnig.

Það má segja að á tiltölulega stuttum tíma, fáum árum, hafi skapast algerlega ný viðhorf í orkumálum. Á árinu 1979 varð gífurleg verðsprenging eins og kunnugt er á hinum almenna olíumarkaði. Það lætur nærri að olíuverð hafi um það bil þrefaldast frá ársbyrjun 1979 og fram á þennan dag, og á sjö árum hefur tunnan af hráolíu hækkað í verði úr 3 dollurum upp í 35 eins og það er nú, og því hefur verið spáð, að á næstu 4–5 árum muni hráolían hækka í verði úr 35 dölum eins og hún er í dag og upp í allt að 80 dali. Þessu hefur verið spáð af áreiðanlegum stofnunum og miðað þá við að friður haldist við Persaflóa, en hann er ótryggur eins og kunnugt er. Þar er eins og kunnugt er styrjöld og veit enginn á þessari stundu hvort hún kunni að breiðast út eða hvort hún verður takmörkuð eitthvað svipað því sem hún hefur verið fram að þessu. Í þessum málum hefur á örstuttum tíma áratug — skapast alveg gerólíkt viðhorf því sem áður var, alveg ný viðhorf, sem hljóta að kalla á ný viðbrögð og nýjar stefnumótanir í orkumálum.

Nú er það svo, að það hafa verið miklar orkuframkvæmdir hjá okkur Íslendingum á undanförnum árum, mjög miklar, bæði við að reisa raforkuver og einnig við byggingu hitaveitna víðs vegar um landið, og lán til stærstu framkvæmda á hverju ári hafa verið til orkuframkvæmda. Það má því segja að við höfum tekið við okkur í þessum málum, og það er eðlilegt að áframhald verði á þessu. En það er ekki aðeins að nýtt viðhorf í orkumálum hafi skapast á stuttum tíma, heldur eru einnig ný viðhorf í okkar atvinnumálum. Sjávarútvegur er okkar stærsti og þýðingarmesti atvinnuvegur. Okkur er það nú ljóst að hann er takmarkaður, þó að enginn efi sé á því, að hægt sé að bæta þar eitthvað við frá því sem nú er, en hann er takmarkaður vegna stærðar fiskstofnanna. Það er að vísu mikið verk óunnið á sviði sjávarútvegsins við að fullnýta sjávarfangið. Það hefur verið unnið geysilega mikið í þeim málum á undanförnum árum, en það er mikið verk óunnið. Eigi að síður er það alveg ljóst, að sjávarútvegurinn getur ekki tekið við viðbótarmannafla sem neinu nemur á næstu árum eða í fyrirsjáanlegri framtíð. Sama er að segja um landbúnaðinn. Það þarf ekki að hafa um það mörg orð, að landbúnaðurinn er á því stigi að ekki er ástæða til þess að ætla að hann taki við viðbótarvinnuafli á næstu árum eða jafnvel áratugum, þó að menn skuli aldrei segja „aldrei“ í þessum efnum. Ég geri ráð fyrir því, að þjónustuiðnaður og verslun muni haldast nokkuð í hendur hlutfallslega við fólksfjölgun í landinu. Því er alveg augljóst að það er iðnaðurinn og aftur iðnaðurinn sem verður að taka við viðbótarmannaflanum sem kemur inn á vinnumarkaðinn á næstu árum og sjálfsagt áratugum. Það hefur verið metið svo, að iðnaðurinn þyrfti að taka við allt að 10 þús. manns til viðbótar á næstu 10 árum. Það er því augljóst mál, að bæði minni, meðalstór og stærri iðnaður verður sá vettvangur sem hlýtur að taka við vaxandi vinnuafli hér á Íslandi á næstu árum og áratugum.

Og þá er komið að því máli sem hér er á dagskrá, þ. e. orkumálunum, og ég vildi fara um það nokkrum orðum. Stjórnmálaflokkarnir hafa verið að marka sínar stefnur í þessum málum. Framsfl. ályktaði í orkumálum á seinasta miðstjórnarfundi sínum sem haldinn var fyrir ári. Í þeirri ályktun er lögð áhersla á nýtingu þess mikla auðs, sem þjóðin á í fallvötnum og jarðhitasvæðum landsins, og er talið vera eitt af mikilvægustu verkefnum Íslendinga að nýta þessi verðmæti. Áherslu ber að leggja á skipulega nýtingu orkulindanna til þess að tryggja og bæta lífskjör íslensku þjóðarinnar og efla íslenska atvinnuvegi.

