31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3192 í B-deild Alþingistíðinda. (3319)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það hefur komið í ljós að það ákvæði í yfirlýsingu ríkisstj., sem er til umr. í dag, er eins og margt, sem birtist í efnahagsáætluninni, ákaflega lítið hugsað. Það virðist vera sem hæstv. ríkisstj. hafi á engan hátt verið búin að gera sér grein fyrir því, hvernig eða yfirleitt hvort hægt væri að efna margt af því sem þar stóð.

Ég er ekki eins bjartsýnn og hæstv, viðskrh. um að lausn á þessum málum sé „ handan við hornið,“ eins og hann orðaði það. Ástæðan er m. a. sú sem hann drap á í ræðu sinni, að sparisjóðirnir í landinu hafa snúist mjög öndverðir gegn þessum hugmyndum sem ríkisstj. hefur sett fram. Sparisjóðirnir mynda net um land allt og sparisjóðirnir hafa lánað mikið fé til húsbygginga. Hafa það verið lán umfram það sem menn hafa átt kost á úr hinu almenna húsnæðismálakerfi eða úr lífeyrissjóðum. Forstöðumenn sparisjóða um allt land þekkja sjálfsagt best sitt heimafólk og vita hvar skórinn kreppir mest að. Þeir hafa því snúist öndverðir gegn því að eiga að hlíta því, að einhver sértilgreindur hópur af þeirra viðskiptavinum — hópur sem fékk húsnæðismálastjórnarlán á ákveðnu árabili — eigi að fá sérstaka fyrirgreiðslu sem að sjálfsögðu kemur niður á öðrum viðskiptavinum og öðrum þeim sem þurfa á slíkum lánum að halda. Ég hygg því að því miður sé þessi lausn ekki jafnauðveld og hæstv. ríkisstj. gefur til kynna. Þar við bætist einnig að nú er verið að óska þess við sparisjóðina og fara fram á það, að þeir kaupi í ríkum mæli skuldabréf af ríkissjóði. Þar með verður enn rýrt það fjármagn sem sparisjóðirnir sjálfir telja sig best umkomna að dreifa meðal viðskiptamanna sinna. Þessar aths. vildi ég láta koma fram undir þessari umr.