30.03.1981
Neðri deild: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3166 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þegar sú ríkisstj., sem nú situr, varð ársgömul varð manni að orði sem kom inn í þennan þingsal og sá ráðherrana alla tíu sitja í stólunum:

Forsjá, viska og vit nær skammt,

vilji er allt sem þarf.

Skrýtið — eftir árið samt

varð ekkert þeirra starf.

Kjarni málsins er að sjálfsögðu sá, að sú ríkisstj. sem nú situr, hefur búið við slíkt meðlæti af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, að ef einhver vilji, einhver dugur hefði verið í einstökum ráðherrum til þess að takast á við þann vanda, sem við eigum nú við að glíma, mundi íslenskt þjóðfélag og íslensk þjóð vera stödd á allt öðru stigi en nú er, bæði atvinnulega og efnalega.

Ef við íhugum hvernig ástandið var þennan dag sem ríkisstj. minntist árs afmælis síns, þá gat ríkisstj. horft til baka nokkrar vikur, allmargar vikur, og rifjað það upp, að hún hefði að ástæðulausu gefið út brbl. hinn síðasta dag desembermánaðar þar sem launin voru skert í krónum talið sem svarar einum mánaðarlaunum eða meir. Þá átti Alþingi eftir að sitja allmargar vikur enn til þess tíma sem þessi kjaraskerðing átti að verða. Það voru enn allmargir dagar til þess mánaðardags sem þáv. hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson lagði fram frv. um hin frægu febrúarlög. Margföld reynsla var fyrir því, að Alþingi gat á skemmri tíma en fimm vikum komið í gegn nýjum efnahagslögum ef ríkisstj. taldi nauðsyn bera til þess.

En íhugum hvernig á því stendur, að þau skilyrði eru sett fyrir útgáfu brbl., að Alþingi sitji ekki, og ef við íhugum jafnframt að fram er tekið að óheimilt sé að gefa brbl. út nema brýna nauðsyn beri til, þá sjáum við að höfundar stjórnarskrárinnar vildu gera ráð fyrir því, að einhver stjórnskipuleg leið væri til þess að setja lög ef Alþingi hefði ekki tækifæri til þess sjálft. Það frv., sem nú er verið að tala um, fjallar í stórum dráttum um það að skerða launin fimm vikum eftir að Alþingi kom saman. Ef Alþingi leggur blessun sína yfir þetta er Alþingi um leið að leggja blessun sína yfir það, að strax og þingi verður slitið í maímánuði n. k. geti ríkisstj. gefið út brbl., ekki aðeins um að skerða launin 1. júní, heldur líka 1. sept., 1. des., 1. mars á næsta ári og aftur 1. maí, vegna þess að við erum nú með ríkisstj. sem gerir ekkert með það, hvernig stjórnarskrá okkar var hugsuð, hvernig að henni var staðið og hverjar hugmyndir menn gerðu sér um þingræðið þegar við ákváðum að taka upp það þjóðskipulag.

Á hinn bóginn er það ekki undarlegt, að Alþb. eða kommúnistar skuli eiga a. m. k. þrjá ráðherra í þeirri ríkisstj. sem gengur lengra fram í því að brjóta stjórnarskrána heldur en nokkur ríkisstj. á undan. Við minnumst þess, að leiðari var skrifaður í Þjóðviljann eftir að þessi ríkisstj. var mynduð þar sem það stóð skýrum stöfum, að Alþingi götunnar mætti ekki deyja þótt kommúnistar kæmu í ríkisstj. Samt sem áður skyldu menn vera við því búnir að henda fúleggjum í Alþingishúsið bæði í bókstaflegum skilningi og í líkingamáli.

Ég man eftir því, að þegar Ólafur Thors var forsrh. á árinu 1961 voru til umræðu í Ed. ákvæði um það að færa gengisbreytingarvaldið í hendur Seðlabankans. Og ég minnist þess, að núv. hæstv. utanrrh. flutti þá ræðu þar sem hann taldi að enga brýna nauðsyn hefði borið til þessarar sérstöku skipulagsbreytingar, ríkisstj. hefði getað látið við það sitja að breyta gengisskráningunni og látið síðan Alþingi um að færa gengisskráningarvaldið í hendur Seðlabankans, ef það þætti nauðsynlegt, þegar það kæmi saman. Ég man að núv. hæstv. utanrrh. sagði í þessu sambandi að hann efaðist um að sú löggjöf, sem þá var verið að samþykkja, af þeim sökum stæðist ef hún færi fyrir dómstóla.

Ég hef heyrt sögusagnir um að hæstv. utanrrh. hafi verið andsnúinn því ákvæði brbl. í desembermánuði sem snertir sjálfa kjaraskerðinguna og breytinguna á vísitölunni. Hann hefði hins vegar sætt sig við það, hann hefði tekið þann kostinn að láta kyrrt liggja, vafalaust vegna þess að hann sem mjög vandaður fræðimaður gerði sér grein fyrir því, að þessi hugsun stenst ekki ákvæði stjórnarskrárinnar.

Og nú, herra forseti, er komið að þeim kafla ræðu minnar, þar sem ég ætla að leiðrétta ummæli hæstv. forsrh. í útvarpinu skömmu eftir áramótin. En hann er kannske ekki viðlátinn, kannske ekki við þó að þetta sé frv. sem hann sjálfur hefur mælt fyrir. Og ég verði að sætta mig við það, að ég skuli ekki hitta á óskastundina á hverjum degi sem hæstv. forsrh. er reiðubúinn til að svara spurningum. Þess vegna mun ég ekki ætlast til þess, að hann verði svo lítillátur að koma hingað í þingsalinn, jafnvel þótt taskan væri borin fyrir hann upp tröppurnar.

Ég minnist þess, að um áramótin — og raunar líka í sambandi við brbl. um kjarnfóðurskattinn — hafa ýmsir látið ummæli falla á þá lund, að venja væri fyrir því hér á landi, að ríkisstj. gengi úr skugga um það, að þingmeirihluti væri fyrir brbl., áður en þvílík lög yrðu gefin út, ekki síst ef um meiri háttar mál væri að ræða. Þessi staðhæfing er rétt og hefur Bjarni Benediktsson rakið það mál í Úlfljóti á sínum tíma, og sú ritgerð er raunar endurprentuð í bók hans Land og lýðveldi. Sú skoðun hefur einnig hvað eftir annað komið fram í umr. á Alþingi, þannig að ljóst er að þá kröfu verður að gera til handahafa bráðabirgðalagavaldsins að hann gangi á hverjum tíma úr skugga um að það sem hann aðhefst, njóti meirihlutafylgis á Alþingi ef til kemur. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að íhuga hvernig farið hefur á síðustu tímum, þegar gerræðisfullar ríkisstjórnir hafa gripið til þess að gefa út brbl., eins og t. a. m. Ólafs Jóhannessonar, vinstri stjórnin, þegar formaður Alþb. sem nú er, hæstv. félmrh., var í fyrsta skipti ráðh. Sú ríkisstj. lét það verða sitt fyrsta verk að gefa út brbl. um það, að tekju- og eignarskattar skyldu lagðir á öðru sinni, í kjölfar þess sem niðurgreiðslur voru stórauknar á nautakjöti sem var fyrir löngu uppselt. En í gegnum þær falsanir tókst þeirri ríkisstj. að koma vísitölunni allmikið niður. Það var fyrsta verk núv. hæstv. félmrh. að falsa vísitöluna með því að hækka skatta sem ekki voru í vísitölunni, en auka um leið auðvitað álögurnar á öllum almenningi og greiða niður vörur sem ekki voru til. Það var verk þessa sama hæstv. félmrh., Svavars Gestssonar, 1. des. það ár að standa að löggjöf þar sem kaupið var áfram skert og heitið t. d. félagslegum umbótum sem voru metnar til þriggja vísitölustiga og aldrei hefur verið staðið við til fulls, heldur haldið áfram að skerða kaupið hvað eftir annað til þess að fullnægja þessu sama og þá var lofað. Og skrá, sem nú heitir efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og er enn ein dúsan handa verkalýðnum, ber því vitni, að aldrei var staðið við fyrirheitin frá því í des. 1979.