Miðstjórn Framsfl. lagði áherslu á eftirfarandi atriði: Að landsmönnum verði tryggð næg og örugg raforka á sambærilegu verði.

Að skipulag raforkumála verði með þeim hætti, að eitt landsfyrirtæki annist meginraforkuvinnsluna og aðalorkuflutning ásamt heildsölu til almenningsveitna og orkufreks iðnaðar.

Að markvisst verði unnið að hringtengingu aðalstofnlína. Vestfjarðalínu verði lokið í ár — ályktað var í fyrra og henni er nú lokið eins og kunnugt er — og suðausturlínu til Hafnar í Hornafirði á árinu 1981 — þ. e. á þessu ári og verður það væntanlega á komandi hausti — og hringtengingu hringinn í kringum landið þá á árinu 1983.

Flutnings- og dreifikerfi RARIK verði markvisst eflt og sveitarafvæðingu lokið í samræmi við áætlanir.

Og svo að lokum að ríkissjóður beri kostnað af félagslegum framkvæmdum í orkumálum.

Að virkjanir landsmanna verði dreifðar um landið þannig að öryggi orkuframleiðslu og orkuflutnings verði sem mest og eðlilegt tillit verði tekið til umhverfisverndar.

Undirbúningi virkjana verði þannig hagað, að samanburður á hagkvæmni nokkurra virkjana liggi fyrir hverju sinni þegar ákvörðun um næstu virkjun er tekin, og hraðað verði undirbúningi virkjana sem nú eru í sjónmáli.

Þá verði leitað allra leiða til þess að gera raforkuframleiðslu með olíu óþarfa, helst á árinu 1980–1981, var ályktað í fyrra, og í því skyni þurfi að auka Þórisvatnsmiðlun með vatnsveitum auk virkjunar gufu við Svartsengi, Bjarnarflag og Kröflu.

Stefnt verði að sem jöfnustum framkvæmdahraða við virkjanir þannig að um samfelldar framkvæmdir verði að ræða og verkþekking nýtist sem best.

Og að lokum að aukin áhersla verði lögð á virkjunarrannsóknir og gerðar áætlanir um virkjanir til aldamóta, en auk þess allt að 10 ára framkvæmdaáætlanir sem verði reglulega endurskoðaðar.

Síðan var ályktað um jarðhita, orkunýtingu, nýjungar í orkumálum og olíumálum, en ég skal ekki fara um þau mál sérstaklega fleiri orðum við þetta tækifæri.

Á miðstjórnarfundi Framsfl., sem fer fram í þessari viku, hefst n. k. föstudag, verður fjallað um og áreiðanlega ályktað um orkumál.

Ég hef áður látið þá skoðun í ljós, að á næstu 10 árum verði ráðist í að reisa þrjár virkjanir eða þrjú orkuver, og er það í sömu stefnu og frv. það til laga um ný orkuver sem hér er til umr. Þær virkjanir, sem þarna er um að ræða, eru sem sagt Jökulsá í Fljótsdal, Blanda og Sultartangavirkjun. Ég álít að það ætti að afla nú þegar heimilda Alþingis til þessara virkjunarframkvæmda, það sé ekki eftir neinu að bíða með það. Framkvæmdaröð þessara virkjana hlýtur að ráðast af þjóðhagslegri hagkvæmni, öryggissjónarmiðum og staðsetningu helstu orkukaupenda þegar um er að ræða sölu til orkufreks iðnaðar. Það er gert ráð fyrir því í stjórnarsamningi núv. ríkisstj., að næsta virkjun verði reist utan eldvirkra svæða, og er þá átt við Þjórsársvæðið að sjálfsögðu.

Ég álít að það ætti raunar sem allra fyrst að taka upp samninga um hækkað raforkuverð til Íslenska álfélagsins, og í því sambandi kemur til greina stækkun þess með samningum um íslenska eignaraðild og jafnframt íslenska meirihlutaaðild, t. d. fyrir næstu aldamót svo að einhver tímamörk séu nefnd.

