31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3182 í B-deild Alþingistíðinda. (3305)

265. mál, olíuviðskipti við Breta

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Eins og alkunna er varð gífurleg olíuhækkun á árinu 1979 í kjölfar þess er olíuframleiðslan í Íran féll að miklu leyti niður sökum innanlandsófriðar. Við samdrátt framleiðslunnar og yfirvofandi olíuskort hófst linnulaust kapphlaup um þá olíu sem var til sölu á frjálsum markaði. Það kapphlaup að fylla í eyður, sem þannig höfðu myndast, svo og um birgðaaukningu olli einhverri mestu verðsprengingu á almennum olíumarkaði sem sögur fara af, að árinu 1973 undanskildu, þannig að olíuverð hefur nær þrefaldast í verði á tímabilinu 1. jan. 1979 til 1. mars 1981. Mest varð verðhækkun olíuvara 1979 á hinum svokallaða Rotterdam-markaði, sem olíusamningur okkar við Sovétríkin byggðist á.

Í því ástandi, sem skapaðist í olíuviðskiptum árið 1979, urðu Íslendingar óvenjuilla úti, og þegar ljóst var hvert stefndi var að bestu manna yfirsýn talið rétt og skylt að leita jafnhliða annarra markaða um hluta viðskipta landsmanna, þar sem unnt væri að semja um fast verð og verð til lengri tíma, en olíuverð í samningum okkar við Sovétríkin hefur alltaf miðast við dagverð og hin síðari ár við svokallað Rotterdam-verð, sem er uppboðsverð á olíu í Rotterdam.

Eitt helsta verkefni olíuviðskiptanefndar, sem sett var á laggirnar 1979, var því að leita hagkvæmari olíuviðskiptakosta. Sá kostur, sem varð ofan á, var að ganga til samninga á s. l. ári við breska ríkisolíufyrirtækið BNOC um kaup á allt að 100 þús. tonnum af gasolíu á síðari helmingi ársins 1980 og allt að 100 þús. tonnum árið 1981, en samningurinn gildir áfram nema honum verði sagt upp með löglegum fyrirvara, þ. e. fyrir 1. júlí þessa árs. Þótt samningurinn við BNOC geri ráð fyrir nokkuð föstu verði hefur reyndin orðið sú, að Rotterdam-markaður hefur verið allstöðugur s. l. hálft ár eða rúmlega það og fallið nokkuð niður fyrir verð BNOC, svo að í peningalegum skilningi hefur breski samningurinn enn sem komið er reynst okkur dýrari en Rotterdam-verðmiðun hefði leitt af sér. Enn þá er ósamið um verð á þeim 40 þús. tonnum af gasolíu sem BNOC á eftir að afgreiða á þessu ári.

Svo að spurningunni: „Hver var hagnaður af olíuviðskiptum við Breta?“— sé svarað beint er hann því miður — a. m. k. enn þá — enginn í peningalegum skilningi, heldur hallast töluvert á í þeim efnum. Það er að vísu eftir að semja um 40 þús. tonn og ekki séð fyrir hvaða verð verður á Rotterdam-markaði þegar að þeim kaupum kemur. Þannig er ekki hægt að svara því nú hverjar lyktirnar verða í þessum samningamálum og hver fullnaðarsamanburður verður fyrr en þessum viðskiptum er að fullu lokið. Hins vegar er vert að leggja alveg sérstaka áherslu á það, að þegar á allt er litið, ekki hvað síst öryggi aðdrátta, fer ekki milli mála að hverri þjóð er stórum aukið öryggi búið í því að eiga kost á eldsneytisföngum úr fleiri átt en einni. Er ekki vitað um neitt þjóðland, sem ekki býr að eigin olíu, sem viðar ekki að sér eldsneyti ekki aðeins frá 1–2 löndum, heldur frá fleiri löndum samtímis, bæði vegna jöfnunar á hugsanlegum verðsveiflum, styrkari samningsstöðu og öruggari aðdrátta.

Ef litið er til öryggissjónarmiðanna út af fyrir sig má tvímælalaust telja hag að BNOC-samningunum þótt ekki sé um hagnað eða ágóða að ræða í venjulegum skilningi verslunarviðskipta.

Í þessu sambandi er vert að vitna í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. Þar segir m. a. svo með leyfi hæstv. forseta: „Áhersla skal lögð á að tryggja landsmönnum nauðsynlegt magn af olíuvörum með sem hagstæðustum kjörum og með samningum til langs tíma frá fleiri en einum aðila af öryggisástæðum.“

Um síðari spurninguna: „Er ætlunin að halda þeim viðskiptum áfram?“ — er því til að svara, að ég mun eiga fund með forsvarsmönnum BNOC á næstunni þar sem áframhaldandi viðskiptamöguleikar verða ræddir. Byggist það að verulegu leyti á niðurstöðum þeirra viðræðna svo og framhaldsviðræðum í byrjun maímánaðar n. k., hvort um áframhald verður að ræða eða ekki. Æskilegt væri að svo yrði, en þó á þann veg að okkur Íslendingum stæðu til boða lægra og raunhæfara verð en núgildandi samningur við BNOC kveður á um.

