31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3188 í B-deild Alþingistíðinda. (3313)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þegar ríkisstj. hafði gengið frá efnahagsáætlun sinni um áramótin var tekin um það ákvörðun í ríkisstj. að setja sérstaka nefnd til að kanna með hvaða hætti best væri staðið að því að breyta skammtímaskuldum og lausaskuldum vegna íbúðabygginga í föst lán til lengri tíma. Í nefndinni áttu sæti Jón G. Sólnes, sem var formaður nefndarinnar, Grétar Þorsteinsson formaður Trésmíðafélags Reykjavíkur, tilnefndur af félmrh., Jón Júlíusson deildarstjóri, tilnefndur af viðskrh., Ólafur Jónsson formaður Húsnæðisstofnunar ríkisins, tilnefndur af stjórn stofnunarinnar, og Jón Ormur Halldórsson aðstoðarmaður forsrh. Nefndin vann hratt og vel og skilaði fyrir um það bil mánuði tillögum sínum. Síðan nefndin skilaði áliti sínu hafa þessi mál verið til meðferðar á milli ríkisstj., viðskrn. og bankanna og niðurstöður af hálfu bankanna eru að fást þessa daga.

Það liggur sem sagt ekki fyrir í einstökum atriðum með hvaða hætti þessum málum verður háttað, en nefndin, sem fjallaði um málið, skilaði áliti fyrir fjórum vikum, eins og ég sagði, þar sem miðað var við að ákveðin skilyrði þyrfti að uppfylla til þess að menn fengju skemmri lánum sínum breytt í lán til lengri tíma. Það er alger samstaða á milli bankanna um þessi skilyrði, sem hér er um að ræða, sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að fá lán samkv. þessum reglum. Þau skilyrði eru:

1. Að umsækjandi hafi fengið lán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins á árunum 1978, 1979 og 1980 eða sé með lánshæfa umsókn samkv. núgildandi reglum stofnunarinnar.

2. Að umsækjandi eigi aðeins eina íbúð eða íbúðarhús, byggt eða keypt á þessum árum til eigin afnota.

3. Að umsækjandi skuldi 20 þús. nýkr. eða meira sem greiðast eiga upp á næstu þremur árum eða skemmri tíma. Undanskilin skulu skammtímalán veitt vegna væntanlegra húsnæðislána eða lífeyrissjóðslána.

Í áliti nefndarinnar, sem lagt var fyrir ríkisstj. fyrir nokkrum vikum, eins og ég sagði, var gert ráð fyrir að þau lán sem hér yrði um að ræða, yrðu tengd lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands, sem sagt verðtryggð. Hins vegar hefur ekki verið tekin ákvörðun um það, til hversu langs tíma þessi lán verða. Þar hafa verið uppi hugmyndir um tímabil frá 7 og upp í 10 ár. Um vexti af þessum lánum hefur ekki endanlega verið tekin ákvörðun heldur, en gert er ráð fyrir að hér verði um að ræða svipuð kjör í meginatriðum og Húsnæðisstofnun ríkisins er með á sínum lánum, að teknu tilliti til lánskostnaðar hverju sinni. Gert er ráð fyrir því í þessum tillögum, og bankarnir hafa fallist á þær, að lánsfjárhæðin geti numið allt að 100 þús. nýkr. og verði veðsetning eignar þó aldrei hærra hlutfall en 65% af brunabótamati viðkomandi eignar. Í þeim viðræðum, sem farið hafa fram um þessi mál, hefur verið gert ráð fyrir því, að að þeim verði unnið í samvinnu Húsnæðisstofnunar ríkisins og viðskiptabankanna.

Ég geri ráð fyrir því, að með þessum orðum sé í raun og veru svarað þeim fsp. sem hv. 4. þm. Vestf. hefur lagt hér fram, og ég geri ráð fyrir því, að niðurstaða úr þessum viðræðum muni liggja fyrir allra næstu daga. Hæstv. viðskrh. fjallar um þau mál sem snúa að bönkunum, eins og gefur að skilja, og ég geri ráð fyrir að niðurstöður úr þeim viðræðum eigi að geta legið fyrir allra næstu daga.

Varðandi þann inngang, sem hv. 4. þm. Vestf. hafði hér um húsnæðismál, mætti margt segja. Hann hefur haldið mjög svipaðar ræður nokkuð oft hérna í þinginu frá því að ég tók við stjórn félmrn. Ég kannast við þennan tón. Í ræðu hans áðan kom í raun og veru ekkert fram annað en þessar venjulegu hrakspár um það húsnæðislánakerfi sem samþykkt var með lögum á Alþingi s. l. vor, það sé í raun og veru kerfi sem sé óalandi og óferjandi og í alla staði hið versta.

M. a. kvartaði hann í ræðu sinni áðan yfir því, að í þessum húsnæðislögum hefði verið gert ráð fyrir stórauknum verkefnum. Hver eru þessi auknu verkefni sem gert er ráð fyrir í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá því s. l. vor? Þau eru t. d. ýmsir sérstakir nýir lánaflokkar, svo að ég nefni dæmi: varðandi orkusparandi aðgerðir við breytingar á húsnæði, varðandi sérþarfir fatlaðra og fleiri dæmi mætti nefna um lánaflokka sem hér hafa verið teknir upp og skipta afskaplega miklu máli. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli líka í þessu sambandi að menn athugi að með þessum húsnæðislögum var stigið það skref að lán eru mismunandi eftir fjölskyldustærð, þannig að lán til stærstu fjölskyldna hækka á þessu ári langt umfram verðlagsþróun á milli áranna 1980 og 1981. En þetta er að sjálfsögðu einskis metið af þeim sem jafnan reyna að finna það sem verst fer í lagasetningu eins og þessari. Þó gleyma menn því auðvitað alveg sérstaklega, og sérdeilis hv. 4. þm. Vestf., að í þessum lögum var gert ráð fyrir að fjármagna um þriðjung íbúðabygginga í landinu eða stefna að því á vegum Byggingarsjóðs verkamanna og honum voru tryggðar stórauknar tekjur frá því sem nokkru sinni hefur verið. Ég er því þeirrar skoðunar, að í þessum lögum, eins og þau voru úr garði gerð, felist í raun og veru félagsleg stórtíðindi sem skipti ákaflega miklu máli fyrir alla gerð samfélags okkar.

Varðandi þau mál, sem hér er spurt um sérstaklega og snúa að bönkunum, vil ég segja það, að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að fella þjónustu bankakerfisins við húsbyggjendur í landinu í skipulegan farveg og tengja hana eins og kostur er við hið almenna opinbera húsnæðislánakerfi. Ég tel að þær viðræður, sem átt hafa sér stað að undanförnu um breytingu á skammtímaskuldum húsbyggjenda í lengri lán, séu viðræður um að koma á vísi að skipulegu samstarfi bankanna og hins almenna húsnæðislánakerfis. Ég tel að þar sé um að ræða þýðingarmikið skref. Það er ljóst, að niðurstaða um hvernig það verður útfært í einstökum atriðum mun fást núna allra næstu daga.