31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3196 í B-deild Alþingistíðinda. (3324)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að hag þeirra húsbyggjenda, sem nú eru hvað verst settir og hverra málefni eru hér til umræðu, væri mun betur komið ef Alþingi bæri gæfu til að samþykkja þau lagafrv. sem Alþfl. hefur lagt hér fram í þessum málum. Húsnæðismálalán væru þá 35% af kaupverði staðalíbúðar í stað 20–25%, eins og verið hefur að undanförnu. Með húsnæðismálafrv. fyrrv. félmrh., Magnúsar H. Magnússonar, var að þessu stefnt og fjármagn til þess tryggt. Auk þess var gert ráð fyrir að húsbyggjendur fengju verðtryggð lán úr bankakerfi til 15 ára. Heildargreiðslubyrði íbúðakaupenda af öllum lánum yrði þá aðeins um 1.8 millj. gkr. í stað 5.9 eins og nú er. Stjórnarsinnar ræða nú um það sumir hverjir, að afkoma bankakerfisins sé slík að þá sjóði þurfi að nýta. Þeim verður þá væntanlega varla til annars betur varið en slíks.

Eitt af því versta, sem gerst hefur í húsnæðismálum í tíð núv. ríkisstj., er vafalaust það, að sú stefna hefur verið valin, að með því að veita auknu fjármagni til Byggingarsjóðs verkamanna, sem auðvitað er góðra gjalda vert, skuli það gert á kostnað hins almenna húsnæðislánakerfis. Sú tala hefur þegar verið nefnd. Ríkisframlagið til almenna húsnæðismálakerfisins er aðeins 4.3 milljarðar kr. Rétt er að það komi fram, að þetta ríkisframlag fer, eftir því sem fram hefur komið af opinberum gögnum, m. a. hjá Landssambandi iðnaðarmanna, allt saman í það að standa við eldri skuldbindingar um lánveitingar Byggingarsjóðs vegna byggingar leigu- og söluíbúða sveitarfélaga. Þess vegna er vafasamt að telja að framlagið sé nokkurt í reynd. Ef um hefði verið að ræða óbreytta tekjustofna hefðu þeir gefið um 15 milljarða gkr. En í stað þessara föstu tekjustofna er Byggingarsjóði ætlað að afla fjár með óhemjumiklum lántökum, langt umfram það sem raunsætt getur talist. Þannig er gert ráð fyrir lántöku hjá lífeyrissjóðum, sem um leið skerðir náttúrlega getu þeirra til að lána félagsmönnum sínum, upp á 19.6 milljarða gkr. Þetta er um 48% af fjárinnstreymi sjóðsins. Þetta er 169% aukning á lántöku milli ára. Og möguleikar Byggingarsjóðs á fjáröflun í formi lána af skyldusparnaðarfé og atvinnuleysistryggingafé eru langsamlega ofmetnir samkv. reynslu liðinna ára. Það er röng stefna að ætla að fjármagna Byggingarsjóð ríkisins eingöngu með lánum. Einkum og sér í lagi er það hættulegt þegar til lengri tíma er litið vegna þess að lánin, sem Byggingarsjóður fær frá lífeyrissjóðum, eru til skemmri tíma og með hærri vöxtum. Þetta þýðir það, að þegar fram líða stundir er stefnt að því að ríkisframlögin fari raunverulega öll í að greiða vaxtamuninn. Með þessu háttalagi er útlánagetu almenna húsnæðislánakerfisins stefnt í vísan voða.