30.03.1981
Efri deild: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3149 í B-deild Alþingistíðinda. (3282)

258. mál, ný orkuver

Egill Jónsson:

Herra forseti. Á Alþingi árið 1975 var samþykkt till. til þál. frá Sverri Hermannssyni sem fól í sér ákvörðun Alþingis um rannsókn virkjunar Jökulsár í Fljótsdal. Þessa till. hafði Sverrir Hermannsson flutt tvívegis áður á Alþingi þótt ekki kæmi fyrr til þess að hún yrði samþykkt þar. Ástæðan fyrir því var m. a. sú, að þáverandi þm. Austf. voru ekki sammála um till. og að á Austurlandi fékkst ekki heldur samhljóða álit í þessu mikilvæga máli.

Það, sem lá að baki þessum ágreiningi, var það, að í till. var auk virkjunarinnar kveðið á um að í tengslum við hana yrði komið á stóriðju við Reyðarfjörð. Því var það, að við afgreiðslu málsins á Alþingi var stóriðjuþátturinn felldur út úr till., en samþykkt að leggja til að virkjunarrannsóknum á Austurlandi skyldi hraðað. Á samþykkt þessarar till. hefur síðan grundvallast það undirbúnings- og rannsóknarstarf sem síðan hefur farið fram og leitt hefur í ljós hagkvæmni Austurlandsvirkjunar.

Við frekari umræður um þessi mál á Austurlandi var mönnum ljóst, að til þess að gera virkjun í Fljótsdal mögulega yrði til að koma markaður fyrir orkuna sem jafnframt nýttist þá til atvinnuuppbyggingar á Austurlandi. Því var það að í júnímánuði árið 1979 héldu atvinnumálanefndir Reyðarfjarðar og Eskifjarðar fund þar sem lögð var áhersla á uppbyggingu stóriðju á Reyðarfirði í tengslum við Austurlandsvirkjun. Ári síðar héldu svo sveitarstjórnirnar sameiginlegan fund um stóriðju- og virkjunarmálið. Þar var gerð samþykkt sem fór í sömu átt og hin fyrri: að stofnað yrði til stóriðju í Reyðarfirði í tengslum við Austurlandsvirkjun. Sú algjöra samstaða, er náðist á milli forustumanna þessara tveggja byggðarlaga við Reyðarfjörð, hefur í raun lagt grundvöll að allri umræðu um þessi mikilvægu mál á Austurlandi síðar.

Sameiginleg niðurstaða Austfirðinga fékkst á fundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og alþm. í ágústmánuði s. l., en þar var samþykkt með samhljóða atkvæðum að hraða bæri ákvörðun um Austurlandsvirkjun og að í tengslum við hana yrði komið á orkufrekum iðnaði á Austurlandi. Þar með var af Austfirðinga hálfu mótuð mikilvæg afstaða sem segja má að sé stefna Austurlands í þessu mikilvæga máli.

Með þessari umræðu á Austurlandi hefur hins vegar fleira áunnist. Að tilhlutan sveitarstjórna Reyðarfjarðar og Eskifjarðar fór fram athugun á helstu kostum í orkufrekum iðnaði sem helst kæmu til greina á Austurlandi og féllu að orkuvinnslu Austurlandsvirkjunar. Verkfræðistofan Hönnun vann þetta verk og skilaði um það skýrslu í júnímánuði árið 1980. Áður hafði að tilhlutan stóriðjunefndar farið fram athugun á aðstæðum til stóriðju á Reyðarfirði og nú að síðustu, eins og tilgreint var af hæstv. iðnrh., hefur að tilhlutan iðnrn. farið fram athugun á aðstæðum við Reyðarfjörð og þeim stóriðjukostum sem þar koma helst til greina.

Nokkuð hefur verið um það rætt, að stóriðja við Reyðarfjörð mundi hugsanlega hafa í för með sér röskun byggðar á Austurlandi. Vitaskuld hefur slík framkvæmd áhrif á búsetu fólks á Austurlandi, og hugsanlega getur hún leitt til röskunar byggðar þar ef ekkert væri að gert. Þess vegna hafa Austfirðingar lagt á það áherslu, að jafnframt uppbyggingu á stóriðju við Reyðarfjörð verði gert skipulegt átak í alhliða atvinnuuppbyggingu á Austurlandi, og þá sérstaklega á jaðarbyggðum þar sem atvinnulífið stendur höllum fæti.

Undir þessum kringumstæðum hafa Austfirðingar lýst yfir að þeir væru tilbúnir að takast á hendur það stóra verkefni í byggða- og samfélagsmálum sem leiðir af uppbyggingu og rekstri stóriðju á Austurlandi. Þessi afstaða hlýtur að kveða niður allar úrtölur gegn stóriðju á Austurlandi að því er byggðamál snertir, ef menn á annað borð vilja leggja trúnað á mál heimamanna þar um og treysta sveitarfélögunum til að takast á við þau viðfangsefni sem því eru samfara, að fólki fjölgi nokkuð í grennd við þau verkefni sem bundin eru orku- og iðjuframkvæmdum á Austurlandi.

