05.11.1980
Efri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

34. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Lagafrv. þetta, sem hér er til 1. umr., um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, er flutt til staðfestingar á brbl. nr. 67 frá 9. sept. 1980, um breyt. á lögum nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

Eins og kunnugt er var undirritaður aðalkjarasamningur milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóð 20. ágúst s.l. Samningur þessi var síðan borinn undir atkv. fétagsmanna í BSRB 4. og 5. sept. s.l. og var þar samþykktur. Í tengslum við aðalkjarasamning BSRB var gert samkomulag milti ríkisstj. og bandalagsins um nokkur félagsleg réttindamál opinberra starfsmanna. Meðal þeirra voru ákvæði um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hinn 8. sept. s.l. var svo undirritað samkomulag sama efnis við Bandalag háskólamanna.

Samkv. því samkomulagi, sem ríkisstj. gerði við BSRB og BHM um félagsleg atriði, skyldi gefa út brbl. um nokkur atriði, þ.e. um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, um breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og kjarasamninga BSRB. Hér er sem sagt einungis um að ræða einn þáttinn í þessu samkomulagi, sem lýtur að lífeyrissjóðsmálum opinberra starfsmanna.

Um einstakar greinar þessa frv. er það að segja, að í 1. gr. þess er lagt til að í stað orðanna „starfsmenn aðildarfélaga bandalagsins“ í 4. gr. laganna komi orðin: starfsmenn Bandalags háskólamanna svo og starfsmenn aðildarfélaga bandalaganna. Með þessari breytingu öðlast starfsmenn Bandalags háskólamanna og aðildarfélaga þess aðild að lífeyrissjóðnum. Starfsmenn BSRB og aðildarfélaga þess hafa um langt árabil átt aðild að sjóðnum og þykir þessi breyting nauðsynleg til samræmis.

Í 2. gr. frv. segir að stjórn sjóðsins skuli skipuð sex mönnum. Fjmrh. skipi þrjá stjórnarmenn, stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja skipi tvo stjórnarmenn og stjórn Bandalags háskólamanna skipi einn stjórnarmann. Stjórnin skipi formann úr sínum hópi til eins árs í senn. Skipunartími stjórnarmanna er þrjú ár.

Hér er um breytingu að ræða, en stjórn sjóðsins hefur fram að þessu verið skipuð þremur mönnum. Formaður sjóðsins hefur verið skipaður af Hæstarétti, annar stjórnarmaður af fjmrh. og þriðji stjórnarmaðurinn hefur verið skipaður af sjóðfélögum, en í reynd hefur hann verið tilnefndur af stjórn BSRB. Skipunartími núv. stjórnar rennur út um næstu áramót og þótti eðlilegt að ný stjórn tæki þá við. Hér er sem sagt verið að gefa Bandalagi háskólamanna kost á því að eiga aðild að sjóðsstjórninni í fullu samræmi við það, að það verður formlegur aðili að þessum sjóði. Auðvitað hafa starfsmenn innan Bandalags háskólamanna verið í þessum sjóði í reynd, en þeir hafa ekki átt formlega aðild.

Samkv. 3. gr. frv. er gert ráð fyrir þeirri breytingu, að sjóðfélagi greiði 4% af launum sínum í iðgjaldi til sjóðsins í stað 4.25% sem hefur verið fram að þessu. Þessi breyting er til samræmis við iðgjaldsskyldu í aðra lífeyrissjóði, en þar er greiðslan 4%.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir tveimur breytingum: Annars vegar að iðgjaldagreiðslutíminn lengist úr 30 árum í 32 ár og hins vegar að aldursskilyrði til inngöngu í sjóðinn lækki úr 20 árum í 16 ár. Aðildarskilyrði að sjóðnum eru að öðru leyti óbreytt þannig að sumarvinnufólk eða aðrir í tímabundnum afleysingum fá ekki aðild að sjóðnum. Þetta ákvæði, sem ótvírætt er öðrum þræði félagsmönnum BSRB og BHM til óhags, þ.e. að iðgjaldagreiðslutími skuli lengjast, verður að skoða í nánum tengslum við mestu meiri háttar breytinguna sem á þessu frv. er gerð, en hún felst í 6. gr., ákvæðinu um svonefnda 95 ára reglu. Hún er nú endurvakin sem almenn regla fyrir sjóðfélaga, en er nokkuð breytt.