Þá var því lofað líka að lækka verulega skatta. Talað var um að sú skattalækkun ætti að nema 2% í kaupmætti. Staðreyndin varð á hinn bóginn sú, að beinir skattar á árinu 1979 hækkuðu verulega, hvernig sem það dæmi er reiknað, það skiptir engu máli, öllum tölum ber saman um að verulegar skattahækkanir hafi orðið frá árinu 1978 til 1979. Launþegar fundu upp orðið „pakkasúpu“ eftir þessa atburði alla og þykir ekki mikið til koma. Aðalefni í pakkasúpunni eru svikin loforð, og þau eru ekki bragðgóð nema fyrir þá sem gefa þau.

Síðan skulum við líta áfram fram í tímann — ja, herra forseti, þar er dálítið erfitt að tala mikið um þau skattaloforð, sem gefin hafa verið í tengslum við þetta mál, nema hæstv. fjmrh. sé við. Það er eiginlega lágmark, þegar verið er að tala um jafnviðurhlutamikla löggjöf og hér á í hlut, að fjmrh. sé viðlátinn, því hann hefur gefið út yfirlýsingu um skattamálin sem nauðsynlegt er að fá einhverjar hugmyndir um í tengslum við það mál sem hér er til umr., þar sem í efnahagsáætlun ríkisstj. er talað um að skattar verði lækkaðir sem svarar til 1.5% í kaupmætti lægri launa og meðallauna. Og nú verður fróðlegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig hann hugsi sér að ná þessum markmiðum. — Þó má kannske segja að einu gildi hvort ráðherrar séu við, því að þeir svara einföldustu spurningum helst ekki nema út úr, og allar tillögur stjórnarandstöðunnar, hversu góð sem hún er, er þýðingarlaust að bera fram á meðan þvílík ríkisstj. er við völd. Ég efast um að nokkru sinni hafi komið jafnafturhaldssöm ríkisstj. hér.

Ég saknaði þess að hv. 1. þm. Vestf. skyldi ekki óska formanni Alþb. til hamingju með það, að Alþb. væri nú í afturhaldssemi farið að taka Framsfl. fram, jafnvel þeim afturhaldssömustu í þeim flokki, eins og sagan greinir. Og hún minnir mig raunar á að þegar ég var staddur hér í flokkakynningu á þessum vetri og þar var kominn ungur Alþb.- maður til þess að skýra stefnu flokks síns, þá sagði hann það vera höfuðatriði fyrir Alþb. eins og nú standa sakir að halda óbreyttu ástandi, halda status quo, því að engu má náttúrlega breyta. Þeir þykjast standa öllum fótum í jötu, og ef þeir fá martröð er hún helst á þá lund, að fólkið fái aftur að kjósa, því að þá vita þeir að þeir munu missa alla sína bitlinga og heldur skjótlega og fljótlega. — En ég sem sagt fagna því að hæstv. fjmrh. skuli vera kominn í salinn.

Eins og ég minntist á áðan boðaði ríkisstj. það um áramótin, að skattar yrðu lækkaðir sem svaraði 1.5% í kaupmætti lægri launa og meðallauna. Nú veit ég ekki hvernig ríkisstj. reiknar þetta dæmi. Ég sé í Þjóðhagsáætlun, með leyfi hæstv. forseta, að þar stendur ein dularfull setning:

„Ráðstöfunartekjur munu hækka nokkru meir en tekjur fyrir skatta þar sem skattbyrði beinna skatta verður heldur minni en í fyrra.“

Ég hef ekki séð eða fengið í hendur hvernig þetta dæmi er gert upp. Mér er að vísu ljóst að búist er við því af Þjóðhagsstofnun, að tekjur hækki að meðaltali á þessu ári jafnvel um 50%, og jafnframt er búist við því, að verðbólgan verði á árinu 46–47%. Þó þessar tölur sýnist elskulegar varðandi tekjudæmið, þá mega menn ekki gleyma því, að eins og opinberar stofnanir reikna verðlagsdæmið út er ekki miðað við áramótin. Hin nýja vísitala, sá grunnur, er ekki tekinn á slaginu 12 á miðnætti 31. des. Þess vegna byrjaði ríkisstj. á því, þegar hún var að tala um að fólkið í landinu ætti að hjálpa sér til að koma betri stjórn á efnahagsmálin, þá byrjaði ríkisstj. á því að falsa þá nýju vísitölu sem við tók. Ég er hér um bil viss um það, að allar þær verðhækkanir, sem ákveðnar voru á gamlársdag, fyrirsjáanlegar hækkanir, sem ekki voru komnar inn í verðbólguna og voru þess vegna ekki inni í dæminu um áramótin 1980–1981, eru ekki inni í hinni nýju vísitölu og sýnir það að vísitalan er fölsuð. Og þegar verið er að tala um það, hversu lítið vísitalan hafi hækkað eða verð hafi hækkað í janúarmánuði, þá væri réttara að segja hversu lítið þetta hafi hækkað síðan einhvern tíma í janúar þangað til einhvern tíma um mánaðamótin jan. — febr., því að ekkert fæst lengur hreint og hvarvetna er reynt að hagræða sannleikanum og koma sér undan að gefa rétta mynd af ástandinu eins og það er á hverjum tíma. Ég get t. d. tekið 10% hækkunina á allri þjónustu ríkisins. Ég er sannfærður um að sú hækkun kom ekki inn í verðlagsdæmið eins og talað er um það hér í þjóðhagsáætlun yfirstandandi árs, en sleppum því.

Það liggur fyrir, að á s. l. ári hefur hækkun tekjutaxta orðið um 51%, og ef tekið er tillit til launaskriðs hefur meðalhækkun á s. l. ári, — nú er ég eingöngu að tala um atvinnutekjur, — þá hefur meðalhækkun þeirra orðið um 53%. Ef við hugsum okkur að reyna að reikna út hver sé sambærileg skattbyrði á árunum 1981 og 1980 verðum við m. ö. o. að byrja á því að ganga út frá því að hækka tekjustofninn frá 1979–1980 um 53%. Að öðrum kosti koma ekki sambærilegar tölur inn í það dæmi.