Stóriðjumálin eru nátengd þessum málum og það er verulega vaxandi áhugi í landinu fyrir stærri iðnaði. T. d. í mínu kjördæmi, Austurlandskjördæmi, hafa margir aðilar ályktað um stóriðju í tengslum við virkjun Jökulsár í Fljótsdal: samtök sveitarfélaga, sveitarstjórnir, verkalýðsfélög og Alþýðusamband Austurlands og fleiri aðilar. Þess vegna held ég að það ætti sem fyrst að taka upp viðræður við erlenda aðila um möguleika á stofnun sameiginlegra fyrirtækja til framleiðslu orkufreks iðnaðar, en forsenda slíks samstarfs á að mínu mati að vera sú, að Íslendingar eigi meiri hluta í slíkum fyrirtækjum eða eignist hann á ákveðnu árabili sé um stærri fyrirtæki að ræða. Á þessu tímabili, næstu 10–12 árum, fyndist mér eðlilegt að stefna að því að koma upp orkufrekum iðnaði á Austurlandi og Norðurlandi — auk þess sem ég hef áður sagt: að stækka Grundartangaverksmiðjuna — þannig að á 10 árum, einum áratug, settu menn sér þau markmið að byggja þrjú orkuver og reisa einnig stærri iðnað, sem þó yrði sniðinn eftir vexti, og sýnist mér að það, sem ég hef rætt um hér, sé allt með þeim hætti, að það eigi ekki að þurfa að valda verulegri röskun í okkar þjóðlífi, heldur þvert á móti að styrkja atvinnulíf okkar og tryggja að viðbótarvinnuafl, sem streymir inn á vinnumarkaðinn, fái vinnu við sitt hæfi. (Gripið fram í: Er stóriðjuboðskapurinn, sem ráðh. er að flytja hér, stefna Framsfl.?) Já, ég er búinn að margtaka það fram, en hv. þm. kom nú inn í miðri ræðu. Ég var að rekja fyrst stefnu Framsfl., síðan er ég að rekja eigin skoðanir í þessum málum. (Gripið fram í: Og ber mikið þar á milli?) Nei, ég held að það beri ekki mikið þar á milli. En ég skýrði frá því áður, að á miðstjórnarfundi Framsfl., sem verður haldinn í þessari viku, verði sjálfsagt fjallað um orkumál og ályktað í þeim málum. Þá kemur í ljós hvort mikið ber á milli mín og Framsfl. (Gripið fram í.) Það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. að ókyrrast undir þessum lestri, þetta er hugsað á hærri nótum í þessu. (ÓRG: Fyrir þá sem fylgdust með deilunum um álverið í Framsfl. á sínum tíma eru þetta mjög merkilegar yfirlýsingar hjá þér.) Ja, þessar yfirlýsingar eru tengdar (ÓRG: Einu sinni var að 1. þm. Framsfl. á Austurlandi hefði þótt þetta — Forseti: Ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. hafi orðið.) Já, ég vona að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fái tækifæri til þess að tala hér á eftir í umr. og tjá sig um stefnu Framsfl. í þeim málum. Ég hélt að hann væri hættur að bera mjög mikla umhyggju fyrir henni, en einu sinni mun hann hafa gert það.

Í þessum málum öllum álít ég að menn megi ekki hugsa of smátt. Ég held að það sé varasamt eins og öllum málum er háttað. Það eru gersamlega ný viðhorf í þessum efnum, í orkumálunum, eins og ég gat um í upphafi míns máls, og það eru ný viðhorf í okkar atvinnumálum þannig að augljóst er að það þarf að fara að hugsa til þess að tryggja þjóðinni næga atvinnu í framtíðinni, en að menn sitji ekki uppi þannig að fólk verði að sækja annað í atvinnuleit. Það er kannske mergurinn málsins. Einn áratugur er talsvert langur tími og þegar menn tala um 10 ára uppbyggingu í atvinnulífinu og í orkuframkvæmdum, þá geri ég ráð fyrir að það, sem ég hef verið að ræða um hér, séu svipaðar framkvæmdir í orkumálum og hér hafa verið t. d. s. l. tvö ár. Ég hygg að það fari ekki langt frá því, svo að með tilliti til þess, að viðhorf hafa mjög breyst í þessum málum, er nauðsynlegt að menn hraði sér frekar til þess — sem er nú aðalatriðið — að tryggja örugga atvinnu í landinu fyrir vaxandi þjóð.

