31.03.1981
Sameinað þing: 67. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3202 í B-deild Alþingistíðinda. (3331)

341. mál, lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn

Fyrirspyrjandi (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið. Það er auðvitað rétt hjá honum, að þau þrjú mál, sem hann gat um, eru nauðsynlegur undanfari: skráning réttinda og annað því um líkt. En eftir sem áður er höfuðverkefni nefndarinnar að koma með tillögur um samfellt lífeyrisréttindakerfi, eins og segir í skipunarbréfi hennar.

Hæstv. ráðh. kom inn á það, að samræming væri í sjálfu sér ekki nægileg. Það er alveg rétt. Þetta eru flókin vandamál. Það eru flókin vandamál hvernig á að sameina þá sjóði sem til eru, hvernig þeir eigi að vinna saman eða hvernig þeir eigi að sameinast. Það eru flókin vandamál og það kostar verulega fjármuni. Þó er hægt að gera það án þess að um mjög mikla fjármuni sé að ræða á fyrsta stigi, með því að breyta þeim að einhverju eða öllu leyti í gegnumstreymissjóði. En þá kemur aftur á móti það vandamál: Hvernig á að afla fjár til þess sem lífeyrissjóðirnir standa undir núna, þ. e. lána til húsbyggjenda og lána til framkvæmda ríkisvaldsins, Byggðasjóðs o. s. frv.?

Hæstv. ráðh. kom inn á það, að því hefði verið lofað, að þessu kerfi yrði komið á árið 1982. Til þess að svo megi verða þarf að vinna vel, og ég vona að hann ýti vel á eftir þessari ágætu nefnd.

Ég endurtek svo þakklæti mitt til hæstv. ráðh. fyrir svarið.