Í öðru lagi liggur það fyrir, að ríkisstj. hugsar sér að verðbólgan á þessu ári verði ekki nema um 40–45%. Þá er það spurning mín til hæstv. fjmrh., hvað hann hugsar sér að launin hækki mikið. Það er afskaplega þýðingarmikið að hafa þetta í huga þegar talað er um skattbyrði beinna skatta af ráðstöfunartekjum heimilanna. Það sjá náttúrlega allir menn, að ef launin hækka um 100% verður skattbyrðin minni ef við gefum okkur beinu skattana fyrirfram. Þá verður náttúrlega — miðað við ráðstöfunartekjur — skattbyrðin þeim mun minni sem tekjurnar hækka meira. Ef við hugsuðum okkur, að verðbólgan hefði algjörlega dottið niður um síðustu áramót, og ætluðum samt sem áður að halda óbreyttum skattstigum eins og ríkisstj. hafði þá um síðustu áramót, mundu afleiðingarnar af því verða þær, að hver einasti launamaður á Íslandi mundi verða gjaldþrota, mundi fara á höfuðið þegar nýju skattarnir kæmu. Hið sama, þó í minna mæli sé, verður auðvitað að tala um ef tekjurnar minnka. Þá verður skattbyrðin þyngri hlutfallslega.

Af þessum sökum er mjög þýðingarmikið að fá upplýsingar um það, þegar ríkisstj. hefur hugleitt hvernig hún muni auka kaupmátt launa með skattalækkunum um 1.5%, — þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að ríkisstj. upplýsi hvernig hún gerir ráð fyrir kaupgjaldsþróuninni á yfirstandandi ári.

Í öðru lagi vil ég segja það, að ef við værum búnir að taka upp staðgreiðslukerfi skatta mætti auðvitað segja að 1.5% lækkun á brúttóskatti jafngilti 1.5% kaupmáttaraukningu. En við erum alltaf að berjast við eftirágreidda skatta, og við erum stöðugt með ríkisstjórnir sem eru að reyna að falsa fyrir okkur tölur um kaupmátt. Þess vegna er nauðsynlegt að fá þetta dæmi algjörlega reiknað og einnig hitt, hvort hæstv. ríkisstj. tekur með í sínum útreikningum þá gífurlegu hækkun sem orðið hefur á eignarskatti og fasteignagjöldum vegna hækkaðs fasteignamats m. a., en það kemur vissulega inn í þetta dæmi.

Ég vil í þessu sambandi enn ítreka undrun mína á því, hvílíkum vettlingatökum svokölluð verkalýðshreyfing hefur tekið á þessum skattamálum, a. m. k. svo vitað sé. Mér er t. d. ekki kunnugt um það, að stjórn ASÍ hafi falið hagfræðingi sínum að gera úttekt á þessum málum. Mér er ekki kunnugt um að hagfræðingur ASÍ hafi reynt að átta sig á því, hver verðlags- og kaupgjaldsþróunin verði á þessu ári og hvaða leiðir yrðu til þess að ná 1.5% kaupmáttaraukningu gegnum skattalækkanir. Mér er á hinn bóginn kunnugt um að hvorki Reiknistofnun Háskólans né Þjóðhagsstofnun hefur kannað hvernig þetta dæmi yrði réttilegast reiknað. Það hefur ekki verið falið þessum aðilum, þannig að þetta mál er — svo langt sem mín vitneskja nær — enn þá á frumstigi.

Ég var að velta því fyrir mér síðustu daga og langaði til að læra af því, hvernig fyrrv. formaður Alþb., Lúðvík Jósepsson, leit á frv. eins og það sem hér er til umr. Og það vill svo vel til að hann var spurður þessa í Ríkisútvarpinu fyrir réttum þrem árum. Þá sagði hann m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hér eru sem sagt á ferðinni nákvæmlega sömu gömlu úrræðin: Gengislækkun sem leiðir af sér verðlagshækkun og aukna dýrtíð. Horfið frá gerðum kjarasamningum með þeim afleiðingum sem það hefur svo innan skamms. Ókyrrð á vinnumarkaði. Leikurinn byrjar upp aftur.

Í þessu frv., sem ríkisstj. leggur fram, felst kauplækkun sem nemur 10–12% kaupmáttarskerðingu á þessu ári frá því sem kaupmátturinn er orðinn nú í upphafi ársins, því að þó að talað sé um það, að það eigi að verða svipaður kaupmáttur eins og var að meðaltali á s. l. ári, þá voru kaupsamningarnir ekki gerðir, hinir nýju, fyrr en á miðju ári, og því liggur meðaltalskaupmáttur þessa árs langt fyrir neðan þann kaupmátt sem verið hefur nú að undanförnu. Ég tel að þessar aðgerðir séu í beinu framhaldi af þeirri alröngu stefnu sem stjórnin hefur haft í efnahagsmálum. Sú stefna hefur þýtt það, að verðbólga hefur magnast stig af stigi. Þessar aðgerðir eru þar engin breyting á. Það kveður svo rammt að, að þó að farið sé með svona grófum hætti í launin eins og þarna er gert, þá gerir ríkisstj. sjálf ekki ráð fyrir því, að meðaltalshækkun á verðlagi vegna þessara ráðstafana verði nema í kringum 3% frá því sem annars hefði orðið, ef ekkert hefði verið gert. En vitanlega leysir þetta engan vanda. Þvert á móti skapar þetta ný vandamál, einkum vegna þess að ríkisstj., sem er fyrir réttum rúmum þrem mánuðum búin að skrifa undir kjarasamning við opinbera starfsmenn, verður að rifta þeim samningi þó að ekkert hafi gerst nema til hins betra í ytri skilyrðum þjóðarbúsins. Og hún verður einnig að rifta kjarasamningum sem hún stóð að að gera á miðju s. l. ári við verkalýðsfélögin í landinu. Riftun samninga með þessum hætti þýðir það, að samtökin í landinu geta ekkert samstarf átt við ríkisstj. Það litla traust, sem verið hefur, er búið að vera. Hér er ekki hægt að stjórna efnahagsmálum auðveldlega nema það skapist eitthvert trúnaðartraust á milli launþegasamtakanna og þeirra sem stjórna landinu. Af þessu leiðir það, að eina leiðin út úr þeirri sjálfheldu, sem við erum komin í, er að losna við ríkisstj.

Nú skulum við aðeins fara aftur yfir það sem þessi fyrrv. formaður Alþb. sagði, sem naut mikils trausts innan sinna samtaka og var vaxandi maður í sínum flokki alla tíð og maður sem launþegar treystu. Hann tekur það alveg réttilega fram í fyrsta lagi, að það sé ekki von að launþegasamtökin geti treyst ríkisstj. þegar rúmir þrír mánuðir séu síðan hún hafi undirbúið kjarasamning við opinbera starfsmenn.

Nú geri ég ráð fyrir að flestir séu mér sammála um það, að á árinu 1977, þegar ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar gerði sinn samning við opinbera starfsmenn, hlaut hún að taka mið af því, að búið var að semja á hinum almenna vinnumarkaði. Ég veit ekki um einn einasta menn sem vill halda því fram í fullri alvöru, að réttlætanlegt hefði verið af þeirri ríkisstj. að meina opinberum starfsmönnum um allar launahækkanir eftir þann kjarasamning sem gerður var í júnímánuði 1977 og nefndur hefur verið sólstöðusamningurinn. Ég þekki engan mann sem heldur því fram. Þvert á móti töldu allir eðlilegt og óhjákvæmilegt að ríkisvaldið kæmi á eftir og semdi við opinbera starfsmenn um svipaðar launahækkanir og áður höfðu orðið á hinum almenna vinnumarkaði.

