31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3194 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af því sem hv. 1. þm. Vesturl. sagði. Hann sagði að gagnrýni okkar Alþfl.-manna hefði fyrst og fremst verið um lánstímann og vextina. Um lánstímann er það að segja að sáralitlu munar í árlegum greiðslum lántakenda á því, hvort lánið er til 21 árs eða 26 ára, ótrúlega litlu þegar um annuitets-lán er að ræða. Við töldum betra að hafa lánstímann styttri, en lána meira.

Varðandi útlánsvextina er það að segja, að það er auðvitað grundvallaratriði, þegar til lengri tíma er lítið, að það sé ekki lánað út á lægri vöxtum en Byggingarsjóður þarf að borga sjálfur fyrir þau lán sem hann tekur. Það tæmir hann auðvitað. Það, sem við gagnrýnum fyrst og fremst, er að um leið og Byggingarsjóði er falið að gera ýmislegt gott, því að það er honum vissulega falið, þá er fjárhagslegum grundvelli kippt í burtu. Það er alveg sama hvað við erum með góð markmið á pappírnum. Ef við höfum ekki peninga til að koma þeim í framkvæmd komumst við lítið áfram.