31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3186 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

265. mál, olíuviðskipti við Breta

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þótt það komi ekki beinlínis fram í fsp. hefur það komið fram í umr. um fsp. að í ríkisstj. er verið að ræða aðild að Alþjóðaorkumálastofnuninni. Það er ljóst að útbúin hefur verið skýrsla og talsverð vinna hefur verið lögð í að undirbúa það mál. Ég fagna því, að hæstv. ráðh. skuli hafa lýst yfir stuðningi við aðild Íslands. Einhver fyrirstaða virðist þó vera í ríkisstj. Ef hæstv. ráðh. sér sér fært þætti mér vænt um að hann skýrði það frekar hér, hvort hugsanlegt sé að innan mjög skamms tíma megi búast við frv. frá ríkisstj. eða hvort opinberaðar verði þær skýrslur sem almenningur veit að til eru um þetta mál og manni skilst að séu jákvæðar í málinu. Í þriðja lagi er ástæða til að spyrjast fyrir um það, ef það gæti flýtt fyrir málinu, hvort hæstv. ráðh. treystir sér til að styðja frv. sem kæmi fram frá stjórnarandstöðunni um þetta mál.