Þegar Lúðvík Jósepsson talar hér um að ríkisstj. hafi svikist um að standa við samninga sem hún hafi gert, þá átti sú ríkisstj. þó þá afsökun, að á hinum frjálsa vinnumarkaði hafði tónninn verið gefinn. Sú ríkisstj., sem nú situr, á aftur á móti enga slíka afsökun. Það lá algjörlega fyrir þegar hún tók við völdum, að forsenda Alþb. fyrir því að setjast í ríkisstj. var að reyna á engan hátt að skerða kjarasamninga. Það var yfirlýst stefna núv. formanns Alþb., hæstv. félmrh., að torvelda á engan hátt að launþegar í landinu fengju að semja um svo og svo miklar grunnkaupshækkanir á s. l. ári.

Og ég minnist þess, að á jólaföstu — og maður hlýtur að vænta þess, að menn hagi orðum sínum varlega á jólaföstu — komst hæstv. forsrh. svo að orði efnislega, að samningarnir við BSRB hefðu verið innan þess ramma sem efnahagskerfið þoldi. M. ö. o.: ástæðan fyrir því, að ríkisstj. leggur nú til og hefur raunar lögfest með brbl. að skerða öll laun í landinu um 7% frá 1. mars s. l., — þetta er auðvitað afturvirkt, — ástæðan fyrir því er sú, að á hinum almenna launamarkaði réðu ferðinni menn sem voru óábyrgir, fengust ekki til að taka mið af efnahagsástandinu í landinu menn eins og formaður Verkamannasambands Íslands, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, menn eins og Benedikt Davíðsson, menn eins og Snorri Jónsson, þvílíkir menn. Þetta er sú afgreiðsla, þetta er sá kaldi sjóvettlingur sem þessir menn fá framan í sig frá þeirri ríkisstj. sem nú situr.

Auðvitað vitum við það allir sem hér erum inni, auðvitað gera launþegar í landinu sér grein fyrir því, að svo slæmt sem það er að ríkisstj. grípi inn í kjarasamninga sem gerðir eru á hinum frjálsa vinnumarkaði, og kannske eftir að ríkisstj. hefur aðvarað aðila vinnumarkaðarins um það, að þeir gangi of langt, undir slíkum kringumstæðum getur það verið nauðsynlegt að mati ríkisstj. að grípa inn í gerða kjarasamninga. En þegar tónninn er sleginn af ríkisstj. sjálfri, þegar fyrstu kjarasamningarnir eru gerðir af ríkisstj. sjálfri, og þegar eftir á liggur fyrir yfirlýsing frá forsrh. landsins um að ekki hafi verið gengið of langt í þeim samningi, þá er það náttúrlega siðleysi af versta tagi að sú hin sama ríkisstj. skuli leyfa sér að rifta samningunum áður en hálft ár er liðið, áður en misseri er liðið og áður en blekið er þornað á pappírunum. Það er vitaskuld algjörlega siðlaust, og því fremur sem við getum bæði í Alþingistíðindum og einnig í því rauða málgagni Þjóðviljanum lesið ýmislegt eftir þeim mönnum sem nú breiða sig mest út og eru allt í einu komnir með þá nýju kenningu á varirnar, að eftir því sem kaupgjaldið er skert meira í landinu aukist kaupmátturinn. Eða er t. d. hægt að skilja ummæli hæstv. félmrh. áðan öðruvísi? Þegar hann leggst gegn réttarbótum til þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, þá segir hann að það sé fyrir þá, gert þeim til góðs.

Það er eftirtektarvert, að eins og fyrrv. formaður Alþb. segir í því sem ég las upp hér áðan er náttúrlega ekki við því að búast, að launþegahreyfingin almennt geti treyst þvílíkri ríkisstj. sem nú situr, sem svífst þess ekki að skerða launin fyrirvaralaust með brbl. án nokkurs samráðs við launþegasamtökin, þrátt fyrir skýr ákvæði í lögum um hið gagnstæða. Nú hefur annar kafli svokallaðra Ólafslaga svo oft verið lesinn upp hér í þingsölunum, herra forseti, að vera má að hv. þm. kannist við efni hans. En þar er gert ráð fyrir því, að í þessu samráði sé m. a. rætt um meginþætti efnahagsmála og helstu efnahagsmarkmið ríkisstj. frá ári til árs og til lengri tíma, í því skyni að leggja grundvöll að samræmdum ákvörðunum á sviði opinberra fjármála, peninga- og lánamála, lífeyrismála og verðlagseftirlits af opinberri hálfu og á sviði kjaramála af hálfu aðila vinnumarkaðarins. Núverandi formaður Alþb. var einn þeirra manna sem fyrir páskana 1979 lögðu hvað mesta áherslu á þetta samráð og töldu að eingöngu með því að skýr ákvæði kæmu um það í lögum væri við því að búast að landinu yrði bærilega stjórnað. Hann var líka einn þeirra manna sem harðast gagnrýndu hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, þáverandi forsrh., 1978. Og hefðu menn nú getað búist við því, úr því að formaður Alþb., hæstv. félmrh., beitti sér svo mjög fyrir löggjöf um samráð við verkalýðshreyfinguna á öndverðu ári 1979, að hann mundi á ofanverðu ári 1980 hafa sóma til þess að kappkosta það samráð, a. m. k. í sama mæli og hv. 1. þm. Reykv. gerði þegar hann var forsrh. Þá var vissulega reynt eftir megni að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna, þótt hún hafi ekki þakkað fyrir það og aldrei kunnað að meta það svo vitað sé. Mun ég koma nánar að þeim þætti þess máls síðar í ræðu minni.

Enginn vafi er á því, að það, sem mest kom á óvart þegar brbl. voru sett fyrir áramótin, var að ein af forsendunum fyrir brbl. var sú, að verðbólga hefði aukist í landinu. Skömmu áður hafði hæstv. forsrh. sent út fréttatilkynningu í nafni allrar ríkisstj. þess efnis, að með markvissum aðgerðum hefði hæstv. ríkisstj. tekist að vinna bug á verðbólgunni, hún væri á hraðri niðurleið. Og öll orð á jólaföstu féllu á þá lund. Þess vegna kom mönnum mjög spánskt fyrir sjónir hvað hefði breyst frá því að þing fór heim rétt fyrir Þorláksmessu fram að áramótum. Og ef skoðuð er þjóðhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár kemur raunar í ljós að það hafði ekkert breyst. Í þjóðhagsspánni kemur fram að ráðherrarnir sögðu einfaldlega ósatt. En þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Vísitala framfærslukostnaðar hækkaði um 58.5% milli áranna 1979 og 1980 og um 58.9% frá upphafi til loka árs. Hækkun vísitölunnar undangengna tólf mánuði var yfir 60% í upphafi síðasta árs og fram undir mitt ár, en síðan dró úr hækkuninni og var hún komin niður í 51% í nóv. Síðustu tvo mánuði ársins urðu hins vegar miklar verðhækkanir. Hækkun byggingarvísitölu var heldur minni en hækkun framfærsluvísitölu, frá upphafi til loka ársins var hækkunin 57.3%, en 55.6% að meðaltali milli áranna 1979 og 1980.“