Í stuttu máli má segja að efni greinarinnar sé það, að þegar sjóðfélagi hafi náð því að samanlagður lífaldur og þjónustualdur sé 95 ár og hann er orðinn 60 ára að aldri og lætur af störfum eigi hann rétt á lífeyri úr sjóðnum. Sjóðfélagi, sem notfærir sé þessa reglu, skal greiða iðgjald til sjóðsins þar til 95 ára markinu er náð. Lífeyrisréttur hans skal vera 2% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár, en þó ekki meir en 64% að náðu 95 ára markinu. Iðgjaldagreiðsluskyldan fellur niður þegar 95 ára markinu er náð. Lífeyrisrétturinn eykst um 2% fyrir hvert ár frá því að iðgjaldagreiðsluskyldu lýkur og þar til taka lífeyris hefst. Notfæri sjóðfélagi sér eigi þessa heimild áður en hann nær 64 ára aldri skal um iðgjaldagreiðslur hans og lífeyri fara eftir hinni almennu reglu um lífeyri.

Það, sem ég hef nú sagt, er sem sagt stærsta breytingin sem felst í þessu frv. Eins og menn vita var 95 ára regla af þessu tagi í gildi um tæplega hálfrar aldar skeið, en helsta breytingin á hinni gömlu 95 ára reglu, sem nú er tekin upp, er sú, að sjóðfélagi getur í engum tilvikum farið á lífeyri fyrr en hann hefur náð 60 ára aldri og hámark lífeyrisréttar að náðu 95 ára markinu verður nú 64% í stað 60% áður.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir að felld verði úr lögum skipting eftirlauna í 21 flokk frá 1.6% upp í 2% fyrir hvert iðgjaldaár. Í staðinn ávinnast 2% fyrir hvert ár hjá öllum. Ákvæðið, eins og það er nú, er reyndar orðið úrelt, en breytingin hefur gildi gagnvart nokkrum sjóðfélögum sem áunnu sér minna en 2% fyrir hvert iðgjaldagreiðsluár á árunum 1963–1970.

Í 8. gr. er gert ráð fyrir þeirri breytingu, að hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í a.m.k. 10 ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum skuli miða lífeyrinn við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því í a.m.k. 10 ár. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi í Lífeyrissjóði barnakennara um alllangt skeið.

Ákvæði þetta getur haft gildi gagnvart þeim starfsmönnum sem gegna ábyrgðarmiklum störfum, en vilja taka við léttari störfum og þá lægra launuðum, en fram að þessu hefur það þýtt að lífeyrir þeirra skertist þá einnig. Ég tel að þetta ákvæði sé vissulega mjög mikilvægt fyrir starfsmenn ríkisins, en það er engu síður mikilvægt fyrir ríkið, vegna þess að það hefur verið afskaplega óþægilegt að menn, sem kannske hafa tapað starfsorku sinni og gegna mikilvægum störfum í þjónustu ríkisins, hafa haldið dauðahaldi í þessa stöðu, þó þeir væru orðnir óhæfir til að gegna henni, vegna þess að menn hafa verið að hugsa um hver yrði lífeyrir þeirra. Hér er sem sagt opnað fyrir það, að hafi menn gegnt slíkum stöðum í 10 ár geta þeir fengið lífeyri í samræmi við það þegar lífeyrisaldri er náð, jafnvel þótt allra seinustu árin hafi þeir gegnt starfi sem hefur verið lægra launað.

