05.11.1980
Efri deild: 9. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

17. mál, olíugjald til fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 3 1. febr. 1980, um tímabundið olíugjald til fiskiskipa, sbr. lög nr. 11 11. apríl 1980.

Ég vil segja það í upphafi, að það er mér ekki gleðiefni að þurfa að mæla með hækkun olíugjalds, eins og fram kemur í 1. gr. þessa frv., úr 2.5% í 7.5% miðað við fiskverð. Ég tel að ýmsu leyti að þessi leið til að standa undir hluta mikils olíukostnaðar sé óeðlileg. Hér er miðað við aflamagn eða aflaverðmæti. Við getum kallað það að miðað sé við fjölda fiska, en ekki við raunverulega olíunotkun. Ég gerði mér vonir um það, þegar olíugjaldið var s.l. vor lækkað í 2.5%, að takast mætti að snúa smám saman af þessari leið og finna aðra. Í því skyni starfar á vegum sjútvrn. nefnd sem í eru fulltrúar sjómanna og útvegsmanna og formaður frá Þjóðhagsstofnun. Því miður hefur ekki enn tekist að ná samkomulagi um aðra leið. Ég vil þó leyfa mér að fullyrða að nm. sé öllum ljóst að að því þurfi að stefna. En málið er ákaflega viðkvæmt og mjög mikilvægt að mínu mati að um það geti orðið samkomulag þannig að ekki verði breytt frá þessu fyrirkomutagi í annað í ósátt annars hvors þessara aðila.

Ég hef ekki séð mér annað fært en að mæla með hækkun olíugjaldsins af þeim ástæðum sem fram koma í aths. við þetta lagafrv. Eins og þar kemur fram hefur verð á gasolíu hækkað í júlí s.l. og 9. okt. og er nú 210 kr. hver lítri eða hækkun um 35.3% frá því í júní. Verð á svartolíu hefur hækkað um 22.9%. Þessi hækkun veldur útgjaldaauka hjá útgerðinni sem er um það bil 5% og á því mjög verulegan þátt í hallarekstri útgerðarinnar sem að mati Þjóðhagsstofnunar var fyrir hækkun orðinn um 10%.

Að sjálfsögðu er í þessu sambandi nauðsynlegt að gera sér grein fyrir rekstrarhorfum og mun ég fara yfir það að nokkru leyti.

Eins og ég sagði var útgerðin að mati Þjóðhagsstofnunar rekin með um 10% halla fyrir fiskverðsákvörðun. Til að mæta þeim halla með fiskverðshækkun einni saman hefði orðið að hækka fiskverð um u.þ.b. 18–20%. Það var talið ófært og því farin sú leið að hækka fiskverðið um 8%, en olíugjaldið í 7.5%, eins og frv. gerir ráð fyrir. Með frv. fylgir tafla sem sýnir rekstraryfirlit veiða eftir þessa hækkun. Þar kemur fram að brúttóhagnaður af veiðum er talinn á ársgrundvelli vera um 10 milljarðar kr. Að vísu verður nettóhalli þar sem afskriftir eru ákaflega miklar, sérstaklega af nýrri skipum, en engu að síður taldi fulltrúi útgerðar þetta eftir atvikum viðunandi og greiddi atkv. með þessari breytingu.

Í sambandi við fiskverðsákvörðun og reyndar vikurnar og mánuðina áður hefur verið sleitulaust unnið að því að reyna að koma fiskvinnslunni á jákvæðan grundvöll. Að mati Þjóðhagsstofnunar var fiskvinnslan rekin með halla mestan hluta ársins og hefur borið nokkuð á milli mats Þjóðhagsstofnunar og mats fiskvinnslunnar sjálfrar. Þjóðhagsstofnun telur að fiskvinnslan hafi verið rekin með u.þ.b. 5.1% halla, en fiskvinnslumenn hafa talið að hallinn væri nokkru meiri, telja þar einkum bera á milli vanmat á vaxtakostnaði fiskvinnslunnar.

Í fiskvinnslunni hafa upp á síðkastið orðið töluverðar breytingar. Í fyrsta lagi hefur framleiðslusamsetning fiskvinnslunnar færst í hagkvæmara horf en áður var. Í upphafi sumarsins var fiskvinnslan neydd til þess, vegna sölutregðu í Bandaríkjunum að auka verulega framleiðslu á blokk, en draga úr framleiðslu á flökum, en þetta var bætt til bráðabirgða með auknum greiðslum úr Verðjöfnunarsjóði sem námu 20 kr. á hvert pund. Nú hefur þessi framleiðslusamsetning breyst til hins eldra hlutfalls. Metur Þjóðhagsstofnun að sá bati nemi um 1.8% af rekstrarverðmæti fiskvinnslunnar, en frá þessu dregst að sjálfsögðu sú uppbót sem fékkst úr Verðjöfnunarsjóði þannig að nettóbatinn er um 1%.