Fólk taki eftir því, að á sama tíma og verðbólgan var 57.3% frá upphafi til loka árs og á sama tíma og meðaltalshækkunin var 55.6% hækkuðu laun í landinu aðeins um 51%, eftir því sem mér skilst að talsmenn ríkisstj. haldi fram, en hins vegar um 53% ef töltir kauplagsnefndar eru lagðar til grundvallar. Sama er, þetta sýnir að um verulegan samdrátt var að ræða í kaupmætti á s. l. ári, og svo ég vitni aftur í því samhengi til fyrrv. formanns Alþb., Lúðvíks Jósepssonar, og þess sem hann sagði í fréttaauka í Ríkisútvarpinu í febrúarmánuði 1978, þá segir þáv. formaður Alþb. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessu frv., sem ríkisstj. leggur fram, felst kauplækkun sem nemur 10–12% kaupmáttarskerðingu á þessu ári frá því sem kaupmátturinn er orðinn nú í upphafi ársins, því þó að talað sé um það að það eigi að verða svipaður kaupmáttur eins og var að meðaltali á s. l. ári, þá voru kaupsamningarnir ekki gerðir, hinir nýju, fyrr en á miðju ári, og því liggur meðaltalskaupmáttur þessa árs langt fyrir neðan þann kaupmátt sem verið hefur nú að undanförnu.“

Þáv. formanni Alþb. vex í augum að það skuli vera miðað við meðaltalskaupmátt á árinu 1977, en samningar hafi ekki verið gerðir, hinir nýju, fyrr en á miðju því ári. Sú ríkisstj., sem nú situr, er að miða við meðaltalskaupmátt á s. l. ári, en þá voru samningar gerðir þegar tíu mánuðir voru liðnir af árinu. Þetta sýnir enn að einnig í þessu tilliti standast þær aðgerðir, sem nú hafa verið gerðar, ekki samjöfnuð við þau lög sem hv. 1. þm. Reykv. beitti sér fyrir á sínum tíma, og allt er það launþegum í óhag nú. Má raunar rifja eitt upp enn. Á árinu 1978 urðu fleiri grunnkaupshækkanir, hinar síðustu, ef ég man rétt, hinn 1. des. 1978, en launþegar í dag geta ekki vænst þess að fá þá kjaraskerðingu, sem nú á að samþykkja, uppi borna með neinum hætti með grunnkaupshækkunum síðar á árinu. Og þó svo eigi að heita að nafninu að ASÍ hafi kallað saman formannaráðstefnu til þess að móta kröfugerðina í haust, þá er það satt að segja að menn koma á þvílíka ráðstefnu með hálfum huga, reynslunni ríkari, og skilja ekki hvers vegna þeir eigi nú að eyða hálfu eða einu ári í það að setjast við borðið með atvinnurekendum til þess að setja eitthvað á pappír sem formaður Alþb., hæstv. félmrh. Svavar Gestsson, hefur svo forgöngu um að eyðileggja við fyrstu hentugleika — og er svo óforskammaður í þeirri viðleitni sinni að honum kemur það út á eitt, það skiptir hann engu máli og honum þykir heldur betra ef Alþingi getur ekki samþykkt kjaraskerðinguna fyrr en eftir á.

Við, sem munum 1. mars 1978, við munum eftir því, að menn eins og formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, héldu því fram, að stjórnskipulegur neyðarréttur væri til sem réttlætti það að efna til ólöglegs verkfalls, sem réttlætti það að efna til útflutningsbanns, til þess að verkalýðurinn gæti haldið þeim launakjörum sem hann samdi um. Við munum eftir þessu. Og þó var Alþingi látið fjalla um það mál áður en sú kjaraskerðing komst til framkvæmda.

Um þessa helgi hélt ASÍ formannaráðstefnu. Og þeir höfðu ekki einu sinni dug í sér til að gera neitt sem vakti athygli í sambandi við þá ósvinnu, að í dag stendur til — ef formaður Verkamannasambands Íslands fær að ráða — að Alþingi setji stimpilinn á plagg þessarar hæstv. ríkisstj. um það, að eftir á skuli verkamenn sviptir 7% af sínum launum — eftir á. Ég efast ekki um það, að ef nokkur dómstóll væri til í landinu sem fjallaði umsvifalaust um þá löggjöf sem hér er verið að fjalla um, ef það mundi ekki dragast, þá mundi hann segja að þessi kjaraskerðing, sem nær til marsmánaðar, væri andstæð anda stjórnarskrárinnar, bókstaf hennar og öllum lagaskilningi.

Reynslan hefur á hinn bóginn sýnt að dómskerfið íslenska er svo seinvirkt að Hæstiréttur hefur ekki treyst sér til að kveða upp þvílíka dóma löngu eftir á, enda mundu reikningsskilin verða erfið. Menn gera sér ekki grein fyrir hverjar afleiðingarnar af því yrðu, ef Hæstiréttur úrskurðaði kannske eftir dúk og disk, að þvílík löggjöf bryti í bága við stjórnarskrána, og dæmdi hana þess vegna óheimila.

Það er hins vegar skemmtilegt að vita til þess, að svo hógværir menn skuli vera teknir við í Alþýðusambandinu, menn sem líta með slíkum skilningi á landsins hag, að þeir skuli ekki einu sinni lengur gera kröfur til þess að formlega rétt sé staðið að þeirri kjaraskerðingu sem þvinguð er yfir fólkið í landinu. Það er náttúrlega mikið umhugsunarefni, einkanlega þegar maður rifjar það upp, að verkalýðshreyfingin hefur helgað sér rétt til þess að taka ákveðinn hundraðshluta af launum launþega til að standa undir rekstrarkostnaði síns stéttarfélags. Ég hygg að yfirleitt sé þetta 1% af launum, a. m. k. af venjulegum dagvinnu- eða mánaðarlaunum, þannig að fyrir lægst launaða fólkið er þetta 1% af brúttólaunum þess og miklu hærri tala ef skattarnir eru teknir inn í dæmið.

Afstaða verkalýðshreyfingarinnar nú til þeirrar lagasetningar, sem við erum að ræða, og afstaða verkalýðshreyfingarinnar fyrir þrem árum er með gjörólíkum hætti. Og ýmsir verkalýðsleiðtogar hafa eingöngu getað varið þessi sinnaskipti með því, að það sé spurning um það, hvort þeir telji þá ríkisstj., sem situr, sér vinveitta eða ekki. Það er ekki sama hver er. Í líkingamáli má segja að þannig megi hugsa, að rétt sé fyrir verkalýðshreyfinguna að ausa eins og óþekk hryssa ef einhver óviðkomandi slær á huppinn á henni, þó hún sætti sig við að vera kúgaður klár ef það eru réttir menn sem halda á hnútasvipunni.