Ég tel rétt sem hluta af þessu svari að gera til viðbótar í örstuttu máli grein fyrir því sem gerst hefur í olíuviðskiptum síðan ég tók við embætti viðskrh.

Hinn 11. sept. 1980 var undirritaður rammasamningur til næstu fimm ára við Sovétríkin. Hluti þess viðskiptasamnings fjallar um kaup á olíuvörum. Samkv. rammasamningnum kaupum við af Sovétríkjunum 100–190 þús. tonn af gasolíu á hverju ári, 110–180 þús. tonn af bensíni á ári hverju. Í samræmi við þennan rammasamning var svo gerður viðskiptasamningur ársins 1981 um kaup á þessu ári frá Sovétríkjunum: Gasolía 100 þús. tonn, en þar er ársþörf okkar talin nema 220 þús. tonnum, svartolía 110 þús. tonn, þar er ársþörfin áætluð 170 þús. tonn, og bensín 70 þús. tonn, en þar er ársþörfin talin 90 þús. tonn.

Í annan stað var undirritaður samningur við British National Oil Corporation í apríl 1980 um kaup á 100 þús. tonnum af gasolíu árin 1980 og 1981 hvort ár. Samkv. þessum samningi keyptum við 60 þús. tonn 1980. Það er minna en um var samið vegna þess að neysla gasolíu hefur minnkað. Er það aðallega af tveimur ástæðum: Húsahitun með olíu hefur minnkað, dregist saman, og einnig hafa fleiri og fleiri togarar farið að nota svartolíu í stað gasolíu áður. Hvort áframhald verður á því er annað mál, vegna þess að svartolía hefur hækkað verulega á heimsmarkaði á þessu ári og seinustu mánuðum síðasta árs. Á þessu ári verða keypt 80 þús. tonn af BNOC og hafa þegar verið flutt inn 40 þús. tonn, þannig að við eigum eftir að flytja inn frá þeim 40 þús. tonn á árinu. Þá hafa verið gerðir samningar um kaup á 20 þús. tonnum af svartolíu frá BNOC á þessu ári. Auk þessa flytja olíufélögin inn olíuvörur, svo sem smurolíu og ca. 40–50 þús. tonn af gasolíu, og kaupa þær vestan tjalds af ýmsum aðilum.

Ég vil geta þess til viðbótar, að það hafa farið fram ítarlegar viðræður við Norðmenn, Statoil í Noregi, um hugsanleg olíuviðskipti. M. a. fóru fram viðræður í Osló í seinustu viku við Statoil þar sem kannaðir eru möguleikar á viðskiptum við Norðmenn á næstu árum. Enn þá hefur ekki á það reynt hvað þau viðskipti verða hagkvæm, en upplýsingar um það munu liggja fyrir innan skamms og þá er að bera saman viðskipti við BNOC og Norðmenn áður en teknar verða ákvarðanir um af hverjum við kaupum.

Ég á ekki von á að við fáum keyptar olíuvörur, hvorki frá Norðmönnum né Bretum, á nemum sérstökum vildarkjörum. Þar gildir heimsmarkaðsverð yfirleitt, eins og um olíuvörur yfirleitt.

Það eru misjafnir mælikvarðar sem eru lagðir til grundvallar í olíuviðskiptunum. Hann svokallaði uppboðsmarkaður eða Rotterdam-markaður yggir á því, hvað framboð og eftirspurn er mikið á olíuvörum, og sveiflast gjarnan gífurlega upp og niður, alveg frá allt að 300 dollurum á tonnið af gasolíu niður fyrir 200 dollara á einu ári. Hann er frekar hagstæður um þessar mundir eða rúmlega 300–310 dollarar á tonn. Samningurinn við BNOC, sem við byggjum á nú, er um 335–340 dollarar á tonnið, en hvort Rotterdam-markaður helst stöðugur eða ekki veit raunverulega enginn. Ég geri þó frekar ráð fyrir að hann verði stöðugur á næstu mánuðum.

Til viðbótar við þetta hefur verið rætt við ýmsa aðila, allmarga, sem vilja koma á viðskiptum við Arabalöndin, en þau mál eru allt öðruvísi vaxin vegna þess að þau byggja fyrst og fremst á því að kaupa jarðolíu, óhreinsaða olíu, og láta hreinsa hana til innanlandsnota. En það er allt annað mál.