Einnig hafa orðið þær breytingar, að birgðastaða fiskvinnslunnar hefur gerbreyst á undanförnum mánuðum. Vegna sölutregðu í Bandaríkjunum og mikillar framleiðslu á fyrri hluta ársins söfnuðust miklar birgðir í frystihúsum, eins og hv. þm. er að sjálfsögðu kunnugt. Til að mæta þeim erfiðleikum var ákveðið að hækka afurðalán í 85% úr 75%. Birgðastaðan hefur nú gerbreyst og er að mati fiskvinnslunnar komin í eðlilegt horf. Að sjálfsögðu lækka þá viðbótarlánin í áföngum og er gert ráð fyrir að þau færist í sitt fyrra horf á þessum mánuðum, þ.e. í okt., nóv. og desember, en þetta hefur haft veruleg áhrif til að bæta stöðu fiskvinnslunnar.

Auk þessa hefur á árinu verið gripið til ýmissa annarra aðgerða til að létta undir með fiskvinnslunni. Ég nefni lækkun tolla á vissum fjárfestingarvörum fiskvinnslunnar, lækkun vaxta hjá Fiskveiðasjóði úr 5.5% í 4.25% og nú síðast samkomulag sem gert var við Seðlabankann um endurgreiðslu á nokkrum hluta greiðslu útflutningsatvinnuveganna af gengistryggðum lánum. Sú endurgreiðsla nemur samtals 3.6 milljörðum kr. og er hlutur frystingarinnar, sem staðið hefur lakast, um 2 milljarðar kr. Að teknu tilliti til þessa telur Þjóðhagsstofnun að rekstur fiskvinnslunnar að meðaltali, eins og það er reiknað, sé í jöfnuði miðað við dollaragengið 552 kr., en ríkisstj. tók þá ákvörðun í septembermánuði að láta gengið síga hratt til að ná slíkri stöðu fiskvinnslunnar.

Í Verðlagsráði greiddi annar fulltrúi fiskvinnslunnar atkv. með breytingu olíugjaldsins með þeirri bókun að hann gerði ráð fyrir gengi um 552 kr. á dollara og að endurgreiðsla gengistryggðra afurðalána miðist við 7–8% gengisbreytingu. Var miðað við 8% þegar upp var gert. Hinn fulltrúi fiskvinnslunnar sat hjá við afgreiðsluna.

Hins vegar greiddu sjómenn atkv. gegn þessari breytingu í Verðlagsráði og andmæltu því að olíugjald yrði hækkað. Að sjálfsögðu er, þegar olíugjald er hækkað, tekið meira af óskiptu og því hlutur sjómanna nokkuð skertur. Hér er þó ekki nema um tiltölulega lítinn hluta að ræða af heildarframleiðsluverðmæti báta- og togaraflotans.

Ég skil mætavel afstöðu sjómanna, fyrst og fremst með tilliti til þess, að þessi leið er vafasöm, eins og ég rakti í upphafi máls míns. Ég vil hins vegar leyfa mér að halda því fram, að miðað við 8% fiskverðshækkun sé hlutur sjómanna tekjulega sæmilega tryggður. Sjómenn hafa gjarnan borið fiskverð saman við kauptaxta í landi, og rétt er það, að þá hefur hlutur þeirra orðið heldur rýrari. Miðað við 100 1974 féll hann 1978 niður í 92, en hefur síðan verið frá 92 upp í 97, en eftir fiskverðsákvörðunina núna 93. Ég verð hins vegar að segja að mér finnst eðlilegri samanburður vera á tekjum sjómanna annars vegar og tekjum verkamanna og iðnaðarmanna hins vegar. Sjómenn eru ekki á tímakaupstaxta og því erfitt að bera saman við hann. Ef þannig er borið saman hefur hlutur sjómanna batnað gagnvart verkamönnum frá 1974 úr 123 í 153 eftir síðustu fiskverðsákvörðun og gagnvart iðnaðarmönnum úr 108 í 137. Einnig gefur Þjóðhagsstofnun upp samkv. lauslegri áætlun um breytingar tekna sjómanna á botnfiskveiðum, verkamanna og iðnaðarmanna að hlutur sjómanna gagnvart verkamönnum hafi batnað um 22% frá 1974 og gagnvart iðnaðarmönnum um 24%. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, að í þessum bata felst að sjálfsögðu mikil vinna sjómanna og í mörgum tilfellum of mikil, þannig að slíkur samanburður er alls ekki heldur einhlítur. Vinna verkamanna og iðnaðarmanna er að vísu oft mikil, en samanburður á því er mjög erfiður. Í þessum bata felst hins vegar jafnframt mikil fjárfesting útgerðarinnar í miklu stórtækari skipakosti og allri nýrri tækni til að afla fisks og ekki óeðlilegt að tekið sé tillit til slíks. Afli hefur þess vegna stóraukist, og það er staðreynd að tekjur sjómanna hafa aukist. En ég hygg að segja megi að a.m.k. í sumum tilfellum hafi vinnuálag jafnframt aukist, t.d. þegar togarar eru að verki og fá mikinn afla á stuttri stundu. Hér er því um að ræða breytingu sem ríkisstj. taldi nauðsynlegt að gera miðað við aðstæður og þar sem reynt er að rata bil beggja og tryggja um leið sæmilega tekjuaukningu sjómanna, en rekstrargrundvöll útgerðar og fiskvinnslu.