En svo ólíkt sem verkalýðshreyfingin hefur staðið að kaupmáttarskerðingunni núna og kaupmáttarskerðingunni fyrir þrem árum, þá hlýtur að draga að því, að ýmsir launþegar spyrji: Til hvers erum við að borga verkalýðshreyfingunni 1% af okkar launum? Er það til þess að þessir menn geti rekið einhverja skrifstofu eftir geðþótta sínum og til þess að þjóna sinni lund og til þess að þjóna sínum pólitísku skoðunum, til þess að þjóna sínum flokkshagsmunum, til þess að þjóna sínum persónulegu hagsmunum? Eða borgum við þeim 1% til þess að þeir geti þjónað hagsmunum launþega, staðið á rétti launþega þegar svo ber undir? Og þessir launþegar spyrja líka: Hvernig stendur á því, að verkalýðshreyfingin var að semja um allar grunnkaupshækkanirnar á s. l. ári alveg í árslok, ef hún kemst að þeirri niðurstöðu fyrir áramót með þegjandi samþykki sínu, að þjóðarbúið gat ekki staðið undir þessum grunnkaupshækkunum? Af hverju er hún að biðja um grunnkaupshækkanir sem hún skömmu síðar segir sjálf að hafi verið rangt að semja um? Af hverju er hún að eyða stórkostlegum fjármunum af fé þjóðarinnar til þess að semja um eitthvað sem aldrei var til nema uppi í skýjaborgum einhverra spjátrunga?

Ætlar verkalýðshreyfingin nú, þegar hún er að semja og setja fram sínar kröfur, ofan í það að vera búin að samþykkja þá kjaraskerðingu sem hér er, — og í öllu þessu máli er ég einungis að tala um suma af verkalýðsleiðtogunum, ég er að tala um þá verkalýðsleiðtoga, sem eru áhangandi eða einhvers staðar í kringum Alþb. og kjósa það, og nokkra aðra, — ætla þeir að leggja það til núna, að launþegar reyni að fá fram með samningum einhverja grunnkaupshækkun á næsta hausti? Þykir þeim fjárfestingar- og lánsfjáráætlunin, sem lögð hefur verið fram, gefa tilefni til þess að ætla að eins og landinu er nú stjórnað séu einhverjar forsendur fyrir því, að nokkur hinna lægst launuðu í landinu, hvað þá aðrir, geti fengið réttarbót í þessum samningum?

Ef maður vill hugsa rökrétt og ef maður vill reyna að átta sig á því, hvernig andrúmsloftið hefur verið á formannaráðstefnu Alþýðusambandsins, gera verkalýðsleiðtogarnir sér vitanlega grein fyrir því að meðan þeir menn stjórna landinu, sem nú velgja ráðherrastólana, er ekki um það að tala að bæta kjörin. Þeirra tillögur eru allar á þá lund gagnvart launþegum að þyngja skattana, að skerða samningana, — gagnvart atvinnurekendum líka að þyngja skattana og álögurnar og gera hinum frjálsa atvinnurekstri svo erfitt að starfa sem nokkur kostur er. Á hinn bóginn er á bak við tjöldin reynt að hygla ríkisfyrirtækjum þannig að þau hafi allt annan starfsgrundvöll en hin frjálsu fyrirtæki sem við hlið þeirra starfa í landinu. Þetta er náttúrlega sú ljóta úlfakreppa sem við erum í og er komin til af því, að þeir menn, sem nú fara með allt of mikil völd, eru sumpart reynslulausir með öllu og þó óráðþægir og sumpart eru það menn sem hafa sjálfir komið sér í þá stöðu að þeir eiga óhægt um vik að brjótast út úr því samstarfi sem orðið er. En von okkar er samt ekki alveg dauð. Í þessari ríkisstj. er þrátt fyrir allt einn maður, einn einasti maður sem er líklegur til þess að vilja taka höndum saman við frjálshyggjuöfl í landinu, við okkur sjálfstæðismenn, við Alþfl.-menn. Það er sá maður sem stóð á því á sínum tíma að einhver lágmarkskaupmáttur yrði að vera fyrir lægst launaða fólkið.

Ég man eftir því, að í sjónvarpsþætti fyrir tæpum þrem árum, þegar þeir mættust þar formaður Félags ísl. iðnrekenda, Davíð Scheving Thorsteinsson, og formaður Verkamannasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, þá spurði formaður Verkamannasambands Íslands iðnrekandann að því, hvort hann gæti lifað af þeim launum sem verkamaðurinn hefði þá fyrir dagvinnuna, sá venjulegi iðnverkamaður, sú venjulega iðnverkskona, hvort honum þætti þetta of mikið. Og hann talaði um nauðsyn þess að lyfta þessum kaupmætti verulega. Ég á þetta viðtal til. Ég get vitnað í það hér orðrétt. Og maður skildi það undireins, að fyrir þessum formanni Verkamannasambands Íslands vakti og var á bak við hans pólitísku afskipti og störf hans í verkalýðshreyfingunni að ljá aldrei máls á því að hreyft yrði við þessum lökustu kjörum í þjóðfélaginu, þess fólks sem bágast hefur það og verður að velta fyrir sér hverri krónu til þess að endar nái saman. Ég hef verið að hugsa um það síðan, eftir því sem tíminn hefur liðið og eftir því sem fleiri misseri hafa fallið í aldanna skaut, hvort honum hafi orðið eitthvað úr verki, hvort mikið hafi áunnist.

Og nú, herra forseti, þar sem einn af stjórnarmönnum BSRB er kominn í þingsalinn, þá vil ég fá að rifja upp ályktun, sem BSRB gerði í tilefni af febrúarlögunum 1978, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn BSRB mótmælir kjaraskerðingarákvæðum í frv. ríkisstj. um ráðstafanir í efnahagsmálum. Með riftun samninga við BSRB og kjarasamninga annarra samtaka launafólks er vegið á þann hátt að samningsréttinum og möguleikum til að gera marktæka kjarasamninga í framtíðinni, að launafólk getur með engu móti við það unað. Stjórn BSRB telur samtök launafólks eiga þann kost einan að hefja nú þegar undirbúning allsherjarbaráttu fyrir varðveislu grundvallarréttar síns og tilveru samtakanna. Stjórn bandalagsins ákveður að leita samráðs við ASÍ í þessu stórmáli. Stjórn BSRB lýsir stuðningi við þá ákvörðun formanns bandalagsins að kalla saman formannaráðstefnu BSRB þegar í byrjun næstu viku til þess að fjalla um viðbrögð samtakanna við þeim samningsrofum sem verið er að undirbúa af hálfu stjórnvalda.

Fyrir rúmum þremur mánuðum undirritaði fjmrh. fyrir hönd ríkisstj. aðalkjarasamning, við BSRB og sveitarstjórnir gerðu kjarasamninga við félög bæjarstarfsmanna í BSRB, að ófrávíkjanlegri kröfu ríkisstj. við setningu kjarasamningalaganna 1976. Er gildistími þessara samninga tvö ár.

Á fyrsta stigi viðræðna s. l. haust samþykkti ríkisstj. kröfur BSRB um fullar vísitölubætur á laun á samningstímanum og reglur um útreikning framfærsluvísitölunnar þar sem reiknað er með óbeinum sköttum, þ. á m. tollum, söluskatti og vörugjaldi, í vísitölunni.

Nú hefur það gerst, að sama ríkisstj. sem undirritaði þessa samninga fyrir rúmum þremur mánuðum hefur lagt fram frv. sem kollvarpar vísitöluákvæðum samninganna, í fyrsta lagi með því, að aðeins er gert ráð fyrir helmingi vísitöluuppbóta með litlum frávikum, og í öðru lagi með ákvæðum um að óbeinir skattar eða breytingar á þeim verði teknir út úr vísitölunni á samningstímanum.“

Að lokum segir í samþykkt stjórnarfundar BSRB, með leyfi hæstv. forseta:

„Engar forsendur hafa breyst síðan samningar við opinbera starfsmenn voru undirritaðir, nema hvað alþm. hafa hækkað kaup sitt til muna, meira en BSRB samdi um fyrir sína félagsmenn, og Kjaradómur hefur dæmt háskólamönnum í hærri flokkunum meiri hækkun en félagsmenn BSRB fengu.

