30.03.1981
Neðri deild: 68. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3180 í B-deild Alþingistíðinda. (3298)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég varð eins og fleiri undrandi þegar ég heyrði tilkynningu heilbr.- og trmrn. um 8% hækkun tekjutryggingarþáttar elli- og örorkulífeyris. Augljóst var að tilkynningunni var ætlað að blekkja almenning eins og sumt annað sem kemur frá hæstv. ríkisstj. Tilkynningunni var ætlað að láta fólk halda að elli- og örorkulífeyrisþegum væri hlíft við þeirri kjaraskerðingu sem launþegum var ætluð. Þetta bragð tókst ágætlega, meira að segja tókst að blekkja þingmenn, hvað þá almenning.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. segir að kjaraskerðingunni verði skilað aftur síðar á árinu, m. ö. o. þá mæli verðbótavísitalan hraðar. Ef það er rétt og nauðsynlegt nú að draga úr þeim hraða sem verðbótavísitalan mælir verðbætur á laun, þá hlýtur að vera rangt að auka þennan hraða aftur með haustinu. Stundum áður — það hefur áður komið fyrir að rætt hefur verið um nauðsyn á skerðingu verðbótavísitölu á laun — hafa flestir, ég vil segja allir, sem um það hafa fjallað eða gert tillögur í þá átt, viljað hlífa þeim allra lægst launuðu og bótaþegum almannatrygginga við slíkri skerðingu. Nú er það ekki gert. Nú eru verðbætur skertar hjá öllum, einnig þeim allra lægst launuðu og hjá bótaþegum almannatrygginga.

Það er talað um skattalækkanir sem eigi að draga úr þessari skerðingu að hluta. Ég hef ekki séð þær enn og ég hef ekki séð neitt sem bendir til þess að umtalsverðar skattalækkanir verði samanborið við skatta síðasta árs. Það verður að vísu lækkun frá þeim sköttum, sem núverandi fjárlög gera ráð fyrir, en þar var líka búið að hækka skatta verulega frá síðasta ári. En þó svo væri, þótt þarna væri um talsverðar skattalækkanir að ræða, hvort sem þær verða nú 1% eða 1.5%, þá koma þær þessu fólki ekki að neinu gagni. Þetta fólk ber enga skatta hvort eð er, hvorki þeir allra tekjulægstu né bótaþegar lífeyristrygginganna yfirleitt.

Herra forseti. Í þeirri brtt., sem borin er fram af hv. 1. þm. Vestf. o. fl. og hér er til umr., er reynt að bjarga því sem bjargað verður fyrir bótaþega almannatrygginga. Ég styð tillöguna.