Það er kannske vert að skjóta því hér inn í, að báðir þm. Alþb. á Austurlandi voru á Vopnafjarðarfundinum og hvorugur þeirra greiddi atkvæði gegn málinu þar. (Gripið fram í.) Annar greiddi þó atkvæði, en hinn sat hjá, hvort sem hann hefur þá gert það í óleyfi, það var fylgst mjög náið með því. (StJ: Höfðu þeir atkvæðisrétt á fundinum?) A. m. k. annar þeirra tók sér þann rétt, hvort sem hann hafði hann eða ekki.

Mér hefur fundist ástæða til að draga fram í dagsljósið og ræða nokkuð þá þætti þessara mála sem snúa sérstaklega að fólkinu á Austurlandi og sveitarfélögunum þar. Svo sem fram hefur komið hjá frsm. fyrir frv. okkar sjálfstæðismanna um nýjar virkjanir, hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, verður Austurlandsvirkjun stærsta virkjun sem byggð hefur verið hér á landi, nálega jafnstór og virkjanir í Soginu og við Búrfell samanlagt. Ákvörðun um slíka framkvæmd markar því tímamót og það á marga vegu. Hér væri grundvöllur lagður að mestri orkuöflun sem um getur með einni virkjunarframkvæmd hér á landi. Hér verður um stærri atvinnuuppbyggingu að ræða en fengist hefur með einni virkjun fram til þessa, og hér verður um stærsta átak að ræða í stórfelldri byggðauppbyggingu sem um getur í dreifbýli á Íslandi.

Þegar að öllu þessu er gáð verður enn ljósara hve þýðingarmikil sú samstaða er sem náðst hefur heima fyrir varðandi þau stóru mál sem hér eru á ferðinni.

Engan þarf að undra þótt nokkurs kapps gæti meðal manna þegar jafnmikilvægar og stórar ákvarðanir eru á næsta leiti eins og bygging þeirra orkuvera sem frv. um ný orkuver kveður á um. Sú mikilvæga staðreynd liggur hins vegar fyrir, að virkjun í Fljótsdal þarf í engu að hindra né tefja framkvæmdir við önnur orkuver. Mönnum verður að vera það ljóst, að markaður fyrir orkuna leggur grundvöll að þeirri virkjun og að sá markaður er ekki fyrir hendi nema til komi stór áform um að byggja upp iðnað, bæði smáan og stóran, sem greitt getur fyrir orkuna það verð sem rekstur hennar grundvallast síðan á. Þeir, sem berjast fyrir virkjun í Fljótsdal, þurfa ekki að metast á við þá sem sérstakan áhuga hafa á virkjun í Blöndu eða virkjunum á Suðurlandi. Þessar staðreyndir er ákaflega mikilvægt að menn skilji, m. a. vegna þeirrar brýnu þarfar sem þessi stóru mál hafa fyrir sem allra víðtækasta samstöðu eigi þau að komast til framkvæmda. Það er þannig mikið sannnefni að kalla virkjun Jökulsár í Fljótsdal Austurlandsvirkjun, þar sem þá orku, sem fæst við virkjun hennar, verður fyrst og fremst að hagnýta á Austurlandi, bæði til stóriðju og til almennra nota, þótt samfara notkun orkunnar á Austurlandi sé þeim ákaflega mikilvægu öryggissjónarmiðum að fullu sinnt sem felast í samtengingu orkuvera landið um kring og samkeyrslu þeirra inn á landskerfið, eftir því sem við á og þörf krefur hverju sinni.

M. a. af þessari ástæðu er það styrkleiki, en ekki veikleiki, að í frv, okkar sjálfstæðismanna um ný orkuver eru framkvæmdir ekki tímasettar né þeim stillt upp í tiltekinni framkvæmdaröð, heldur þvert á móti lögð á það rík áhersla, að nauðsynlegar forsendur til lokaákvörðunartöku fáist sem fyrst svo að hinar einstöku virkjanir tefjist ekki af þeim sökum. Það er af þessu nauðsynlega starfi sem upphaf framkvæmda við virkjanirnar hverja og eina kann að ráðast, en ekki röðun né tímasetningu í löggjöf.

Þegar sérstaklega er litið til Austurlandsvirkjunar í þessum efnum eru fordæmi fyrir hendi sem unnt er að hafa til hliðsjónar. Þegar virkjað var við Búrfell var virkjun að fullu hönnuð og framkvæmdir boðnar út áður en gengið var frá samningum um álverið í Straumsvík. Verði nú unnið jafnrösklega og með sama hætti og þá var gert er hægt að hefjast þegar í stað handa um fyrsta þátt virkjunarframkvæmda á Austurlandi, þ. e. hönnun virkjunarinnar og útboð, jafnframt því sem áhersla er lögð á að finna og meta þann stóriðjukost sem tryggt getur með orkukaupum rekstur orkuversins, miðað við hagkvæmt orkuverð til almennra nota.

Herra forseti. Ég lýk nú senn máli mínu. Hér hef ég einkum rætt þá þætti þessara mála er tengdastir eru Austurlandi, enda hefur frsm., hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson, skýrt efni frv. í ítarlegu máli. Ég tek að lokum undir lokaorð hans og undirstrika þau alveg sérstaklega, að um stór og mikilvæg mál, sem valda munu aldahvörfum í orku- og iðjumálum hér á landi, verður og á að nást sem allra víðtækust samstaða hér á Alþingi. Það er grundvöllur þess að til velfarnaðar leiði fyrir íslenska þjóð.