Í þessum dómi sátu fulltrúi fjmrh. og einnig efnahagsráðunautur ríkisstj., og stjórn BSRB skorar á allt launafólk að fylkja sér til baráttu fyrir varðveislu samningsréttar síns.“

Nú geri ég ráð fyrir því, að hv. 8. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, sé mér algjörlega sammála um það, að með þeim lögum, sem hún er nú að greiða atkvæði með, sé verið að skerða verulega þá samninga sem BSRB gerði á s. l. hausti. Í þessari samþykkt, sem hún sjálf stóð að, er talað um þrjá mánuði, en þegar ákvörðunin var tekin um að skerða kjarasamning BSRB voru liðnir að vísu fjórir mánuðir: sept., okt., nóv. og des. Samt sem áður, eins og ég tók fram áðan, er frá siðferðilegu sjónarmiði augljóst að miklu vafasamara er að ríkisstj. rifti samningum núna sem hún átti sjálf allt frumkvæði að að móta þar sem samningar Alþýðusambandsins koma á eftir, heldur en 1977, þegar það var á vegum ASÍ eða á hinum frjálsa vinnumarkaði sem tónninn var sleginn. Frá siðferðilegu sjónarmiði er það, sem nú er að gerast, miklu verra þegar af þeirri ástæðu, auk þess sem — eins og ég sagði áðan — Alþingi hefur enn ekki fjallað um kjaraskerðinguna og svo er að sjá sem ýmsum verkalýðsleiðtogum sé það öldungis eitt að fá vitneskju um það hvort kjaraskerðingarlög njóti stuðnings á Alþingi eða ekki. Það mætti þó ætla, ef menn hefðu samræmi í sínum aðgerðum frá einu skipti til annars, að þegar þeir töluðu um stjórnskipulegan neyðarrétt þá væri hann einkum í því fólginn, að lögformlega væri frá kjaraskerðingunni gengið og enginn vafi gæti leikið á því, að hún hefði meiri hluta á Alþingi.

Þótt undarlegt sé, herra forseti, þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem menn hafa reynt að stjórna með skilyrðislausri verðstöðvun. Í mannkynssögu Durants þar sem fjallað er um sósíalisma Díócletíanusar og hrun Rómaveldis segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar friður gafst reyndi Díócletíanus með hjálparmönnum sínum að ráða bót á efnahagshnignun ríkisins. Hann vildi sigrast á kreppunni og tók því upp skipulagða fjármálastjórn í stað lögmálsins um framboð og eftirspurn. Hann kom á heilbrigðu gengi með því að tryggja gullmyntinni ákveðinn þunga og hreinleika sem hún hélt í austurríkinu allt til 1453. Hann veitti fátæklingum matvöru á hálfu markaðsverði eða jafnvel ókeypis og hóf miklar opinberar framkvæmdir til að létta atvinnuleysi. Ýmsar greinar iðnaðar tók hann með öllu undir stjórn ríkisins og vildi þann veg hafa full tök á að afla nauðsynja handa borgunum og herliði. Tók hann fyrst til við innflutning kornvöru. Fékk hana skipaeigendur og kaupmenn, sem höndluðu með korn, til að gangast undir slíka umsjón ef þeir fengju í staðinn tryggingu ríkisins fyrir atvinnu og endurgjaldi. Ríkið hafði lengi átt námur flestar, en nú bannaði það útflutning á salti, járni, gulli, víni, korni og viðsmjöri frá Ítalíu og hafði strangt eftirlit með innflutningi þessara vörutegunda. Á dögum Árelíanusar og Díócletíanusar voru flestar iðnaðarstofnanir og gildi“ — (Forseti: Ég vil aðeins taka það fram mönnum til upplýsinga, að atkvæðagreiðsla verður í fyrsta falli kl. hálfsex í þessu máli, en síðar ef umræður standa þá enn.) Ég hélt, herra forseti, að fundartími þingflokka væri milli fjögur og sex, en það virðist eitthvað hafa breyst án þess að þdm. hafi verið gerð grein fyrir því. Ég fyrirgef herra forseta þessa truflun og held svo áfram að upplýsa þingheim, með leyfi hæstv. forseta:

„Á dögum Árelíanusar og Díócletíanusar voru flestar iðnaðarstofnanir og gildi smám saman sett undir stjórn ríkisvaldsins. Slátrarar, bakarar, múrarar, húsasmiðir, glerblásarar, járnsmiðir og myndskerar máttu hlíta nákvæmum regluboðum ríkisins. „Stéttarfélögin voru sem eftirlitsmenn í sínum eigin málum fyrir hönd ríkisins.“ — Ég endurtek: „Stéttarfélögin voru sem eftirlitsmenn í sínum eigin málum fyrir hönd ríkisins,“ segir Rostovtzeff. „Þau voru sjálf fjötruð af embættismönnum hinna ýmsu stjórnardeilda og af yfirmönnum hinna ýmsu eininga hersins.“ Félög verslunarmanna og iðnaðarmanna fengu margvísleg forréttindi hjá stjórnarvöldunum og reyndu oft að hafa áhrif á stjórnarstefnuna. Í staðinn veittu þau stuðning við stjórn ríkisins, studdu að nýtingu vinnuafls og innheimtu skatta hjá meðlimum sínum. Svipað eftirlit var látið ná til skattlandanna með hergögnum, matvælum og klæðaiðnaði. Í hverju skattlandi voru sérstakir umboðsmenn sem litu eftir öllum iðnaðarframkvæmdum, og í hverri borg varð ríkið einn helsti vinnuveitandinn.

Slíkt kerfi gat ekki þrifist án verðlagseftirlits. Árið 301 gáfu Díócletíanus og meðstjórnendur hans út „Edictum de pretiis“ eða tilskipun um verðlag, þar sem tiltekið var hæsta lögleyft verð eða laun fyrir allar helstu vörur og þjónustu í ríkinu. Tilskipun þessi var allt til vorra tíma frægasta tilraun sem gerð hefur verið til að setja stjórnboðin ákvæði í staðinn fyrir lögmál efnalífsins. Tilraunin mistókst fljótt og fullkomlega. Kaupmenn földu vörur sínar, skortur varð meiri en nokkru sinni fyrr, Díócletíanus var sjálfur sakaður um að stuðla að hækkandi verðlagi, og slaka varð á tilskipuninni til að örva aftur framleiðslu og dreifingu. Að lokum var hún numin úr gildi af Constantínusi mikla.

