31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3197 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

375. mál, lán til íbúðabygginga

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það eru nokkrar meginstaðreyndir sem verður að hafa í huga í þessum málum:

1. Byggingarsjóður ríkisins stendur við skuldbindingar sínar á þessu ári og allir nýju lánaflokkarnir samkv. lögum, sem samþ. voru á Alþingi í fyrravor, eru settir af stað á þessu ári.

2. Byggingarsjóður verkamanna hefur átján sinnum meira fjármagn frá ríkinu en áður til ráðstófunar á þessu ári og getur fjármagnað verulega myndarlegt átak þegar á þessu ári til stóraukinna félagslegra íbúðabygginga.

3. Byggingarsjóður ríkisins hækkar lán til stórra fjölskyldna á þessu ári langt umfram verðlagsforsendur. Varðandi raunvaxtastefnuna má hv. þm. Friðrik Sophusson hafa þá skoðun á afstöðu Alþb. til hennar sem honum sýnist. En ef það hefur gerst, að Alþb. hafi fallist á raunvaxtastefnuna, er annar flokkur hér sem mér sýnist þá líka hafa skipt um skoðun og það er Alþfl. Ræða hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar var í raun og veru fyrst og fremst gagnrýni á raunvaxtastefnuna og afleiðingar hennar, hvernig hún kemur út í samskiptum sjóða og einstaklinga hér í þjóðfélaginu.

Það er algengt að hér á hv. Alþingi komi menn og lesi langa texta upp úr forustugreinum dagblaða, einkum er hv. 7. landsk. þm. þetta kært og les hann gjarnan langan lestur upp úr forustugreinum Þjóðviljans frá árinu 1978. Það hefur hins vegar aldrei gerst fyrr í þingsögunni, að ég held, en núna, að hv. þm. lesi leiðara eftir sjálfa sig, eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gerði áðan fyrir þingheim, og er það fróðleg nýlunda frá því sem verið hefur í málflutningi á Alþingi. (FrS: Hvernig væri að fyrrv. ritstjóri Þjóðviljans læsi upp fyrir okkur?)