Í 9. gr. frv. er einnig nýmæli, því að samkv. því skal vaktavinnufólk, þ.e. þeir sjóðfélagar sem hafa vinnutíma sem hreyfist með reglubundnum hætti, fá rétt til sérstaks viðbótarlífeyris úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, enda sé þeim skylt að greiða iðgjald af vaktaálagsgreiðslum til sjóðsins. Sama gildir reyndar einnig um næturverði og það starfsfólk sem hefur vinnuskyldu eingöngu á næturnar. Sjóðfélaginn skal greiða 4% af vaktaálagi í iðgjald og launagreiðandinn 6%. Gert er ráð fyrir að þeir sjóðfélagar, sem unnið hafa vaktavinnu á undanförnum árum, eigi rétt á að kaupa sér hinn sérstaka viðbótarlífeyrisrétt fyrir slíka vinnu, þó ekki lengra aftur í tímann en til ársbyrjunar 1974.

Hér er um ákveðið réttlætismál að ræða að því leyti, að menn hafa kannske verið vaktavinnumenn um margra áratuga skeið og þá er auðvitað óeðlilegt að eftirlaun þeirra miðist ekki við hin raunverulegu laun þeirra hvað þetta áhrærir og að fullt tillit sé tekið til þess að raunveruleg laun þeirra hafi verið þetta há vegna vaktavinnunnar.

Í 10. gr. frv. er að finna heimildarákvæði til stjórnar sjóðsins. Í þeim tilvikum, sem sjóðfélagi lætur ekki eftir sig maka, en einstæð móðir hans eða ógift systir hans eða annar ógiftur aðili hefur sannanlega annast heimili hans um árabil fyrir andlát hans, þó eigi skemur en í fimm ár, er stjórn sjóðsins heimilt að greiða hlutaðeigandi makalífeyri svo sem um ekkju eða ekkil væri að ræða. Þetta er fyrst og fremst sanngirnismál sem fallist hefur verið á. Á sama hátt er sjóðsstjórn heimilt að greiða sambýlismanni eða sambýliskonu lífeyri ef sjóðfélagi lætur eftir sig barn innan 18 ára aldurs sem hann hefur átt með hinu eftirlifandi. Einnig er sjóðsstjórn heimilað að greiða sambýliskonu eða sambýlismanni lífeyri í 24 mánuði þótt ekki sé fullnægt skilyrðum um sambúðartíma eða ef sambúðaraðili er 50% öryrki eða meira. Slík heimildarákvæði eru nú orðin allalgeng, t.d. í lögum um Lífeyrissjóð sjómanna, og gert er ráð fyrir sams konar ákvæði í frv. um söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

Að lokum er í 11. gr. frv. mjög mikilvægt ákvæði fyrir ríkissjóð, en þar er tekið upp það nýmæli að lífeyrissjóðurinn á að ávaxta a. m. k. 30% af heildarútlánum sínum í verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs í því skyni að vöxtum og verðbótum af þessum 30% heildarútlánanna verði varið til að standa undir verðtryggingu lífeyrisgreiðslna úr sjóðnum eftir því sem þessar tekjur hrökkva til. Greiðslur ríkissjóðs vegna verðtryggingar lífeyrisins munu minnka að sama skapi. Þetta má segja að sé fyrsta skrefið í því að draga úr tvöfaldri verðtryggingu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en í samkomulagi því, sem gert var bæði við BSRB og BHM og er grundvöllur þessarar lagasetningar, var gert ráð fyrir að viðræður um aðrar breytingar á ábyrgð ríkissjóðs á lífeyrisgreiðslum yrðu teknar upp þegar fyrir lægju niðurstöður af úttekt á stöðu lífeyrissjóða ríkisstarfsmanna sem tryggingafræðingur vinnur nú að.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta lagafrv., enda býst ég við að flestum sé kunnugt um efni þess og það komi þeim ekki á óvart því að þetta var mikilvægur liður í samningum ríkisins við opinbera starfsmenn. Ég læt þessi orð nægja og leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til fjh.- og viðskn.