Veikleiki þessarar efnahagsstjórnar var fólginn í því hve dýr hún var í framkvæmd. Embættismannaliðið varð svo fjölskipað að Lactantíus hélt því fram, auðvitað með ýkjum stjóramálamannsins, að helmingur þjóðarinnar væru embættismenn.“

Ég hef rifjað þetta upp, herra forseti, til að vekja athygli á því, að ekkert er nýtt undir sólinni, til að rifja það upp, að jafnvel í heimsríkinu sjálfu mistókst þessi tilraun, að ætla að stjórna einu landi í trássi við lögmál efnahagslífsins, mistókst að halda uppi eðlilegu viðskiptalífi, eðlilegri framleiðslu og eðlilegri þjónustu með því að standa gegn því, að hlutirnir séu látnir kosta það sem þeir kosta. Og ég hygg að reynslan muni einnig sýna það núna þegar fram líða stundir, að sú kalda hönd ríkisvaldsins, sem nú hvílir á púlsi atvinnulífsins, mun fyrr eða síðar eitra út frá sér. Það mun myndast drep í kringum hana og þess verður ekki langt að bíða að hægist á hjóli atvinnuveganna, viðskipti hægjast og atvinnuleysi heldur innreið sína, svo það verði tilfinnanlegt. Þegar er komið upp það ástand fyrir norðan, að forustumenn t. d. Akureyrar hafa snúið sér til þingmanna vegna ískyggilegra horfa í atvinnulífinu. Og þessi doði mun halda áfram að dreifast út um ýmsar byggðir landsins ef áfram verður reynt að stjórna landinu á sömu nótum og verið hefur nú um hríð.

Ég veit ekki hvort ástæða er til að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir í fyrsta lagi, að setning brbl. á gamlársdag var ekki aðeins óþörf, heldur var hún ögrun við þau öfl í landinu sem vilja efla lýðræðishætti og þingræði í landinu. Á hinn bóginn upplýstu viðbrögð ýmissa verkalýðsleiðtoga það, að þeir leggja ekkert upp úr því, hvernig staðið er að kjaramálum. Þeim er öldungis eitt hversu staðið er að kjaraskerðingunni, ef það eru þeirra menn sem gera það, ef þeir geta áfram tryggt sjálfum sér aukin áhrif og jafnvel eitthvert hagræði líka í tengslum við það.

Ég þori að fullyrða að undir engum öðrum kringumstæðum mundu t. d. þeir verkalýðsleiðtogar, sem fylgja Alþb., hafa setið auðum höndum og látið svipta umbjóðendur sína mánaðarlaunum án þess að réttilega sé að málinu staðið í lögformlegum skilningi.

Í öðru lagi liggur í augum uppi að brbl. eru sumpart áróðursplagg og hafa sem löggjöf enga þýðingu, eins og það ákvæðið að heimila ríkisstj. að endurskoða lánfjáráætlun sem ekki hefur enn þá verið gengið frá. Þar er náttúrlega verið að gera hlut sem eingöngu er broslegur og hefur enga þýðingu. Eðlilegra hefði verið að þvílík setning hefði fylgt lánsfjáráætluninni þegar Alþingi gengur frá henni. En um þetta hafa margir menn fjallað.

Í þriðja lagi er mér ekki algjörlega ljóst hvernig standa eigi að verðlagsmálum þegar 1. maí rennur upp, hvort hugmyndin sé þá að fella alla verðstöðvun niður eða hvort við því megi búast, að stjórnarflokkarnir reyni að beita sér fyrir nýrri löggjöf eftir páska einmitt um það atriði. Sjálfur er ég sannfærður um að þegar brbl. voru gefin út hafi ráðherrarnir í einfeldni sinni búist við því að geta sent þingið heim fyrir mánaðamótin apríl-maí og þeir hafi hugsað sér þá að bæta úr þessu með nýjum brbl. sem m. a. fælu í sér skerðingu kaupgjaldsvísitölunnar 1. júní.

Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum yfir því, að ekki skyldi hafa fundist einn einasti maður réttlátur meðal stuðningsmanna ríkisstj. sem gat fallist á þær hógværu tillögur sem stjórnarandstaðan reyndi að ná fram við 2. umr. málsins og allar horfðu til bóta fyrir launafólk í landinu og raunar þjóðina alla.

Ég vil svo að síðustu segja það, að ég hef velt því töluvert fyrir mér, hvort megi vænta þess síðar meir, ef til kjaraskerðingar kemur með þessum hætti eða óðrum og Alþb. yrði utan stjórnar, hvort þeir Alþb.-menn, sem nú halda fastast utan um kjaraskerðinguna og sjá í henni lífsvon sína hvað sem Helguvík og flugvélaskemmum líður, — hvort þessir Alþb.-menn muni ekki reyna að bregða á leik aftur síðar, endurvekja Alþingi götunnar og kalla og hrópa um stjórnskipulegan neyðarrétt.

Þetta mál allt saman er þannig vaxið, að óhjákvæmilega hljóta launþegar að taka til endurskoðunar í fyrsta lagi, hver sé tilgangurinn og markmiðið með stofnun eins og ASÍ, svo freklega sem það hefur brugðist í þessu máli og ekki einu sinni reynt að sjá um að launþegar ættu kost á að fá einföldustu upplýsingar varðandi það mál sem hér um ræðir.

Í öðru lagi hlýtur þetta mál að valda því, að aukinn þrýstingur verður varðandi það að kosið sé í stéttarfélögum með lýðræðislegum hætti, þannig að unnt sé að koma við heilbrigðri gagnrýni innan verkalýðshreyfingarinnar og að launþegar geti eitthvert aðhald haft og eitthvert eftirlit með því óheyrilega fjármagni sem rennur um vasa verkalýðshreyfingarinnar.

Og í þriðja lagi hlýtur að koma til athugunar hversu fjármunum verkalýðshreyfingarinnar sé varið. Menn hljóta m. a. að reyna að glöggva sig á því, hvaða pappírar hafa verið gefnir út af verkalýðshreyfingunni vegna þeirrar kjaraskerðingar, sem nú á sér stað, og vegna þeirrar kjaraskerðingar, sem varð fyrir þrem árum, hversu miklu fé var varið til fundarhalda á vegum verkalýðshreyfingarinnar í sambandi við kröfuna um samningana í gildi hinn 1. mars 1978, en við vitum að núna hefur ekki einni einustu krónu verið varið til þvílíkra hluta. Og síðast en ekki síst verður það athyglisvert, hvort forustumenn Dagsbrúnar, forustumenn ASÍ telja efni til þess í sinni kröfugerð á þessu ári að fara fram á það, að einhverjar grunnkaupshækkanir verði hjá þeim lægst launuðu í þjóðfélaginu eða hvort þeir taki undir með núv. hæstv. ríkisstj. um það, að eins og ástandið er geti launþegar enga von borið í brjósti um að hagur þeirra vænkist, allar þvílíkar vonir, allir þvílíkir draumar séu feigir fæddir, skýjaborgir sem ekki geti staðist á meðan staðið er að verkalýðs- og atvinnumálum, að kjaramálum og skattamálum eins og verið hefur um hríð af ýmsum af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar, núv. hæstv. ríkisstj. og þeim sundurleita hópi sem hana styður.

Ég harma það, að þeir menn, sem stóðu fyrir samningsgerðinni í haust fyrir verkafólkið og eru síðan ekki menn til þess að reyna að standa við þá samningsgerð, skuli ekki hafa þorað að horfast í augu við það á s. Í. hausti, að engin efni voru til grunnkaupshækkana. Ég harma það, að ríkisstj. skyldi hafa leyft sér að vekja um það falskar vonir í brjóstum launþega, þegar hún komst að völdum og fram eftir haustinu, að einhver vegur væri að bæta lífskjörin, þegar fyrir liggur að skipulega er að því unnið, að skerða þau bæði með opinberum aðgerðum og með vondri stjórn á ýmsum af þýðingarmestu stéttarfélögum landsins.