Ég vil að gefnu tilefni í Nd. taka það fram, að áður en þessi ákvörðun var tekin átti ég viðræður við alla aðila að Verðlagsráði, að sjálfsögðu við oddamann, sem upplýsti mig vel um allt sem var að gerast þar, og einnig alla fulltrúa í Verðlagsráði. Ég frétti á skotspónum að í sjútvn. Nd. hefði annað komið fram. Ég bað því Ólaf Davíðsson, oddamann, að upplýsa, hvernig þessu var háttað, og fékk frá honum svohljóðandi yfirlýsingu, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Að beiðni þinni skal tekið fram, að á fundum yfirnefndar Verðlagsráðs sjávarútvegsins, er fjallað var um almennt fiskverð frá 1. okt. s.l., kom fram að þú hefðir átt viðræður við fulltrúa sjómanna, útgerðar og fiskvinnslu í yfirnefndinni á meðan verðákvörðun var þar til umfjöllunar. Ég hafði milligöngu um að boða suma fulltrúa á þinn fund. Þar á meðal kom ég boðum til Ingólfs Ingólfssonar, fulltrúa sjómanna í yfirnefndinni, um fund með þér.“

Ingólfur Ingólfsson er þarna sérstaklega nefndur því að menn skildu ummæli hans í nefndinni svo, að hann hefði, eins og hv. þm. orðaði það í Nd., fyrst frétt um þessa ákvörðun í fjölmiðlum. Þetta er, vil ég leyfa mér að segja, vonandi mikill misskilningur því að ég átti fund með Ingólfi Ingólfssyni föstudaginn 3. okt. kl. 14.00, mjög athyglisverðan og fróðlegan fund, þar sem hann upplýsti mig um það m.a., að hann hefði þegar 1974 haft hugmyndir um að fara aðra leið en olíugjaldsleiðina. Um það var rætt hvort unnt væri að fara yfir í að mæla olíu eftir mæli, en ég var Ingólfi Ingólfssyni sammála um að það yrði alls ekki gert á skömmum tíma.

Þar sem hér var um ákaflega viðamikið mál að ræða og mér ekki ljúft að þurfa að flytja kallaði ég einnig á formann Sjómannasambands Íslands, Óskar Vigfússon, og ræddi við hann þriðjudaginn 7. okt. að morgni dags, kl. 8.30, um þetta mál. Ég átti að sjálfsögðu einnig fund með fulltrúum fiskvinnslunnar og með fulltrúa útgerðarmanna.

Ég vil jafnframt taka það fram, að þann tíma, sem ég hef verið í embætti, hef ég átt fjölmarga fundi með fulltrúum sjómanna, bæði í stærri hóp og minni, um mál sem eru þeirra hagsmunamál, t.d. um fiskveiðistefnu, og hefur það samráð að mínu mati verið mjög mikilvægt og ánægjulegt. Ég hef sérstaklega rætt iðulega við formann Sjómannasambands Íslands og formann Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem er Ingólfur Falsson, og þess vegna e.t.v. ekki eins oft við Ingólf Ingólfsson, fyrrv. formann. Mér þótti því leitt þegar slíkt kom fram í nefndinni og tel ástæðu til að nefna það hér svo að hv. nm., sem fá málið til umfjöllunar, þekki það fyrir fram.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Ég vona að mér hafi tekist að lýsa því, hvernig þessi ákvörðun varð til. Ég hef lagt á það áherslu að finna þarf aðra leið til að standa undir olíukostnaði. Menn hafa nefnt í þessu sambandi að greiða hann úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Ég hef ekki á móti því. Ef menn treysta sér til að afla tekna til slíkra sjóða er ég sannarlega tilbúinn að athuga það. Hins vegar hef ég átt sjálfur fund með þeirri nefnd sem ég nefndi í upphafi míns máls og fjallar um breytingar á hlutaskiptareglum. Ég hef lagt á það mikla áherslu að hún reyni að hraða störfum. En ég er alveg sammála því, sem kom fram hjá öllum í þeirri n., að það mætti ekki þvinga fram. Ég vona að takast megi að fikra sig út úr þessu við næstu fiskverðsákvörðun, mun leggja á það áherslu, og þá takist að finna leið sem verði til þess að þeir, sem halda um stýrið, spari olíu, sem yrði þá að sjálfsögðu til að auka hlut bæði sjómanna og útgerðarmanna.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.