Að þessum málefnum hefur verið unnið mjög í iðnrn. eins og hæstv. iðnrh. hefur greint frá, og ég á von á því, að fljótlega muni hann leggja þau mál fyrir ríkisstj. þar sem þau verða rædd og metin og síðan áreiðanlega lögð fyrir Alþingi. Stærri iðnaður eða stóriðja, eins og hún er kölluð, getur náttúrlega verið af ýmsu tagi og misjafnlega stór að sjálfsögðu. Þá þarf að gæta þess að menn sníði sér nokkuð stakk eftir vexti, framkvæmdir falli að hagkerfinu og valdi ekki óþarflega mikilli þenslu. Þess sé gætt að reyna að sætta með eðlilegum hætti sjónarmið umhverfisverndar og hagnýtrar arðsemi. Úti um landið, þar sem slík uppbygging kemur til greina, þyrfti að gæta þess — eins og gert var að vísu í smáum stíl þegar álverksmiðjan var byggð — að leggja til hliðar nokkurt fé til að styrkja jaðarbyggðir, vegna þess að alltaf er hætta á því, þegar svona framkvæmdir eiga sér stað á svæðum sem eru tiltölulega strjálbyggð, að þær valdi byggðaröskun. Þess vegna þarf að huga að þeim málum jöfnum höndum.

Ef ég lít til Austurlands, þá er þar um sérstakt vandamál að ræða eins og víðar á landinu, þar sem er upphitun húsa, og gífurlega þýðingarmikið að standa þannig að orkumálum að hægt verði að nýta e. t. v, umframorku til þess að tryggja mönnum ódýra upphitun húsa með raforku og útrýma olíunni, því að ef þær spár ganga eftir að olíuverð þrefaldist í verði á næstu 5–6 árum, þá er það náttúrlega ljóst mál að útrýma verður olíunni sem orkugjafa við upphitun híbýla. Það stendur enginn undir því að kynda með olíu sem er þrefalt hærri í verði en hún er í dag, nema með stórkostlegum framlögum af hálfu hins opinbera. Þetta er einn af þeim þáttum sem reka á eftir í þessum málum.

Herra forseti. Það eru að sjálfsögðu margir aðrir þættir orkumála sem koma til álita en eru ekki beint til umr. í sambandi við þetta mál. Á ég þar við jarðhitann og raunar margt fleira. En eins og ég sagði áður ætla ég að takmarka mál mitt nú við orkuframkvæmdir á sviði raforkunnar. Ég harma það, að ekki skyldi takast að stofnastórt fyrirtæki sem hefði það verkefni að framleiða raforku fyrir landsmenn og dreifa henni milli landshluta. Ég harma það, að ekki skyldi takast að ná því máli fram. Vonandi verður það. Ég held að þær framkvæmdir, sem hér um ræðir, þ. e. að reisa þrjú orkuver af þeirri stærð sem hér er um rætt, séu þess eðlis, að langæskilegast og langeðlilegast væri að eitt fyrirtæki landsmanna stæði að þeim framkvæmdum. Það gefur auðvitað auga leið, að bygging orkuvera á Austurlandi og Norðurlandi til viðbótar við Þjórsársvæðið tryggir orkuflutninginn. Það er hægt að tengja á milli þessara svæða og tryggja orkuflutning milli landsfjórðunga með því móti, því að svona stórar framkvæmdir og fjárfrekar auðvelda að sjálfsögðu línulagnir í miklum mæli, en þær eru með fjárfrekustu framkvæmdum sem verður að ráðast í á næstu árum og áratugum. Þær lagnir, sem nú hafa verið lagðar, eru auðvitað mjög þýðingarmiklar, en betur má ef duga skal í framtíðinni. Það verður að leggja öflugri línur á milli orkuveitusvæðanna til þess að tryggja örugga raforku um allt landið.