31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3187 í B-deild Alþingistíðinda. (3312)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Á gamlársdag s. l. gaf ríkisstj. út brbl. um viðnám gegn verðbólgu, svo sem menn minnast. Þegar þetta skeði kom frá ríkisstj. það sem kallað var efnahagsáætlun ríkisstj. Þar var tekið fram að um leið og gjaldmiðli þjóðarinnar yrði breytt 1. jan. 1981 þannig að 1 nýkr. jafngilti 100 gkr. væru ákveðnar þær efnahagsaðgerðir sem nú skyldi greina, eins og segir í þessu plaggi. Þar eru margir töluliðir. En 14. tölul. þessa plaggs hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna íbúðabygginga og kaupa skal stefnt að því að breyta skammtímalánum og lausaskuldum í föst lán til lengri tíma. Að þessari skuldbreytingu verði unnið á vegum viðskrn., Seðlabanka, félmrn. og Húsnæðisstofnunar ríkisins.“

Það er nokkuð óvenjulegt að það séu gerðar slíkar ráðstafanir í húsnæðismálunum og ég minnist þess ekki á síðari áratugum, en þó er það ekki að ófyrirsynju að það sé gert. Hvers vegna er það? Það er vegna ástandsins í lánamálum húsbyggjenda. Oft hefur ástandið verið miður gott í þeim efnum, en ég hygg að það fari ekki milli mála að aldrei hafi ástandið verið verra og erfiðara fyrir húsbyggjendur að afla lánsfjár til bygginga sinna en einmitt á síðustu misserum.

Ég lít svo á að hæstv. ríkisstj. hafi gert sér grein fyrir þessu og andsvar hennar við þessu ástandi séu þær fyrirætlanir um að breyta skammtímalánum til húsbygginga í langtímalán sem hún gaf fyrirheit um á gamlársdag s. l. Hvað er það sem veldur þessu slæma ástandi? Það er fyrst og fremst það, hve hin almennu húsnæðislán, lán úr Byggingarsjóði ríkisins, eru lítill hluti af byggingarkostnaðinum. Þessi lán hafa alltaf verið of lág. En menn hafa oft og tíðum reynt að setja sér það markmið að hækka þau. Það hefur verið stefnumið í þessum málum að hækka íbúðalánin þannig að þau yrðu hærri hluti af byggingarkostnaðinum en áður. Það hefur gengið á ýmsu í þessu efni. Það var svo um 1959, að þá var talið að 28% af byggingarkostnaðinum væri það sem næmi lánum frá Byggingarsjóði ríkisins. Þetta fór smám saman batnandi á næsta áratug, þannig að 1971 var þetta hlutfall komið upp í 42%. 42% af byggingarkostnaði námu þá íbúðalánin. En á þeim áratug, sem síðan kom, miðaði ekki lengur í rétta átt í þessu efni, heldur öfuga átt þannig að 1980 voru lánin orðin 33% af byggingarkostnaði. Það er þessi þróun sem veldur hinu alvarlega ástandi í lánamálum húsbyggjenda.

Það er ömurlegt til þess að vita, að þegar það fór fram gagngerð endurskoðun á húsnæðislöggjöfinni á síðasta þingi var þess ekki gætt að efla Byggingarsjóð ríkisins til þess að hann væri betur fær um að gegna sínu mikilvæga hlutverki en áður. Það var farin öfug leið í þessu efni og skyldum var bætt á og aukin verkefni Byggingarsjóðs ríkisins á sama tíma sem þýðingarmesti tekjustofn Byggingarsjóðsins — 2% launaskatturinn — var tekinn af honum. Það er því ekki að furða að ástandið sé slæmt, og það er því ekki að ófyrirsynju að hæstv. ríkisstj. vill gera eitthvað til þess að bæta hér úr. En nú skiptir máli hvernig það verður gert, hvers eðlis það er. Þess vegna hef ég leyft mér á þskj. 399 að bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. félmrh.:

„1. Hvenær verður skammtímalánum og lausaskuldum vegna íbúðabygginga breytt í föst lán til lengri tíma?

2. Hvernig verður fjármagns aflað til hinna föstu lána?

3. Hver verða kjör hinna föstu lána: a) Vextir. b) Lánstími?“